Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 12:27:12 (4065)

2003-02-26 12:27:12# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[12:27]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði að þetta væri umdeildasta stóriðjuframkvæmd Íslandssögunnar og það væri hún vegna þeirra gríðarlegu náttúruspjalla sem hún kemur til með að valda ef af verður. Einnig benti ég á að málið væri mjög umdeilt í efnahagslegu tilliti.

Hvernig á stjórnarandstöðuflokkur að taka afstöðu? Hvernig á stjórnarflokkur að taka afstöðu? Hvernig eigum við öll að taka afstöðu? Við eigum að taka afstöðu á þann veg að við séum trú sannfæringu okkar. Ég virði það að sjálfsögðu ef það er sannfæring Samfylkingarinnar að þetta sé heppilegt fyrir íslenska þjóðarbúið og þess virði að fórna þessum dýrmætu náttúruperlum fyrir þennan mikla efnahagslega ávinning sem menn vilja vera láta.

Ég hef hins vegar mjög miklar efasemdir um að svo sé. Menn hafa deilt um hvort jafnvel kunni að verða bókhaldslegt tap á framkvæmdinni. Síðan er hitt að mér virðast þeir fleiri hagfræðingarnir, þ.e. þeir sem eru óháðir, eru ekki undir hæl ríkisstjórnarinnar, sem gagnrýna framkvæmdina á efnahagslegum forsendum og telja hana ekki til hagsbóta fyrir íslenskt efnahagslíf. Þeir telja að framkvæmdirnar komi til með að draga úr fjölbreytni.

Þar er ég kominn að því sem ég setti fram og mun færa rök fyrir síðar í dag, að hagfræðingar hafa haldið því fram að þau áform Framsfl. að gera þungaiðnað að kjölfestu í íslensku efnahagslífi verði ekki til að auka á stöðugleikann. Það hafa verið gerðar skýrslur sem sýna að þetta muni þvert á móti draga úr jafnvægi í efnahagslífinu. Þar vísa ég til hagfræðinganna Axels Halls og Ásgeirs Jónssonar sem hafa gert um þetta ítarlegar rannsókn.