Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 12:29:21 (4066)

2003-02-26 12:29:21# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, Frsm. 1. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[12:29]

Frsm. 1. minni hluta iðnn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Á meðan við búum við krónuna, þennan litla óstöðuga gjaldmiðil, verður hér tiltölulega ókyrrt í efnahagslífinu. Það er staðreynd sem við verðum að lifa við á meðan svo háttar. Það er líka alveg ljóst að þjóð eins og okkar, sem hefur byggt, byggir og mun byggja um næstu framtíð í svo ríkum mæli á nýtingu náttúruauðlinda, þarf að þola ýmsar sveiflur. En eins og ég rakti í framsögu minni er þó betra að fjölbreytnin aukist en hitt. Sjávarútvegurinn hefur verið yfirgnæfandi og íslenskt þjóðarbú tekið með honum dýfurnar. (ÖJ: En þetta er ekki góð fjölbreytni.) Það að skapa fjölbreytni er eftirsóknarvert, það er keppikefli, ekki síst í útflutningi til að skapa meira jafnvægi.

Ég veit það alveg og hef ekki farið í grafgötur með að hv. þm. hefur miklar efasemdir um þessa framkvæmd. Auðvitað orkar allt tvímælis þá gert er. Menn verða samt að skoða bæði ávinning og þá áhættu sem í hverri ákvörðun felst. Við höfum gert það. Ég vil meina að við höfum gert það af miklum heiðarleika, ekki síst vegna þess að það er að mörgu leyti flókið fyrir stjórnarandstöðuflokk að vinna við þær aðstæður sem hér eru.

Heildarniðurstaða okkar var, eftir að hafa skoðað þetta mál og rætt við fjöldann af hagfræðingum og öðrum þeim sem við treystum til að meta málin með okkur, að hér væri um framkvæmd að ræða sem gæti aukið útflutningstekjur okkar Íslendinga svo að í hana bæri að ráðast.