Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 11:24:16 (4050)

2003-02-26 11:24:16# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[11:24]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það var mjög dapurlegt að hlýða á fulltrúa stjórnarmeirihlutans, fulltrúa Framsfl., réttlæta eyðileggingu á einni helstu og fegurstu náttúruperlu þessa lands, réttlæta útsöluprís á rafmagni til bandaríska stórfyrirtækisins Alcoa, sem er að pakka saman, draga saman seglin heima fyrir vegna hás raforkuverðs. Þetta gátu þeir gert eftir að þeir uppgötvuðu Framsóknarflokkinn. Ef það væri Framsóknarflokkurinn einn sem hvíldi í klóm Alcoa þá væri málið ekki svo ýkja alvarlegt en þeir eru að taka þjóðina alla með sér.

Hér talaði hv. þm. Hjálmar Árnason um réttláta skattlagningu á stóriðjufyrirtæki á Íslandi. Ég hefði kosið að hann hefði horft til íslenskra fyrirtækja og íslensks atvinnulífs og horfið frá ívilnunum til stóriðju. Hann sagði ekki vitað hvernig atvinnulífinu mundi vegna eftir fáein ár. Það er alveg rétt. En eitt er vitað, samkvæmt varnaðarorðum Seðlabanka, fjmrn. og fjármálasérfræðinga mun íslenskum atvinnufyrirtækjum vegna verr en ella vegna áforma ríkisstjórnarinnar. Þetta er staðreynd.

En spurningin sem ég vildi beina til hv. þm. og formanns iðnn. þingsins lýtur að ESA. Hefur honum verið kynnt, þá iðnn. einnig, hvers ESA hefur óskað, og hvaða gögn hafi verið send til ESA-dómstólsins. Hefur þetta mál verið tekið til formlegrar umræðu og viðræðu í iðnn. þingsins? Ég hef farið fram á að slík kynning fari fram í efh.- og viðskn. þingsins en okkur hefur verið skýrt frá því að þá verðum við að undirgangast það að láta ekkert uppi, þegja yfir staðreyndum málsins gagnvart þjóðinni. Ég óskaði eftir rökstuðningi fyrir því, hvers vegna okkur ber að þegja.