Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 11:33:55 (4055)

2003-02-26 11:33:55# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[11:33]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að rétt sé að draga það fram hér að fram hefur komið í iðnn. að iðnn. öll, fyrir utan fulltrúa Vinstri grænna, styður málið. Það held ég að sé nokkuð lýsandi fyrir stöðu þessa máls hjá þjóðinni. Yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar sér hvaða áhrif þetta hefur, hvaða jákvæðu áhrif þetta hefur fyrir efnahagslíf okkar, fyrir byggðamálin, skapar atvinnu og þar fram eftir götunum eins og hér hefur verið farið yfir en því miður eiga hv. fulltrúar Vinstri grænna erfitt með að skilja það, enda virðist verðmætasköpun einhvern veginn ekki vera inni á borði hjá þeim ágæta stjórnmálaflokki.

Hvers vegna var spurning iðnn. og erindi iðnn. til hv. umhvn. svo þröngt? spyr hv. þm. Varla getur hv. þm. ætlast til þess að þingmenn eða þingnefndir fari að stunda umhverfismat. Það er ekki hlutverk þingsins. Hér var mikil umræða á sínum tíma og ég vissi ekki betur en að þingmenn hefðu fagnað því að hér voru sett lög um mat á umhverfisáhrifum. Það er það verkfæri sem löggjafarvaldið hefur sett framkvæmdarvaldinu, að fara þar eftir ákveðnu ferli, og þar koma að ýmsar stofnanir. Þar hefur almenningur alla möguleika til þess að gera athugasemdir. Þar fer fram matið. Það fer ekki fram innan þingsins. Við förum ekki upp á hálendið nema kannski til að kynna okkur aðstæður en það erum ekki við sem veltum við steinum, teljum hreindýr og þar fram eftir götunum og skoðum hin eiginlegu áhrif. Til þess höfum við sett lög. Til þess höfum við stjórnsýslustofnanir og það er þess vegna sem við spurðum hvort hefði verið farið að lögum. Meira þurftum við ekki að vita.