Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 11:28:50 (4052)

2003-02-26 11:28:50# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[11:28]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Heldur var nú fátt um svör. Málið snýst um hvaða leið er vænlegust til árangurs til atvinnusköpunar í landinu. Við höfum sýnt fram á að miðstýrð þungaiðnaðarstefna Framsfl. veiki möguleika annarrar atvinnustarfsemi í landinu og sé ekki líkleg til að stuðla að þeirri grósku sem við viljum sjá í efnahagsstarfseminni á komandi árum. Við höfum fært rök fyrir því og munum að sjálfsögðu gera það í umræðunni í dag, þá gagnvart öðrum ráðherrum og ábyrgðarmönnum.

Hér talaði hv. formaður iðnn. þingsins sem er fyrsti talsmaður þessa máls hér við umræðuna. Hann hefur ekki óskað eftir gögnum sem send hafa verið til ESA sem hljóta að vera forsenda þess að þetta mál gangi upp. ESA er með málið til athugunar, hvort það stríði gegn reglum sem við höfum undirgengist á hinu Evrópska efnahagssvæði. (Forseti hringir.)

Ég hefði viljað vita í hverju niðurgreiðslan er fólgin sem verið er að fjalla um. Er það hafnargerðin og ívilnanir við mengunarkvóta? Við vitum það ekki.

(Forseti (ÍGP): Ég minni hv. þingmann á að virða tímamörk.)