Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 11:45:44 (4062)

2003-02-26 11:45:44# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, Frsm. 1. minni hluta SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[11:45]

Frsm. 1. minni hluta iðnn. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti 1. minni hluta sem fulltrúar Samfylkingarinnar í iðnn. skipa.

Nú hefur það komið fram, herra forseti, í máli formanns nefndarinnar og framsögumanns meiri hluta nefndarinnar að fulltrúar iðnn. séu sammála um stuðning við málið fyrir utan fulltrúa Vinstri grænna. Það er samt þannig að við fulltrúar Samfylkingarinnar vildum að í áliti okkar, sérstöku áliti, kæmi fram okkar sýn á þetta mál og umfjöllun um þau álitaefni sem við teljum eðlilegt að stjórnvöld skoði, m.a. til þess að leiðrétta það umhverfi sem atvinnufyrirtækin í landinu búa almennt við og ég kem betur að á eftir.

Herra forseti. Það er alveg ljóst og kemur glögglega fram í allri umfjöllun í dag um efnahags- og atvinnumál að bygging Kárahnjúkavirkjunar og álvers við Reyðarfjörð hefur þegar áhrif á efnahagslíf í landinu. Við vitum líka að þetta hvort tveggja og starfræksla álversins í framtíðinni mun auk hinna þjóðhagslegu áhrifa hafa mikil áhrif á samfélags-, byggða- og atvinnuþróun á áhrifasvæði framkvæmdanna. Mest munu áhrifin væntanlega verða á Miðausturlandi. Þessum framkvæmdum er líka ætlað að hafa áhrif í þá veru að efla og styrkja byggð á Austurlandi og jafnvel víðar. Þeim er líka, herra forseti, ætlað að styðja hér við framleiðslu, útflutning og þar með að styðja við þjóðarframleiðslu á Íslandi og eiga þannig að nýtast allri þjóðinni. Það eru hin þjóðhagslegu áhrif.

Til að glöggva sig á áhrifum álversframkvæmdanna sérstaklega og af starfrækslu álversins í framtíðinni hafa verið samdar nokkrar skýrslur sem hafa verið hluti af mati á umhverfisáhrifum, bæði um áhrif á umhverfi og hugsanleg samfélagsleg áhrif og síðan einnig um efnahagsleg áhrif, bæði til skemmri og lengri tíma. Að öllu þessu samanteknu, öllum þeim niðurstöðum sem fyrir liggja, styður Samfylkingin þessar framkvæmdir. Það er þó ljóst að ýmsum hliðarráðstöfunum þarf að beita til að ávinningur verði sem mestur af framkvæmdinni. Herra forseti. Hér er um að ræða gífurlega stórt verkefni og til þess að ávinningur verði sem mestur þarf hér trausta hagstjórn. Fulltrúar Samfylkingarinnar telja líka mikilvægt að reynt verði að draga sem mestan lærdóm af framkvæmdinni og því sem henni fylgir, bæði í efnahagslegu og samfélagslegu tilliti. Ég mun víkja fyrst að hinum samfélagslegu áhrifum.

Um það hefur ríkt nokkuð almenn samstaða á Íslandi að byggja þurfi landið til að nýta sem best gögn þess og gæði. Við höfum verið mikil náttúrunýtingarþjóð og verðum það fyrirsjáanlega í næstu framtíð þó að við bindum vonir við að fjölbreytni atvinnulífsins fari vaxandi. Stjórnvöld á hverjum tíma hafa verið gagnrýnd fyrir andvaraleysi og aðgerðaleysi í byggðamálum. Það má kannski segja að mönnum sé ákveðin vorkunn þegar verið er að takast á við byggðamálin. Fólksflutningar á Íslandi voru fyrst og fremst á síðustu öld og standa reyndar enn. Þeir hófust mun síðar en í nágrannalöndum, hundruðum ára síðar, en gerðust þá af þeim mun meiri krafti, með þeim mun meiri látum og alvarlegri afleiðingum á ýmsum stöðum. Þess vegna hefur þetta aðgerðaleysi eða aðgerðir í byggðamálum verið þess eðlis að sitt hefur sýnst hverjum. Það er þó öllum ljóst að gangi þær framkvæmdir eftir sem nú eru fyrirhugaðar á Austurlandi munu þær hafa mikil samfélagsleg áhrif á helsta áhrifasvæði framkvæmdanna og á byggða- og atvinnuþróun langt út fyrir það. Nú gefst einstætt tækifæri til að rannsaka og meta þessi áhrif og nýta niðurstöður þeirra rannsókna til inngripa ef stjórnvöld meta slíkt nauðsynlegt.

Herra forseti. Það er fjallað um það í nál. meiri hluta nefndarinnar að mikilvægt sé að fyrirtækið Fjarðaál skipuleggi í samstarfi við sveitarfélög og samtök í atvinnulífi ýmislegt sem snertir félagslegt umhverfi starfsfólks. Síðan er talið upp það sem mætti þá líta til og fjallað um það álit nefndarinnar að mikilvægt sé í samstarfi við Fjarðaál að unnið verði skipulega að samfélagslegum áhrifum hinnar miklu uppbyggingar.

Það kom fram við vinnslu nefndarinnar á þessu frv. hjá fulltrúa Nýsis að fordæmi eru fyrir því erlendis að virkt samstarf sé á milli fyrirtækis sem er svo ráðandi í atvinnulífinu og fulltrúa sveitarfélaga og ríkisins um að takast á við þær breytingar sem verða óhjákvæmilega í umhverfi þess fyrirtækis sem um ræðir hverju sinni, þ.e. samstarf sem miðar þá að því að hámarka ávinninginn en reyna að bægja frá þeim erfiðleikum sem hægt er að bægja frá eða vinna með þá þannig að þeir skaði sem minnst.

Þetta er auðvitað mjög mikilvægt og við tökum heils hugar undir þær ábendingar að hæstv. iðnrh., í samvinnu við heimamenn, þau sveitarfélög sem málið varðar helst, ræði við fulltrúa Fjarðaáls um möguleika þess að fyrirtækið komi með skapandi hætti að þessu verkefni.

Herra forseti. Það er mikilvægt, eins og ég sagði hér áðan, að nú er einstakt tækifæri til að rannsaka og meta þessi áhrif. Farið gætu fram merkilegar og mikilvægar byggðarannsóknir þarna og það væri til vansa að ráðast í svo gríðarlegar framkvæmdir án þess að kanna afdrif mannfólksins, rétt eins og náttúrunnar. En ljóst er að fylgst verður náið með náttúrunni á tilteknum svæðum svo að unnt verði að bregðast við ef þurfa þykir. Auk þess sem rannsókn af þessu tagi gæti leitt til skynsamlegra mótvægisaðgerða gagnvart mannlífinu gefst hér einstakt tækifæri til þess að átta sig á hvaða kraftar kunna að vera að verki þegar fólk tekur ákvörðun um búsetu og fjárfestingu og til hvaða aðgerða stjórnvöld geta gripið vilji þau hafa bein áhrif á byggðaþróun. Rannsóknarniðurstöður af þessu tagi gætu því nýst fleirum en Íslendingum ef vel væri að verki staðið.

Herra forseti. Afar mikilvægt er að safna upplýsingunum um það sem gerist á vettvangi jafnóðum og framkvæmdir eru í gangi því að í mörgum tilfellum er ógerlegt eða til muna erfiðara að nálgast þær eftir á. Þá tryggir eftirlit sem þetta betri möguleika á viðbrögðum ef eitthvað virðist ætla að ganga í aðra átt en vænst var eða æskilegt þykir. Fulltrúar Samfylkingarinnar vísa í þessu sambandi til þingsályktunartillögu um rannsóknir á samfélagslegum áhrifum álvers- og virkjunarframkvæmda á Austurlandi, sem er 511. mál þingsins.

Herra forseti. Varðandi hin efnahagslegu áhrif vísum við til minnihlutaálits fulltrúa Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd, sem hér fylgir með, en meginniðurstöður þess eru að áhrif álvers í Reyðarfirði í tengslum við virkjun við Kárahnjúka muni til lengri tíma styrkja hagkerfið. Reynslan sýnir að til lengri tíma er alla jafna sterk jákvæð fylgni milli útflutningstekna og þjóðartekna. Aukinn útflutningur álafurða mun því efla þjóðartekjur.

Það er mikilvægt, herra forseti, að menn horfi til grósku atvinnulífsins. Þess vegna leggur 1. minni hluti efh.- og viðskn. --- og undir það tökum við --- mikla áherslu á þær mótvægisaðgerðir og þá traustu efnahagsstjórn sem þarf til þess að sá ávinningur sem kann að vera í þessari stöðu nýtist sem mest og best.

Það er alveg ljóst að þau efnahagsmistök sem hæstv. ríkisstjórn gerði fyrir árþúsundaskiptin --- þau hófust kannski árið 1998 og héldu áfram 1999 --- höfðu ákveðin áhrif til þess að stöðva hér grósku í atvinnulífinu og við erum að hluta til að súpa seyðið af því núna. Auðvitað hefðu menn viljað sjá sprotafyrirtækjum, þeim nýju fyrirtækjum sem þá voru að verða til, búið það umhverfi sem þeim var nauðsynlegt til frekari þroska. Afleiðingin af þessum efnahagsmistökum, herra forseti, er sú að atvinnuleysið í dag er óvenjulegt að því leyti að nú er stór hópur háskólamenntaðs fólks atvinnulaus, fólks sem hafði lagt allt sitt í að reyna að skapa hér ný atvinnutækifæri. Sannarlega viljum við sjá þá umgjörð atvinnulífsins verða til að þúsund blóm geti sprottið. En við getum ekki, herra forseti, einangrað okkur við að hér verði bara til sprotafyrirtæki sem eigi vaxtarmöguleika. Við hljótum líka að horfa til þess að hér verði til stórfyrirtæki, að hér á landi geti öll flóran þrifist undir þeirri efnahagsstjórn sem hefur skilning á því hvað þarf til til þess að atvinnulífið megi þroskast.

Herra forseti. Bent er á það í áliti 1. minni hluta efh.- og viðskn. að til skamms tíma geti þetta verkefni haft neikvæð áhrif á efnahagslífið sem birtist í hærra raungengi og hærri vöxtum en ella. Gríðarlegt gjaldeyrisinnstreymi mun verða á framkvæmdatímanum og það mun að óbreyttu auka spennu á vinnumarkaði og stuðla að enn hærra gengi krónunnar. Þessi aukna spenna mun einnig setja þrýsting á verðbólgu og þessi áhrif framkalla svokölluð ruðningsáhrif, þ.e. starfsemi sem ræður ekki við ýkt skammtímaáhrif þessara framkvæmda mun láta undan síga. Sömuleiðis mun í framhaldinu sú starfsemi sem ekki er eins framleiðin og stóriðjan einnig láta undan síga af völdum hás gengis og/eða hárra vaxta. Og svo, eins og hér var nefnt áðan, munu þau fyrirtæki sem ekki geta keppt í launum einnig láta undan síga. En það er jú sú þróun sem við teljum æskilega að tæknivædd atvinna sem byggir á þekkingu og getur greitt hærri laun taki við af þeirri sem ekki getur staðið undir þeim lífskjörum sem almennt er gerð krafa um í landinu. Því mun, eins og ég sagði áðan, reyna mjög á hagstjórnina. Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja höfuðáherslu á að sem best samvinna takist við stjórn peninga- og ríkisfjármála svo að sem mestur ávinningur verði af framkvæmdunum fyrir þjóðarbúið allt.

Við leggjum áherslu á það einnig, herra forseti, að haft verði samstarf við þá sem hafa verið kallaðir aðilar vinnumarkaðarins þegar tekist er á við þetta verkefni. Þetta hélt ég, herra forseti, að væri sameiginlegur vilji okkar allra og að um það gæti þjóðin þó sameinast að æskilegt væri að hér tækju menn höndum saman.

[12:00]

Það kom því á óvart þegar sú fyrirsögn birtist í Morgunblaðinu í gær að fjmrh. teldi ekki þörf á formlegu samstarfi. Í þeirri stöðu sem við erum núna með atvinnulífið haldandi fundi og ráðstefnur um skaðleg áhrif og skaðlegar afleiðingar hágengis, með þann áhuga sem er hjá aðilum vinnumarkaðarins á því að koma að þessu verkefni til þess að sem best megi takast til, þá er það í rauninni fráleitt að fjmrh. skuli sýna þann hroka, leyfi ég mér að segja, sem hér birtist. Nei, hann telur ekki þörf á formlegu samstarfi.

Tilefni þess að hann vísar slíku samstarfi á bug er það að Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, sagði nauðsynlegt að efna til þess háttar samstarfs í ræðu sem hann flutti á fundi Samtaka atvinnulífsins sl. föstudag. Ég vitna beint í fréttina, með leyfi forseta:

,,Sagði Gylfi að stjórnvöld, Seðlabanki Íslands og aðilar vinnumarkaðarins þyrftu að koma á formlegu samstarfi til að samræma viðbrögð hagstjórnar.``

Herra forseti. Þessu svarar hæstv. fjmrh. með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:

,,Ég tel að þeir hafi ekki verið í vandræðum með að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Alls ekki. Alþýðusambandið er oft á fundum bæði með forsætisráðherra og öðrum ráðherrum, eða hér í ráðuneytinu á fundum með mér um ýmis mál.``

Herra forseti. Þetta er ótrúlegt svar. Þessi frétt er satt að segja ótrúleg. Og hún verður í rauninni enn ótrúlegri þegar maður les hana áfram því að síðar í fréttinni kemur fram að Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segist styðja hugmynd Gylfa Arnbjörnssonar heils hugar. Það er sem sagt skilningur á því hjá Alþýðusambandinu og Samtökum atvinnulífsins að hér sé um verkefni af þeirri stærð að ræða að menn þurfi að hafa með sér samstarf. Það sé ekki nóg að mæta á fundi eftir atvikum hjá þessum eða hinum ráðherranum til þess að fara yfir einhver mál. Nei, menn þurfi að hafa með sér formlegt samstarf. Undir þetta tökum við og hörmum að stjórnvöld skuli með þessum hrokafulla hætti afhjúpa í rauninni, herra forseti, það kæruleysi eða þekkingarskort sem því miður hefur örlað á gagnvart því sem er að gerast núna í íslensku atvinnu- og efnahagslífi.

Strax þegar þing kom saman eftir jólaleyfi vöktum við fulltrúar Samfylkingarinnar athygli á því hvert gengisstefnan, eins og hún var þá eða hágengið, gæti leitt í efnahags- og atvinnulífinu en, herra forseti, á þeirri stundu kaus hæstv. forsrh. að nýta tíma sinn í það að snúa út úr með því að vísa málum nokkur ár fram í tímann.

Herra forseti. Það er áhyggjuefni að stjórnvöld skuli ekki sýna meiri ábyrgð í þessu efni.

Varðandi langtímaáhrif þessara framkvæmda hefur Seðlabankinn bent á að í fyrra var álútflutningur 19% af heildarvöruútflutningi okkar en til samanburðar var útflutningur sjávarafurða um 62% af heildarvöruútflutningi. Á árinu 2008 má hins vegar ætla að hlutfall áls í vöruútflutningi verði komið upp í 30% en vægi sjávarafurða komið niður fyrir helming. Að sama skapi mun útflutningur áls af vergri landsframleiðslu vaxa úr 5% í 10% á sama tíma. Þetta finnst mér mikilvægar upplýsingar. Ég er í hópi þeirra sem hafa gjarnan viljað sjá þá þróun verða að vægi sjávarafurða varðandi vöruútflutninginn minnkaði, að við gætum orðið útflutningsframleiðsluþjóð á fleiri sviðum og með myndarlegri hætti en við höfum verið. Það er gott fyrir gjaldeyrisöflun okkar, það er gott fyrir efnahagsjafnvægið í landinu og það er eftirsóknarvert markmið að svo verði.

Ég vænti þess, herra forseti, að við munum í framtíðinni sjá þessi hlutföll halda áfram að breytast vegna þess að það er mikilvægt fyrir hina almennu efnahagsstjórn að einn þáttur atvinnulífsins sé ekki svona dómínerandi, ekki svona yfirgnæfandi eins og sjávarútvegurinn hefur verið, en eins og þekkt er hafa aðrar greinar atvinnulífsins oft og einatt liðið fyrir það hversu sterkur sjávarútvegurinn hefur verið og hversu mjög gengið hefur verið skráð með tilliti til sjávarútvegsins fyrst og fremst.

Herra forseti. Það sem við fulltrúar Samfylkingarinnar viljum líka undirstrika sérstaklega í þessari umræðu og vegna þessa frv. er það að við teljum óeðlilegt og óæskilegt að þegar stóriðjufyrirtæki hafa verið sett niður á Íslandi, þá skuli samið við hvert þeirra fyrir sig um afslætti frá þeim reglum, þar með talið skattareglum sem íslenskum fyrirtækjum er ætlað að búa við. Það er fullkomlega óeðlilegt að fyrirtæki sem starfa á sama sviði og að sams konar starfsemi skuli búa hvert við sitt skattumhverfi allt eftir því hvernig aðstæður voru þegar samið var. Það væri auðvitað eðlilegra að öll fyrirtæki sem starfa á vettvangi stóriðju byggju við sams konar reglur og auðvitað hlýtur markmiðið að vera það að öllum fyrirtækjum í landinu sé boðið upp á ásættanlegt skattumhverfi þannig að ekki þurfi að semja sérstaklega um frávik þegar laða á erlenda atvinnustarfsemi inn í landið.

Það er sérkennilegt að horfa til þess, herra forseti, að þegar samið hefur verið um hingaðkomu þessara stóru fyrirtækja þá hefur þurft að gera það með atbeina Alþingis fyrst og fremst vegna þess að þau fyrirtæki hafa ekki getað búið við það umhverfi sem íslenskum fyrirtækjum er boðið upp á að búa við.

Einnig er athyglisvert að velta því fyrir sér að stóriðjufyrirtækin sem eru með annars konar skattprósentu og hærri í samningum sínum núna vegna þess hvernig ástatt var þegar þau sömdu, geta sagt sig frá þessum samningi og sagt sig þá aftur inn á íslenskan vettvang eða inn í íslenskt skattumhverfi og fengið þar með þá 18% skattálagningu sem gildir nú almennt á Íslandi. En af hverju gera þeir það ekki? Það er vegna þess að þetta snýst ekki bara um skattana heldur ýmislegt fleira. Það er þá heildarmat þessara fyrirtækja að annað sem er í samningnum sé svo ívilnandi að það borgi sig að búa við hærri skattprósentu til þess að hafa það einnig. Við hljótum þá að skoða hvað þetta annað er. Hvað annað er svo mikilvægt að fyrirtækin vilja frekar vera með yfir 30% skatt en að sleppa því? Það hljóta að vera atriði sem við skoðum þegar við viljum bæta umhverfi íslenskra fyrirtækja almennt.

Við viljum sérstaklega benda á lækkun og afnám stimpilgjalda og þar viljum við nefna til frv. Margrétar Frímannsdóttur, varaformanns Samfylkingarinnar, en hún hefur ítrekað flutt frv. um það ásamt öðrum þingmönnum úr þingflokki Samfylkingarinnar. Slíkt frv. liggur einmitt fyrir þinginu núna og er til umfjöllunar í efh.- og viðskn. og eru hæg heimatökin ef stjórnvöld vilja mæta öðrum atvinnurekstri í landinu með sambærilæegum hætti og stóriðjunni að afgreiða það mál.

Við viljum einnig, herra forseti, benda á áherslur okkar varðandi tryggingagjöld við síðustu skattbreytingar ríkisstjórnarinnar þar sem við vildum að horft væri til þess hvaða umhverfi smáfyrirtækjum, fyrirtækjum sem byggja fyrst og fremst á mannauði fremur en vélum og fjárfestingum, er búið. En það er alveg ljóst að þær breytingar á tryggingagjaldi sem ríkisstjórnin samþykkti á sínum tíma, en hefur nú verið frestað af ýmsum ástæðum, og sá vilji sem þar kom fram var ekki vilji til að bæta umhverfi smáfyrirtækja, þeirra fyrirtækja sem eru að reyna að verða til á nýjum forsendum, á öðrum forsendum en forsendum gamla hagkerfisins þar sem fyrst og fremst var horft til véla, tækja og slíkra fjárfestinga.

Við viljum líka benda á mikilvægi þess að ef talið er að styrkja þurfi fyrirtæki eins og gert er í þessu tilfelli, það er um styrki að ræða til þessara stóriðjufyrirtækja, eða beita sérstökum aðgerðum til að ná erlendri fjárfestingu inn í landið, sem við út af fyrir sig styðjum, við viljum meiri erlenda fjárfestingu inn í landið, þá eiga að gilda um það almennar gegnsæjar reglur sem byggja á jafnræði þar sem hið sama gildir fyrir alla þá sem eins er ástatt um. Í því sambandi viljum við, herra forseti, benda á margflutta tillögu okkar fulltrúa Samfylkingarinnar um bætta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs, nú 191. þingmáls. Þar er hvatt til þess að skoðaðir verði möguleikar þess að stofnaður verði sjóður sem geti veitt stofnstyrki ef talin er nauðsyn á stuðningi við fyrirtæki til að hafa áhrif á þróun atvinnulífsins eins og hér er verið að gera. Hér er verið að veita styrki til að hafa áhrif á þróun atvinnulífsins eða, eins og segir í þingmáli okkar, ef menn vilja ná tiltekinni starfsemi inn í landið og sannarlega er verið að gera það með þessari aðgerð, með því frv. sem við erum hér að afgreiða.

Það liggur fyrir að ESA, af því að ESA hefur komið til umfjöllunar í umræðunni, hefur viðurkennt ákveðið byggðakort fyrir Ísland sem þýðir að á ákveðnum svæðum á Íslandi má styrkja atvinnurekstur með tilteknum hætti. Um það þurfa bara að gilda ákveðnar reglur og það sama þarf að gilda fyrir alla. Það þarf að vera ákveðið jafnræði. ESA kallar auðvitað eftir skoðun á því þegar þeir eru að styrkja atvinnurekstur til að kanna það hvort verið er að fara fram með mál sem geta verið samkeppnishamlandi með einhverjum hætti. Að sjálfsögðu. Ef við hins vegar byggjum við almennar reglur sem væru gegnsæjar og byggðu á jafnræði, þá væri það fljótgert mál fyrir ESA að skoða hvort þessi uppbyggig samræmdist slíkum reglum og íslensk stjórnvöld þyrftu auðvitað á hverjum tíma að sjá um að það gerðist.

Við vísum til þess, herra forseti, í þingmáli okkar að Evrópusambandið er með öfluga uppbyggingarsjóði sem það notar til að ná markmiðum sínum bæði í byggðamálum og líka til að endurskipuleggja atvinnulífið. Herra forseti. Það er nákvæmlega það sem menn telja sig vera að gera hér.

Norðmenn hafa einnig, á grundvelli þess að þeir ákváðu að hafna aðild að Evrópusambandinu nú síðast 1994, byggt upp öflugan sjóð sem veitir stofnstyrki við uppbyggingu atvinnulífsins að fyrirmynd Evrópska uppbyggingarsjóðsins. Það er mikilvægt, herra forseti, að gegnsæjar reglur gildi og fagleg vinnubrögð séu viðhöfð til að þessi aðferð virki með tilætluðum hætti. En vegna þess hvernig staðið hefur verið að þessum málum hjá okkur, þá eru dæmi um að fyrirtæki sem von væri um að stofnsett yrðu hér hafi endað í öðru landi sem býður stofnstyrki í samræmi við þær leikreglur sem við verðum að sætta okkur við að aðrar þjóðir viðhafi en við höfum ekki sjálf tekið upp. Þetta eru þá fyrirtæki sem áhugi hefur verið á að koma með til Íslands en ekki verið til að dreifa stofnstyrkjum og þessum fyrirtækjum þá ekki boðið upp á fríðindasamninga eins og þann sem við erum nú að fjalla um.

Við sitjum uppi með mismunandi reglur fyrir stóriðjufyrirtækin í landinu, sérreglur fyrir hvert fyrirtæki, samanber það sem ég hef verið að rekja hér á undan og það sem fram kemur í fylgiskjölum með þessu máli. Við búum við handahófskenndan stuðning við atvinnulífið og sífelldar ásakanir um spillingu við meðferð opinbers fjár ef það er nýtt til að stuðla að atvinnuuppbyggingu. Þetta er óþolandi ástand. Þessi umræða bitnar fyrst og fremst á landsbyggðinni. Það er óþolandi að vita til þess að með þessum handahófskenndu vinnubrögðum og mótþróa við því að búa til reglur sem eru gegnsæjar og byggja á jafnræði, hefur beinlínis orðið til sá hugsunarháttur að stuðningur við atvinnulífið sé fyrst og fremst eitthvað sem gerist úti á landi og það gengur jafnvel svo langt að menn halda að það sé tæplega hægt að vera með atvinnustarfsemi úti á landi án þess að til komi opinber stuðningur. Þetta er óþolandi aðstaða, herra forseti, og á þessu verður að ráða bót, þessu verður að breyta. Það verður að búa til það umhverfi að íslensk fyrirtæki geti með sama hætti og fyrirtæki í samkeppnislöndunum sótt stuðning með lögmætum og eðlilegum hætti og að stjórnvöld geti beitt sér í þessum efnum ef fyrir því er pólitískur vilji en ekki að menn séu að taka sig til gagnvart einu og einu fyrirtæki og síðan liggi menn einatt undir þeim ámælum að um sé að ræða spillingu við meðferð opinbers fjár vegna þess að það vill gjarnan verða svo í fámennu samfélagi eins og er á Íslandi að menn eru fljótir að rekja eða búa til málsástæður þegar þannig er unnið.

[12:15]

Herra forseti. Við fulltrúar Samfylkingarinnar viljum undirstrika alvöru þess og vara við að íslensk stjórnvöld skuli gera samninga og síðan lögfesta ákvæði, eins og í 6. gr. þessa frv., sem sníður því stakk hvernig unnt verður að beita hagrænum stjórntækjum varðandi útblástur og mengun. Við vísum þar til þess sem fram kemur í áliti fulltrúa Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn. um það efni. Þar er bent á að auðvitað sé slæmt að íslensk stjórnvöld skuli gera samning af þessu tagi árið 2003, þó svo að þau hafi áður bundið sig með ákveðnum hætti á þennan klafa.

Við í Samfylkingunni höfum mjög oft og sterklega bent á að ef menn vilja kalla fram æskilega hegðun, hvort sem er í efnahagslífinu eða á sviði umhverfismála, sé líklegast að ná árangri með því að beita hagrænum stjórntækjum, eins og það er kallað. Þannig hafa fulltrúar Samfylkingarinnar lengi verið talsmenn þess að sjómenn fengju að koma með allan afla að landi í stað þess að brottkast eigi sér jafnan stað. Við höfum bent á að með aðferð sem við beittum okkur fyrir, sem nú er orðin hluti af löggjöfinni, reyndar með bráðabirgðaákvæði sem nú er verið að framlengja, væri verið að beita hagrænum stjórntækjum, þ.e. laða menn með efnahagslegum stjórntækjum til að sýna fram á rétta breytni. Það væri ekki verið að refsa þeim fyrir að koma með fiskinn að landi heldur kæmi fyrir einhver umbun. Þetta er það sem alþjóðasamfélagið er sammála um að virki best. Þess vegna hafa orðið til framseljanlegir útblásturskvótar. Þess vegna hafa orðið til viðmiðanir og eru að verða til um hvernig best er að laða menn til að menga sem minnst og græða á því í leiðinni.

Herra forseti. Við viljum í áliti okkar vísa til umsagnar umhvn. þar sem fyrir liggur að meðferð málsins hafi verið í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.

Herra forseti. Það er ljóst að þetta frv. byggir á samningum sem gerðir hafa verið við Alcoa um starfsumhverfi væntanlegs álvers. Það er því ekki mikið svigrúm til breytinga, enda sést það á þeim brtt. sem hér liggja fyrir frá meiri hluta iðnn. Þetta eru fyrst og fremst orðalagsbreytingar og breytingar tæknilegs eðlis. Um þetta var eðlilega rætt í nefndinni og menn eru missáttir við að fá í hendur texta sem á að lögfesta en Alþingi á lítinn kost á að breyta vegna þess að textinn byggir á samningum sem þegar hafa verið gerðir. Þetta er sá háttur sem hafður hefur verið á og er endurtekinn hér í viðskiptum við Alcoa.

Vonandi verður það þannig í framtíðinni, herra forseti, að okkur takist að skapa það starfsumhverfi, eins og ég hef rakið í ræðu minni, að ekki þurfi ívilnandi frv. eins og þetta inn í þingið heldur verði starfsumhverfið þannig að fyrirtæki, hvort sem þau eru innlend eða erlend, stór eða lítil, sjái sér akk í að koma til Íslands eða verða til á Íslandi, auðga þannig atvinnulífið og bæta lífskjörin í landinu. En svo er ekki enn. Þess vegna, herra forseti, fannst okkur fulltrúum Samfylkingarinnar í iðnn. ástæða til að leggja fram sérálit og nefna til sögunnar ýmis atriði sem við teljum að verði að breyta í þessu umhverfi, mikilvæg atriði sem varða bæði verklagsreglur og umgjörð. Viðbrögð þingmanna Samfylkingarinnar munu jafnframt koma fram gagnvart einstaka greinum frv. við atkvæðagreiðslu. En þrátt fyrir þá gagnrýni sem hér hefur verið höfð uppi og ábendingar um það sem betur má fara liggur þó sú heildarniðurstaða fyrir að Samfylkingin styður að þetta mál verði samþykkt.