Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 12:32:20 (4067)

2003-02-26 12:32:20# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, Frsm. 2. minni hluta ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[12:32]

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. 2. minni hluta iðnn. um frv. til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði.

Áður en ég mæli fyrir hinu eiginlega nál. vil ég fara örfáum almennum orðum um verkefnið.

Við erum að stuðla í stórum höggum að einhæfni í íslensku atvinnulífi. Það er að mati okkar hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði alröng stefna í atvinnumálum. Fram kom hjá hv. formanni iðnn. að hér væri verið að leggja grunn að 40 milljarða umsvifaaukningu í íslensku hagkerfi. Það er líka hægt að gera hluti öðruvísi. Fram kom hjá hagsmunaaðilum sjávarútvegsins á fundi sjútvn. nú á dögunum að talið er að á allra næstu árum megi með fiskeldi og skeljaeldi skapa 50--60 milljarða kr. inn í hið íslenska hagkerfi. Því er þetta ekki bara spurning um þessa stefnu, álbræðslustefnu til að skapa peninga. Ef maður fer ekki þá leið þá fer maður aðrar leiðir sem e.t.v. skapa miklu meiri hagnað. Ég nefni virðisaukann í sambandi við fiskeldi og skeljarækt sem hagsmunaaðilar telja að geti skaffað 50--60 milljarða.

Að stórum hluta er þessi umræða byggð á átökum um hvernig byggja eigi upp og styðja íslenskt efnahagslíf. Fiskeldi og skeljarækt njóta engra stofnstyrkja. Það nýtur örlítillar fyrirgreiðslu varðandi rannsóknir í gegnum ráðuneyti og stofnanir. En vilji ríkisstjórnarinnar í verki til þess að byggja upp hefur ekki komið fram. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt fram þáltill. um stofnframlög til fyrirtækja sem vilja fara í áframeldi t.d. á tegundum eins og lúðu. En eins og kunnugt er þá er nær öll klakin lúða hér á landi, sem er um 80% af heimsframleiðslunni, flutt úr landi.

Það verkefni sem við erum að tala um hér byggir á því að reisa álver í Reyðarfirði sem getur framleitt 322.000 tonn af áli á ári og raforkunotkunin verður 14.600 kwst. á tonn af áli. Áætlað er að rekstur fyrstu kerjanna hefjist í apríl 2007 en álverið verði komið í fullan rekstur í október 2007. Samkvæmt því sem sett hefur verið fram er áætlað að um 450 störf skapist í álverinu á rekstrartíma og menn gera ráð fyrir því að um 300 afleidd störf skapist í kringum þennan iðnað á Austurlandi eða alls um 750 störf.

Fjárfestingin er rúmar 1,1 milljón bandaríkjadollara eða u.þ.b. 90 milljarðar kr. og dreifist á fjögur ár. Hreinsun útblásturs fer fram í þurrhreinsimannvirki sem búið er pokasíum. Það verður ekki rafskautaverksmiðja og engin urðun kerbrota og engin vothreinsun. Iðnaðarlóðin er eins og kunnugt er 6 km austan við Reyðarfjörð, austan við þéttbýlið, og allt land iðnaðarlóðarinnar og nágrennis, að undanskildu 2 hektara stóru landi, Framnesi, er í eigu íslenska ríkisins. Álverslóðin er 88 hektarar og samið hefur verið um leigu upp á 25 þús. bandaríkjadali fyrir lóðina.

Síðan kemur að höfninni sem verður að flokka sem stofnstyrk við þetta fyrirtæki vegna þess að höfnin verður í eigu og rekin af hafnarsjóði Fjarðabyggðar. Í fyrstu atrennu verður byggt fyrir 1,2 milljarða og þá er malbik og kranaundirstöður ekki talið með. Hafnarkostnaður fyrir fullbúna höfn með 7,5 hektara malbikuðu athafnasvæði og kranaundirstöðum er áætlaður 1,5 milljarðar kr. og er áætlað að skip allt að 250 metra löng og 80 þús. smálesta stór geti athafnað sig á viðlegukanti. Athafnasvæði hafnarinnar er 740 þús. fermetrar. Árlegur innflutningur um höfnina verður 815.600 tonn og útflutningur 373.600 tonn samkvæmt áætlun.

Fjarðaál greiðir fyrir notkun á höfninni samkvæmt gjaldskrá með afslætti og það á að standa undir kostnaði við rekstur sveitarfélagsins. Það mun vera sama fyrirkomulag og haft er varðandi Norðurál í Hvalfirði. Samkvæmt áætlunum á höfnin og rekstur hennar að geta staðið undir sér en framlög til uppbyggingar hafnarinnar endurgreiðast ekki þannig að hér er um gríðarlega mikinn stuðning að ræða við þetta verkefni.

Virkjunin, Kárahnjúkavirkjun, er beintengd þessu vegna þess að 85% af afli hennar munu fara til þessa væntanlega álvers, ef af verður. Reiknað er með uppsettu afli um 630 megavött og samkæmt nýjustu tölum ætti að geta orðið meira afl þarna, kannski allt að 680 megavött. Landsvirkjun áætlar að fjárfestingarkostnaður í sambandi við þetta verði um 95 milljarðar, kringum 100 milljarðar kr.

Þetta er gríðarlega mikið og stórt verkefni og ég vil árétta það að hér er um gríðarlega ríkisaðstoð eða stofnframlag að ræða sem önnur fyrirtæki í landinu, önnur uppbygging í atvinnulífi nýtur ekki. Það er niðurfelling á iðnaðargjaldi, markaðsgjaldi, fasteignasköttum, tekjusköttum, eignarskatti, afdráttarskatti og stimpilgjöldum. Bara þessir skattar eru metnir á u.þ.b. 24,4 milljónir bandaríkjadala. Þessi mál er ESA að fara yfir, þ.e. hvort þetta sé löglegt eða ekki og er þetta gríðarlega umfangsmikið dæmi að fara yfir.

Síðan er rafmagnssamningurinn sérkafli. Hann varðar okkur öll og ekki síst atvinnulíf og heimili í landinu vegna þess að það er fyrirtækið okkar, Landsvirkjun, sem byggir Kárahnjúkavirkjun með bakstuðningi bæjarfélaganna Reykjavíkur og Akureyrar og síðan ríkisins. Sá bakstuðningur sem fyrirtækið hefur í krafti þess að það er í opinberri eigu sveitarfélaga og ríkisins er margra peninga virði. Rafmagnssamningurinn er til 40 ára. Afhending er samningsbundin og kaupskylda. Eins og fram kom hjá mér áðan er kaupskylda Fjarðaáls um 85% af því sem framleiða á í væntanlegri Kárahnjúkavirkjun.

Ég vil taka það fram að félagar mínir í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði eru með álit inni í meirihlutaálitinu vegna þess að umhvn. Alþingis var beðin að fjalla um umhverfisþátt þessa máls. Þar er fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs Kolbrún Halldórsdóttir. Efh.- og viðskn. var svo beðin að fjalla um efnahags- og viðskiptalegan þátt frv. og þar er fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs Ögmundur Jónasson. Hann er þar fyrir hönd okkar flokks.

Í því frv. sem hér er fjallað um er iðnrh. heimilað að gera samninga fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við Alcoa Incorporated, Fjarðaál sf. og stofnendur þess, Alcoa á Íslandi ehf. og Reyðarál ehf. um að reisa og reka álverksmiðju og tengd mannvirki á Íslandi og til að framleiða allt að 322.000 tonn af áli árlega í verksmiðju við Reyðarfjörð.

Annar minni hluti iðnaðarnefndar er andvígur áformum um byggingu álvers við Reyðarfjörð. Á grundvelli stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs telur 2. minni hluti að stuðla eigi að annars konar uppbyggingu atvinnulífsins í landinu með aukna fjölbreytni og nýtingu umhverfisvænnar tækni að leiðarljósi.

Ég vil skjóta hér inn í varðandi framtíðarsýn aðila í sjávarútvegi í sambandi við fiskeldi og skeljaeldi að talið er að bara þar megi koma inn með tekjur sem nema 50--60 milljörðum á ári ef vel er staðið að málum. Í öðrum löndum sem við berum okkur saman við eru veittir stofnstyrkir til slíkrar uppbyggingar, samanber uppbyggingu á stöðvum til áframeldis á lúðuseiðum. Samkvæmt því sem fram kom hjá forsvarsmönnum sjávarútvegsfyrirtækja er talið að í Eyjafirði einum megi áframala allt að 40 þús. tonn af þorski. Það kom fram hjá Útgerðarfélagi Akureyringa. Þetta er gríðarlega spennandi verkefni með fisk úr okkar lífríki. Þarna kom fram spennandi framtíðarsýn.

Ég tek fram í minnihlutaáliti mínu að koma verði í veg fyrir óhæfilega gróðasöfnun í skjóli einokunar- eða fákeppnisaðstöðu einstakra fyrirtækja og skattleggja sérstaklega gróða sem sprettur af nýtingarrétti atvinnurekenda á sameiginlegum auðlindum. Atvinnufyrirtæki eiga að greiða eðlilegt gjald af hagnaði sínum í sameiginlega sjóði ríkis og sveitarfélaga. Mikilvægt er að hefðbundnir atvinnuvegir við sjávarsíðuna og í sveitum landsins þróist í sátt við samfélagið og verði til styrktar byggð í landinu öllu. Ég tek fram að nýta beri sérstöðu Íslands og íslenskar auðlindir ásamt tækni og þekkingu til að skapa landsmönnum störf í fjölbreyttu og þróuðu atvinnulífi en varast að einblína á allsherjarlausnir og einstaka stóriðjukosti.

[12:45]

Við verðum að átta okkur á því að ef af þessu verkefni verður er áliðnaðurinn farinn að nota einn og sér u.þ.b. 80% af rafmagnsframleiðslunni í landinu. Svona áform samrýmast ekki þeirri hugsun að við eigum að stofna hér og stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi sem víðast um landið. Hér eru miðstýrðar lausnir á ferðinni sem leiða til einhæfs atvinnulífs eins og tölurnar sýna.

Forsenda þess að hægt sé að ganga til samninga um byggingu álvers við Reyðarfjörð er bygging Kárahnjúkavirkjunar sem mun leiða af sér gríðarleg óafturkræf náttúruspjöll á land svæðinu norðan Vatnajökuls og í Fljótsdal. Hugsanlegur efnahagslegur ávinningur réttlætir ekki þau hrikalegu náttúruspjöll sem auk þess mundu eyðileggja möguleikana á nýtingu þessa landsvæðis undir þjóðgarð á heimsmælikvarða. Undirbúningsvinnu varðandi nýtingu vatnsafls og jarðvarma er ekki enn lokið og er að mati 2. minni hluta forkastanlegt að fara út í svo gríðarlegar framkvæmdir án þess að heildarstefna til langs tíma hafi verið mótuð í sambandi við nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Mengun er umtalsverð frá verksmiðju af því tagi sem ætlunin er að leyfa samkvæmt frumvarpi þessu og mun hún hafa umtalsverð áhrif á gæði lofts, lands og sjávar í umhverfi verksmiðjunnar. 2. minni hluti gagnrýnir að ekki skyldi krafist nýs umhverfismats á verksmiðjunni þar sem augljóst er að hér er að mörgu leyti um að ræða aðra framkvæmd en metin var þegar Norsk Hydro var inni í dæminu. Um þetta efni vísast til greinar eftir Berg Sigurðsson umhverfisefnafræðing sem birt er sem fylgiskjal með álitinu.

Þá er til þess að líta að gangi áform ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu stóriðju í landinu eftir mun það leiða til þess, eins og ég kom inn á áðan, að um 80% af rafmagnsframleiðslu landsins verða notuð í þessa einu atvinnugrein. Í ljósi þess að samningar um rafmagnssölu eru bundnir við heimsmarkaðsverð á áli er hér um gríðarlega áhættu að ræða fyrir Landsvirkjun, og má lítið út af bera til þess að heimilin í landinu og hinn almenni iðnaður landsmanna hljóti skaða af í hækkuðu orkuverði.

Það er augljóst að ef eitthvað bregður út af varðandi hin fjárhagslegu plön sem Landsvirkjun gerir í sambandi við uppbyggingu Kárahnjúkavirkjunar þá verður mismunurinn að jafnast út á þessi 20%, þ.e. iðnað Íslendinga sjálfra í landinu og heimilin í landinu. Það yrði gríðarlegt högg ef illa færi.

Án stórvirkjana- og stóriðjuframkvæmda gæti Landsvirkjun orðið skuldlítið fyrirtæki á næstu 15 árum sem gæti skapað fyrirtækinu möguleika á að stórlækka orkuverð til heimilanna og til iðnaðar í landinu. Þar með yrðu efldir möguleikar til atvinnuuppbyggingar og sóknar á grunni hugsunar um fjölbreytileika í atvinnulífinu. Sú sýn að eiga möguleika á að stórlækka raforkuverð frá Landsvirkjun yrði vítamínsprauta fyrir allan iðnað landsmanna vegna þess að rafmagnskostnaður, sérstaklega í dreifbýlinu á orkuveitusvæði Rariks, er mjög íþyngjandi fyrir íslenskan iðanð, bæði til sjávar og sveita. Dæmi eru um að fyrirtækin okkar, t.d. í mjölvinnslu, borgi frá 6 kr. og upp í 10 kr. fyrir kílóvattstundina til að framleiða sína vöru.

Annar minni hluti telur að rökstuðningur meiri hlutans fyrir því að hér sé um stórkostlega byggðaaðgerð að ræða sé mjög tvíbentur. Stórframkvæmd af því tagi sem hér er áformuð leiðir af sér styrkingu á gengi íslensku krónunnar og tímabundna vaxtahækkun til þess að sporna við þenslu í efnahagskerfinu. Slíkt ástand leiðir til ruðningsáhrifa annars staðar í landinu með stórkostlegum erfiðleikum, sérstaklega í sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Bara væntingarnar til þessara stóru framkvæmda hafa orðið til þess að styrkja gengi krónunnar og áhrifanna er þegar farið að gæta. Útflutningsatvinnuvegirnir eru þegar komnir í gríðarleg vandræði vegna styrkrar stöðu krónunnar. Ferðaþjónustan er líka þegar komin í vandræði vegna styrkrar stöðu krónunnar. Þetta eru þær tvær atvinnugreinar sem gefa þrátt fyrir allt þjóðarbúinu mestar tekjur. Sjávarútvegurinn stendur fyrir um 50% tekjuöflunarinnar og ferðaþjónustan er önnur stærsta atvinnugreinin okkar og stendur fyrir um 13--14% af tekjuöfluninni þannig að hér er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða. Þannig er verið með svona stórum inngripum að setja allt annað atvinnulíf í landinu upp í loft og á spil, sérstaklega útflutningsatvinnugreinarnar eins og ég nefndi áðan. Þetta mun í fyrstu koma harðast niður á smærri sjávarútvegsfyrirtækjum sem sum hver munu ekki standast það efnahagslega umhverfi sem er að skapast. Ruðningsáhrifin munu þannig leiða til fækkunar fyrirtækja og starfa, sérstaklega á landsbyggðinni. Um þetta eru menn almennt sammála. Þannig eru í krafti stefnu ríkisstjórnarinnar lagðar fram gríðarlegar fjárhæðir í stofnframlag til fyrirtækis og uppbyggingar sem leiðir til þess að við missum störf og fyrirtæki úr rekstri annars staðar í landinu.

Annar minni hluti bendir einnig á að væntingar varðandi áhrif framkvæmdanna á Miðausturlandi til lengri tíma litið eru að öllum líkindum stórlega ofmetnar. Í áliti meiri hlutans kemur fram að meiri hlutinn telur að um 500 ný störf muni skapast. Í öðrum skýrslum er talað um rúmlega 700 störf, en það er ef til vill aukaatriði. Sigfús Jónsson hjá Nýsi lýsti því yfir á fundi iðnaðarnefndar að vænta mætti þess að aðeins væri hægt að manna um 200 störf með heimamönnum, aðra starfsmenn þyrfti að sækja til annarra staða á landinu. Það er álit margra að aðkomnir starfsmenn mundu ekki endilega setjast að á Austurlandi eins og reynslan sýnir víða annars staðar. Jafnvel á atvinnusvæði Akraness er mjög algengt að fjölskyldur búi í Reykjavík vegna þess að makinn hefur ekki fengið vinnu í nágrenni verksmiðju eða starfsemi þar. Hér er um lengri vegalengdir að ræða, minna samfélag, þannig að vandinn varðandi maka verður að öllum líkindum gríðarlegur.

Með vísan til framangreinds leggur 2. minni hluti til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá, með leyfi forseta:

,,Í ljósi þess að bygging Kárahnjúkavirkjunar, sem er forsenda samninga um byggingu álvers við Reyðarfjörð, mun leiða af sér gríðarleg óafturkræf náttúruspjöll og að mengun af álverinu yrði umtalsverð, og í ljósi áhættunnar fyrir Landsvirkjun og þar með landsmenn, ruðningsáhrifa af framkvæmdunum og of mikilla væntinga til þeirra, leggur 2. minni hluti til að málinu verði vísað frá og tekið verði fyrir næsta mál á dagskrá.``

Undirskriftin er, með leyfi forseta:

,,Alþingi, 25. febr. 2003. Árni Steinar Jóhannsson.``