Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 11:30:17 (4053)

2003-02-26 11:30:17# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[11:30]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. getur varla ætlast til þess að iðnn., þó að hún sé merkileg, grípi inn í ferlið hjá ESA. (ÖJ: Á sínum málum ...) ESA er með málið til skoðunar eins og hv. þm. veit, og niðurstöður og úrskurður ESA kemur. En þá er langt til seilst þegar meira að segja formaður þingflokks Vinstri grænna hangir núna á síðasta stráinu sínu, voninni um að ESA stöðvi málið, það sem hann kallar miðstýrða atvinnustefnu Framsfl. (ÖJ: Þú meinar það.) Það er þó gott að Framsfl. hafi stuðning frá ASÍ, Samtökum iðnaðarins, Samtökum atvinnulífsins og yfirleitt öllum sveitarfélögum sem um þetta hafa tjáð sig. (ÖJ: Á þá ekki að kjósa um málið?) Ég fagna því að það skuli vera til svo margir framsóknarmenn í landinu sem styðja þessa atvinnustefnu. Þetta er atvinnustefna sem skapar verðmæti, hún skapar störf en því hefur hundasúrustefnan því miður ekki skilað til okkar enn þann dag í dag, því miður. (ÖJ: Af hverju þorið þið ekki að láta kjósa um málið? Af hverju erum við að ræða þetta þá? Er þetta grín?)