Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 14:18:06 (4078)

2003-02-26 14:18:06# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[14:18]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hvar eru náttúruverndarsjónarmiðin sem þessi gamli líffræðingur stendur fyrir? Þau birtast kannski í þjóðgarði á Snæfellsnesi sem hann fékk samþykktan í ríkisstjórn 1994. Þau birtast kannski í lögum um vernd Breiðafjarðar sem hann lagði fram og skrifaði eigin hendi og fékk samþykkta hér á þinginu 1995. Ég gæti haldið áfram að telja svona.

Spurning hv. þm. er hins vegar réttmæt. Hún spyr mig út í náttúrufarslegar afleiðingar af Kárahnjúkavirkjuninni og náttúruvernd. Ég fór í það mál á sínum tíma og ég kannaði þær hugmyndir um mótvægisaðgerðir sem lagðar voru fram og ég féllst á að þær væru ásættanlegar þó þær væru ekki afturkræfar.

Að því er varðar friðlandið í Kringilsárrana sem er burðarland hreindýra þá er, herra forseti, sennilega skelfilegasta afleiðing þessara framkvæmda að þar er friðlandið skert um þriðjung eða fjórðung. Ég tel að það sé ekki gott. En ég styð þessa framkvæmd eigi að síður.