Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 14:12:08 (4073)

2003-02-26 14:12:08# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[14:12]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. flutti yfirgripsmikla ræðu um efnahagsleg áhrif af þessum framkvæmdum. Það er greinilegt að hann hefur lagt töluverða vinnu í að velta þessum hlutum fyrir sér og ég tel það vera til mikillar fyrirmyndar. Hv. þm. gat um að að hans mati mundi hátt gengi, sem yrði óhjákvæmilega að einhverju leyti fylgifiskur mikils innstreymis erlends gjaldeyris, verða til þess að þau störf mundu helst hverfa úr efnahagslífinu sem minnst framleiðni væri í og kom þar m.a. inn á rækjuiðnaðinn.

Ég er ekki alveg sammála þessu sjónarmiði og ég bendi á að sjávarútvegurinn nýtur annarrar stöðu en aðrar atvinnugreinar að því leytinu til að tekjur eru í öðrum gjaldmiðli en útgjöld og gengið getur einmitt fært til af tekjum starfseminnar og dregið hluta af framleiðni frá þeim fyrirtækjum sem eiga að hafa tekjurnar og þannig eytt störfum án tillits til þess hver framleiðnin er.