Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 14:21:24 (4081)

2003-02-26 14:21:24# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[14:21]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Af því að hér var sérstaklega spurt um þessa hagrænu hvata og umhverfisgjöld þá vil ég, með leyfi virðulegs forseta, lesa upp úr umsögn 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem er fylgiskjal I með nefndaráliti 1. minni hluta iðnaðarnefndar, þ.e. úr kaflanum: Skattaákvæði. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ákvæðið er með engu móti hægt að skilja öðruvísi en svo, að síðar á öldinni verði aldrei hægt að leggja sérstakan umhverfisskatt á orkufreka stóriðju hér á landi.``

Ég er ósammála þessari túlkun. Ég tel að um oftúlkun sé að ræða að segja að það komi aldrei til greina í framtíðinni miðað við skattaákvæðið. Ég vil benda á hvað stendur í umsögn umhvrn. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Í fjárfestingarsamningi er heimilt að kveða á um að skattar eða gjöld verði ekki lögð á raforkunotkun félagsins og útblástur lofttegunda eða aðra losun úrgangsefna, nema slíkir skattar og gjöld séu lögð með almennum hætti á öll önnur fyrirtæki hér á landi, þar með talin álfyrirtæki.``

Það er því opið fyrir það að leggja þessi gjöld á ef þau verða lögð á með almennum hætti. Ég tel að hér sé Alcoa að verjast því að þeir verði einir teknir út úr.