Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 14:13:23 (4074)

2003-02-26 14:13:23# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[14:13]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að ég velti þessu mikið fyrir mér, vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að ákveðin hætta sé fólgin í því ef við grípum ekki til réttra viðbragða. Mér heyrist að hv. þm. sé í raun að taka undir þau viðhorf sem komu fram í grein þeirra sérfræðinga sem hv. þm. Ögmundur Jónasson drap á hér áðan. Það er hugsanlegt að þetta gerist. Ég óska þess samt sem áður að svo verði ekki.

Nú er það auðvitað líka þannig hv. þm. að hugsanlegt væri að grípa til aðgerða sem draga úr gengishækkunum. Ég velti því hér upp, herra forseti, í framhaldi af því sem hv. þm. sagði og spyr hann um hvaða álit hann hafi á því. Það er hugsanlegt að ríkið eða hið opinbera fari út í það að gefa út skuldabréf og hefji stórfelld uppkaup á gjaldeyri. Það kom fram hjá Sigurði Einarssyni, forstjóra Kaupþings, að þetta væri leið sem dygði til að draga úr gengishækkun kannski um eitt ár. Það er kannski það sem við þurfum, eitt til tvö ár. Hvaða álit hefur hv. þm. á því?