Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 14:25:59 (4085)

2003-02-26 14:25:59# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, KolH
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[14:25]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Komið er að því að líta yfir þann þátt þessa máls sem hv. umhvn. Alþingis fjallaði um. Eins og kom fram í andsvari mínu við ræðu hv. 10. þm. Reykn., Hjálmars Árnasonar, áðan þá gagnrýni ég þá umfjöllun eða öllu heldur skort á umfjöllun sem kom í hlut hv. umhvn.

Þannig er mál með vexti að umhvn. fékk bréf frá iðnn. þar sem óskað var eftir umsögn um einn tiltekinn þátt þessa máls, eingöngu það hvort umhvn. teldi að farið hefði verið að lögum um mat á umhverfisáhrifum við afgreiðslu þessa máls frá Skipulagsstofnun.

Það er mat 2. minni hluta umhvn., sem ég tala fyrir, að ósk iðnn. hafi að þessu leytinu verið óeðlilega þröng miðað við eðli þessa máls. Það að einungis skuli hafa verið óskað eftir áliti nefndarinnar á því hvort farið hafi verið að lögum um mat á umhverfisáhrifum gaf nefndinni afskaplega lítið svigrúm til þess að fjalla um umhverfisþætti frv. almennt. Þetta gagnrýndi ég á fundum nefndarinnar, herra forseti, við meðferð málsins. Ég gagnrýndi sömuleiðis að nefndin hefði ekki séð ástæðu til þess að kalla nokkra aðila fyrir nefndina nema einungis skipulagsstjóra ríkisins.

Svo þegar maður skoðar þau gögn sem nú liggja fyrir, herra forseti, sér maður að iðnn. sjálf hefur ekki látið svo lítið að skoða aðra umhverfisþætti málsins ofan í kjölinn. Umhverfisþáttur málsins var ekki einu sinni sendur út til umsagnar, en sjá má á þeim lista sem iðnn. skilar yfir umsagnaraðila að þar eru hvorki náttúruverndarsamtök né stofnanir á sviði náttúruverndar eða að öðru leyti stofnanir sem hefðu getað sagt til um umhverfisþætti þessa verkefnis. Við skulum ekki gleyma því að hér er verið að fjalla um álbræðslu, þá stærstu sem áformað hefur verið að reisa á Íslandi, álbræðslu sem útheimtir eina af stærstu vatnsaflsvirkjunum sem reistar hafa verið í Evrópu.

Herra forseti. Því má segja að umhverfis- og náttúruverndarsamtök hafi alls ekki komið að umfjöllun þessa máls. Náttúruverndarsvið Umhverfisstofnunar hefur ekki fengið tækifæri til þess að segja álit sitt á málinu og ég tel það ámælisvert. Ég tel umfjöllunina hafa verið skammarlega þrönga og sannarlega eðlilegt að hreyfa þeirri spurningu við iðnn. sem ég geri í nál. mínu eða umsögn minni til nefndarinnar, hvort ekki hefði átt að gera bragarbót í því efni og hvort iðnn. hefði ekki getað tekið upp þessi sjónarmið mín og kallað til einhvers konar umhverfisfundar eða kallað umhverfissamtök og stofnanir á sviði náttúruverndar á sinn fund til þess að fjalla um þetta. Ég tel mig hafa gefið nefndinni tækifæri til þess með umsögn minni en ekki var orðið við þeirri beiðni minni. Þess vegna ítreka ég þá það sjónarmið mitt að umhverfisþáttur álverksmiðjunanr í umfjöllun iðnn. hafi verið hunsaður.

[14:30]

Ég bendi á það jafnframt, herra forseti, að þeim úrskurði Skipulagsstofnunar sem okkur í umhvn. var gert að segja álit á hvort hefði byggst á lögum um mat á umhverfisáhrifum hefur nú verið áfrýjað, þ.e. hann hefur verið kærður til umhvrh., og ég gagnrýndi það í umhvn. að hún sæi ekki ástæðu til að kynna sér efni þeirrar kæru. Í stuttu máli má segja að þau gangi út á það að Skipulagsstofnun hafi í sjálfu sér verið óheimilt, samkvæmt úrskurðinum, að skjóta sér á bak við a-lið 13. tölul. í 2. viðauka laganna um mat á umhverfisáhrifum þar sem álver Alcoa sé allt önnur og óskyld framkvæmd hvað varðar tækni, framleiðslu og mengunarvarnir, en eins og kunnugt er fór álver Alcoa ekki í eiginlegt mat á umhverfisáhrifum, heldur var látið nægja það mat sem hafði verið gert á grundvelli hugmynda Reyðaráls eða Norsk Hydro, hugmynda sem síðan hefur verið horfið frá. Nýju hugmyndirnar sem Alcoa hefur lagt fram fóru ekki í eiginlegt matsferli, heldur taldi Skipulagsstofnun eingöngu að þær mundu ekki hafa meiri áhrif en álver Norsk Hydro sem hafði komist í gegnum síu Skipulagsstofnunar.

En, herra forseti, úrskurður Skipulagsstofnunar var einnig kærður á grundvelli 2. mgr. 5. gr. laganna þar sem kveðið er á um að ef um sé að ræða fleiri en eina matsgilda framkvæmd á sama svæði skuli meta hverja þeirra sérstaklega. Og það er sannarlega hægt að segja, herra forseti, að svo sé í þessu tilfelli.

Að lokum má síðan nefna kæruatriði sem varðar brennisteinsmengunina sem eru mjög alvarlegs eðlis og ég mun fara nánar út í síðar í ræðu minni.

Öll þessi kæruatriði sem nú liggja á borðum umhvrh. til úrlausnar eru alvarlegs eðlis og staðfesta að umfjöllun um málið í kerfinu er langt í frá lokið. Þess vegna er alls ekki ljóst enn sem komið er hvort farið hefur verið að lögum um mat á umhverfisáhrifum við afgreiðslu þess. Það liggur algerlega ljóst fyrir.

Annað dæmi sem nefna má þessum orðum mínum til stuðnings lýtur að starfsleyfi sem Hollustuvernd ríkisins auglýsti 17. des. sl., þ.e. þremur dögum áður en úrskurður Skipulagsstofnunar um álverið lá fyrir. Þessi starfsleyfisdrög fylgja frv. á borðum þingmanna, herra forseti, eru áföst plaggi hæstv. iðnrh. Nú hefur það komið í ljós að samkvæmt reglugerð sem útgefin hefur verið í umhvrn. er óheimilt að auglýsa starfsleyfisdrög til umsagnar fyrr en mati á umhverfisáhrifum er lokið. Og þannig háttar til í þessu máli að meðan kæra er óafgreidd á borði umhvrh., kæra úrskurðar Skipulagsstofnunar, er matsferlinu auðvitað ekki lokið. Matsferli umhverfismatsins í þessu álveri er ekki lokið fyrr en fullnaðarúrskurður liggur fyrir. Þess vegna var ólöglegt að auglýsa starfsleyfisdrögin eins og gert hefur verið. Þau voru meira að segja sett í auglýsingu þremur dögum áður en úrskurður Skipulagsstofnunar birtist, sem er skýlaust brot á reglum, en ofan í kaupið kemur kæra og nú er búið að loka umsagnarfresti um þessi starfsleyfisdrög þannig að ég tel að það sé algerlega ljóst, og ég held að það verði að fá úr því skorið áður en Alþingi afgreiðir þetta mál frá sér, að hér sé á ferðinni slíkur formgalli á málinu að það sé í sjálfu sér ónýtt. Ef þetta allt saman er eins og ég er að segja, að starfsleyfisdrögin hafi ekki mátt auglýsa, er auðvitað búið að loka á þá fresti sem lögbundnir eru almenningi og félagasamtökum til að hafa áhrif á eða segja álit sitt á framkvæmdum af þessu tagi, framkvæmdum sem munu hafa jafngífurleg umhverfisáhrif og hér um ræðir.

Herra forseti. Eitt af því sem ég vil að fram komi við umfjöllun þessa máls er það að tilskipun Evrópuþingsins og Evrópuráðsins nr. 2001/42/EB, um mat á áhrifum tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið, hefði það í för með sér að gera þyrfti heildaráætlun um þungaiðnað á landsvísu. Og ekki nóg með það, heldur líka áætlun um orkuframleiðslu og orkudreifingu en samkvæmt þessari tilskipun hefðu allar slíkar áætlanir þurft að lúta mati á umhverfisáhrifum. Og nú er svo í pottinn búið, herra forseti, að innleiðing þessarar tilskipunar er skammt undan hér á landi.

Þess vegna er það gagnrýnisvert að svo stórar ákvarðanir skuli teknar án þess að áætlanir af þessu tagi liggi fyrir. Það hefði auðvitað verið eðlilegt við afgreiðslu jafnumfangsmikils máls og hér um ræðir og í ljósi þess að tilskipunin er á næsta leyti um mat á umhverfisáhrifum skipulagsáætlana að ríkisstjórnin setti þetta mál í það ferli sem það lögum samkvæmt þyrfti að fara í eftir örskamman tíma. En það var ekki gert og þetta atriði hef ég gagnrýnt í umsögn minni til iðnn.

Síðan vil ég einnig vekja athygli á því, herra forseti, að Kárahnjúkavirkjun er samkvæmt frv. lögbundin forsenda fyrir þessu álveri. Ég segi ,,lögbundin`` vegna þess að hún er beinlínis nefnd í frumvarpstextanum, í 4. gr. frv. Það er mat mitt að það stríði gegn góðum venjum að binda slík tengsl í lagatexta. Vegna þeirrar andstöðu sem ég hef látið í ljósi hér í þingsölum og víðar varðandi byggingu Kárahnjúkavirkjunar þykir mér rétt að halda til haga formsatriðum á borð við þetta.

Þá vil ég, herra forseti, gagnrýna það að umhvn. skyldi ekki falið að skoða þau skilyrði sem fólust í þessu auglýsta starfsleyfi Umhverfisstofnunar, áður Hollustuverndar, sem ég gerði að umtalsefni fyrr í ræðu minni. En það má segja eins og fram kemur í umsögn minni til iðnn. að eftir að umfjöllun umhvn. um málið lauk kynnti ég mér þessi mál náið. Þá kom í ljós að samkvæmt starfsleyfistillögum Umhverfisstofnunar mun væntanlegt álver Alcoa ekki hafa í för með sér bætt loftgæði frá því sem áætlað var út frá verksmiðju Reyðaráls eins og hefði mátt ætla og eins og Skipulagsstofnun gengur út frá í úrskurði sínum. Svo er ekki. Þetta álver, þó að það sé minna, hefur aðrar tæknilegar útfærslur á útblæstri sem orsakar mun meiri mengun en álver það sem Norsk Hydro hugðist reisa í nafni Reyðaráls. Þar er um að kenna minni hreinsun á útblæstri en það er allt útlit fyrir það, herra forseti, að verksmiðja Alcoa muni blása út fjórum sinnum meira magni af brennisteini en gert hafði verið ráð fyrir frá verksmiðju Reyðaráls. Og til að halda þessari mengun innan við gefin mörk er brugðið á það ráð að reisa nærri 80 metra háa skorsteina, en það ber að taka það fram, herra forseti, að slík lausn er bönnuð í nágrannalöndum okkar. Það er bannað í Skandinavíu að reisa skorsteina af þessu tagi til að losa sig við mengunina upp í háloftin, m.a. vegna þeirrar hættu sem slíkt skapar á súru regni.

Þá má einnig gagnrýna harðlega, herra forseti, skort á aðkomu almennings í þessum efnum þar sem þetta nýja álver, Alcoa, fór ekki í hið eiginlega mats- og umsagnarferli. Þannig sést það, herra forseti, af því sem ég nú hef rakið að enn er margt óljóst um það hvort farið hafi verið að lögum um mat á umhverfisáhrifum. Það er mitt mat að ekki sé hægt að ljúka skoðun þessa máls fyrr en endanlegur úrskurður liggur fyrir í yfirstandandi kærumálum.

Ég hef nú lokið, herra forseti, við að fara efnislega yfir þau atriði sem ég gat um í umsögn minni til iðnn. sem 2. minni hluti umhvn. og ítreka að það náðist aldrei neitt meirihlutaálit frá umhvn. þar sem illa var mætt á fundi, þá tvo fundi þar sem fjallað var um málið í nefndinni, þannig að hér er aðeins um tvær minnihlutaumsagnir að ræða. Þar standa að baki einungis tveir stjórnarþingmenn. (HjÁ: Hinir styðja það, Samfylkingin.) Já, hinir styðja það, Samfylkingin, er sagt hér utan úr sal af hv. formanni iðnn. Það mun satt vera og ekki ætla ég að verja skoðun Samfylkingarinnar úr þessum ræðustóli. Mig tekur það sárt að náttúruverndarsjónarmiðið skuli ekki hafa náð að verða ofan á í umfjöllun málsins í þeim flokki. Í mínum flokki, Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, hefur hins vegar ævinlega verið fjallað um þetta mál út frá náttúruverndarsjónarmiðum. Hér er um svo gífurleg spjöll að ræða sem fylgja munu þessum framkvæmdum, og það er ekki bara þau spjöll sem fylgja Kárahnjúkavirkjun heldur líka og ekki síður það sem við gætum átt í vændum vegna loftmengunarinnar.

Nú mun ég, herra forseti, hafa um það nokkur orð, kannski ekki hvað síst vegna þess að við erum alltaf að fá nýjar og nýjar upplýsingar um þessar afleiðingar. Það kom fram í máli hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar og kemur reyndar fram í nál. hans sem liggur hér á borðum þingmanna. Því nál. fylgir grein eftir Berg Sigurðsson sem birtist á heimasíðu Landverndar fyrir skemmstu en sú grein vekur okkur til umhugsunar um nákvæmlega þessi útblástursatriði sem ég nú hyggst reifa aðeins frekar.

Það liggur sem sagt fyrir, herra forseti, að álbræðsla Alcoa muni losa fjórum sinnum meira af brennisteini út í andrúmsloftið en sú verksmiðja sem Norsk Hydro hugðist reisa, jafnvel þó að þessi nýja bræðsla sé eða eigi að vera fjórðungi minni en sú norska og jafnvel þó að ekki eigi að reisa rafskautaverksmiðju með Alcoa-verksmiðjunni, sem þó var fyrirhugað að gera með þeirri norsku. Bergur Sigurðsson hefur ekki einungis skrifað greinina sem birtist á heimasíðu Landverndar, heldur birtist í Morgunblaðinu þann 13. febrúar sl. grein eftir hann þar sem hann fer nánar yfir þessi mál, og ég ráðlegg hv. þingmönnum að kynna sér greinar hans vel.

Þegar við skoðum útstreymistölurnar yfir brennisteininn vegna þessarar álverksmiðju og þeirra álverksmiðja sem við höfum nú þegar starfandi á Íslandi kemur margt athyglisvert í ljós, herra forseti. Það liggja fyrir upplýsingar um það frá Hagstofunni að heildarlosun Íslendinga árið 2001 á brennisteini hafi verið 9.570 tonn á ári. Með öllum þeim áformum sem uppi eru um stækkun álverksmiðjunnar á Grundartanga, álverksmiðjunnar í Straumsvík og áformum um þessa nýju verksmiðju Alcoa í Reyðarfirði mundi losun frá stóriðju aukast um önnur 10.000 tonn, eða 9.736 tonn, sem mundi bætast við þau tæpu 10.000 tonn sem við nú þegar losum. Það gerir að við erum komin í tæplega 20.000 tonna heildarlosun brennisteins út í andrúmsloftið á ári nái þetta allt fram að ganga. Tæplega 20.000 tonna heildarlosun á brennisteini, herra forseti, er gífurlegt magn.

Það má gera ráð fyrir því að upp um þessa tvo 80 metra háu skorsteina mundi fara brennisteinn sem jafnaðist á við það að 6.000 tonnum af brennisteinssýru væri úðað út í andrúmsloftið með tilheyrandi skerðingu á loftgæðum. 6.000 tonn af brennisteinssýru út um þessa 80 metra háu skorsteina --- slíkt yrði ekki leyft í skandinavískum löndum.

Hvaða viðmið eru hér höfð? Hvaða metnaður er til staðar hjá stjórnvöldum? Hv. formaður iðnn. leggur blessun sína yfir þetta og telur ekki einu sinni ástæðu til þess að fjalla á neinn gagnrýninn hátt um nákvæmlega þetta atriði í iðnn.

Verði öll þau áform sem nú eru í pípunum um stóriðju á Íslandi, í skjóli stjórnarflokkanna, Sjálfstfl. og Framsfl., og með stuðningi Samfylkingarinnar, að veruleika mun losun okkar á brennisteini verða tæp 20.000 tonn á ári. Með því værum við að brjóta gegn öllum viðmiðunarmörkum Vesturlanda hvað losun varðar. Meira að segja Alþjóðabankinn gengur út frá því í öllum sínum viðmiðunarreglum þegar þeir skoða lánshæfi verkefna af þessu tagi að þá sé losun brennisteins ekki meiri en eitt kíló á brætt áltonn, en hér erum við að tala um 12 kíló á hvert brætt áltonn. Þannig ætti framkvæmd af þessu tagi alls ekki að rúmast innan viðmiðunarmarka Alþjóðabankans hvað þetta varðar. Og það eru ekkert litlar stærðir sem skakkar. Eitt kíló brennisteins á hvert áltonn segir Alþjóðabankinn, við erum hér að heimila 12 kíló á hvert áltonn.

[14:45]

Herra forseti. Ég tel ábyrgð þingmanna í þessum sal mikla. Ég tel að þingmenn geti ekki hlaupið undan þeirri ábyrgð að skoða þetta mál alvarlega og á mjög gagnrýninn hátt. Hér eru stór tíðindi á ferðinni sem gert hefur verið lítið úr í umræðunni. Okkur í þessum sal ber skylda til að taka þetta til umfjöllunar. Ég verð að spyrja hæstv. umhvrh. sem situr hér og fylgist með umræðunni hvort hún geti með stolti skrifað undir að við förum svo langt á svig við þau alþjóðlegu viðmið sem ég var að nefna, jafnvel í reglum Alþjóðabankans varðandi fjármögnun framkvæmda af þessu tagi. Er þetta ásættanlegt? Ég segi nei, herra forseti.

Ég leyfi mér að benda á, við lokin á umfjöllun minni um brennisteinslosunina, herra forseti, að ef ríkisstjórnin ætlaði svo ofan í kaupið að reisa rafskautaverksmiðju á Grundartanga eins og komið hefur fram í fréttum, værum við að heimila enn frekari losun brennisteins. Í fréttum Ríkisútvarpsins þann 29. janúar sl. var sagt frá væntanlegri rafskautaverksmiðju á Grundartanga, að slík verksmiðja mundi losa fjórfalt meira af brennisteini en stækkað álver á Grundartanga --- fjórfalt meira en álverið á Grundartanga. Og þá yrði, herra forseti, heildarlosun okkar Íslendinga á brennisteini út í andrúmsloftið meiri en heildarlosun Norðmanna og Dana. Ekki miðað við höfðatölu, ekki á íbúa --- ónei. Við stefnum sem sagt í að losa meira magn brennisteins út í andrúmsloftið með öllum þessum stóriðjuáformum en Norðmenn gera í sínu landi eða Danir í sínu landi. Eru þetta ákvarðanir eða stefna sem er til sóma?

Er ekki rétt, herra forseti, að við stöldrum við og gagnrýnum þetta stóriðjubrjálæði, þennan hornstein atvinnustefnu Framsóknarflokksins eins og formaður Framsóknarflokksins, hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson, sagði á nýafstöðnu landsþingi Framsóknarflokksins, að stóriðjan væri hornsteinn undir atvinnustefnu framsóknarmanna? Ég segi bara: Ja, svei, herra forseti. Atvinnustefna af þessu tagi, mengunarbrjálæði af þessu tagi er ekki til sóma, miklu frekar stefna til glötunar og á skjön við allar reglur siðaðra þjóða.

Hér stefnir í mikið óefni í mengunarmálunum, herra forseti. Ég tel að þau mál hafi ekki fengið nægilega athygli í þingsölum og hvet því til að umræðan um þau fari fram, að fólk taki þátt í henni og segi sínar skoðanir á því sem ég hef rakið í þessum efnum.

Hv. þingmenn hafa í þessari umræðu rekið sig á að álverið sem fyrirhugað er að reisa á Reyðarfirði verður ekki búið vothreinsibúnaði heldur eingöngu þessum gífurlegu skorsteinum, 80 metra háum, sem koma til með að blása eimyrju upp í andrúmsloftið. Í umræðunni núna hefur allt í einu verið reynt að kasta rýrð á vothreinsibúnaðinn. Í umræðunni sem fram fór í umhvn. um það mál kom fram að þessi besta fáanlega tækni sem skilgreind væri samkvæmt alþjóðastöðlum gerði ekki kröfu um vothreinsibúnað. Úr því að slík krafa var ekki sett í alþjóðlega staðla um bestu fáanlegu tækni var ekki talin ástæða til þess fyrir Íslendinga að lepja slíkt upp eftir Norðmönnum. Ég fer ekki með beinar tilvitnanir í þessum efnum, herra forseti, en þetta var nú andi umræðunnar í umhvn.

Sannleikurinn er auðvitað sá að Norðmenn hafa metið aðstæður sínar þannig að þar sem álverksmiðjur yrðu settar upp í þröngum fjörðum, þar sem lygnt er, væri það vænlegra til árangurs að setja brennisteininn og önnur mengunarefni með vothreinsibúnaði út í sjó, enda verður brennisteinn skaðlaus þegar hann er kominn í sjó vegna ákveðinna efnabreytinga í honum. Það er nánast eins og að setja súrefni í sjóinn. Skaðsemi brennisteinsins er gerð hlutlaus fari hann út í sjó. Það er nákvæmlega það sem vothreinsibúnaðurinn gerir. En hér eru ekki gerðar neinar kröfur um vothreinsibúnað, allt skal upp í loftið.

Ég tel þetta ámælisvert, herra forseti. Auðvitað ætti að skoða þetta mun betur en mér virðist hafa verið gert.

Herra forseti. Þá vil ég koma inn á ákveðið mál sem ég hef skoðað talsvert í tengslum við þessar framkvæmdir allar. Það mál lýtur að rekstraröryggi þessa álvers. Rekstraröryggi þess tengist orkukaupunum frá þessu stóra orkuveri sem fyrirhugað er að reisa við Kárahnjúka. Hvernig, herra forseti, hyggst ríkisstjórnin tryggja rekstraröryggi þessa álvers?

Ljóst er að þetta einangraða orkuver, sem fyrirhugað er að reisa á svæðinu norðan Vatnajökuls og á að skapa þessari álbræðslu rafmagnið, er þannig í sveit sett að það tengist í raun ekki orkukerfi landsins þannig að hægt sé að ganga að öruggu varaafli ef bilanir yrðu eða eitthvað kæmi upp á í væntanlegri Kárahnjúkavirkjun. Það er aldeilis ekki svo. Þá er eðlilegt að spyrja: Hvað þá? Hvernig ætla menn að sjá til að álverið geti starfað ef upp kæmu einhverjar bilanir eða hnökrar í Kárahnjúkavirkjun?

Ég velti fyrir mér, herra forseti: Getur verið að hér sé í farvatninu áætlun um línulögn yfir hálendið? Er þessi framkvæmd ávísun á háspennulínur yfir Sprengisand? Ég vil fá svör við því í þessum sal hvort þingmönnum finnist í lagi að samþykkja álbræðslu á Reyðarfirði sem kallar innan örfárra ára á háspennulínur, tvær samsíða línur, yfir Sprengisand? (EMS: Ekki skortir hugmyndaflugið hjá þér.)

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson gjammar hér fram í um hugmyndaflug. Ég vil benda hv. þingmanni á nýprentað svar hæstv. iðnrh. sem dreift var í morgun á þskj. 1020. Þetta eru svör við fyrirspurnum sem ég lagði fyrir hæstv. iðnrh. varðandi nákvæmlega þessi atriði sem ég hef gert að umtalsefni. Þar spyr ég ráðherrann hvað muni gerast verði fyrirvaralaus bilun í Kárahnjúkavirkjun, hvort byggðalína gæti þá flutt rafmagnið sem á vantaði fyrir væntanlegt álver í Reyðarfirði. Ég spyr hvernig fyrirhugað sé að tryggja rekstraröryggi álvers í Reyðarfirði án tengingar yfir hálendið við meginflutningskerfi Landsvirkjunar á Suðurlandi. Og hvaða svör birtast í svari hæstv. ráðherra, herra forseti? Svarið er eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Allt frá 1980 hefur verið reiknað með gerð svokallaðrar Sprengisandslínu sem tengir saman raforkukerfið fyrir norðan og sunnan, en endanleg tímasetning hefur ekki verið ákveðin. Við bilanir á vesturvæng byggðalínunnar getur rekstur hennar orðið óstöðugur, en það getur haft í för með sér óþægindi og jafnvel straumleysi á Norður- og Austurlandi. Sprengisandslína mundi leysa þetta vandamál til frambúðar. Kárahnjúkavirkjun styrkir heildarraforkukerfið og gæti því jafnvel frestað lagningu línunnar. Ekki er þó ólíklegt að talið verði nauðsynlegt að hefja lagningu línunnar innan næstu 10 ára.``

Þetta segir hæstv. iðnrh. þingheimi og þjóð í dag, í svari við fyrirspurn. Það er sem sagt ekki ólíklegt að ríkisstjórn telji nauðsynlegt innan 10 ára að hefja lagningu Sprengisandslínu. Gerir fólk sér grein fyrir því hvað hangir hér á spýtunni? Eru allir í þessum sal og þeir sem á mál mitt hlýða sáttir við það? Herra forseti. Ég er það ekki. (KHG: Góðir vegir. Alltaf sáttur við góða vegi.)

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er sáttur við vegi. Ég segi: Verði honum að góðu þegar komnir verða uppbyggðir vegir yfir Sprengisand. (KHG: Ég ætla að nýta mér það.) Ég verði ekki samferða honum á þeim vegi. (Gripið fram í.)

Þá erum við kannski komin, herra forseti, að stórum hluta þessa máls. Þessi eina framkvæmd, sem oft er látið í veðri vaka að sé sakleysisleg byggðaaðgerð, er svo gífurleg og hefur svo mikil áhrif á land og þjóð. Stór hluti þeirra áhrifa hefur enn ekki verið metinn. Við höfum enn ekki fengið í þennan sal eða fyrir augu þjóðarinnar skýrslu Stefáns Benediktssonar sem sýndi fram á arðsemi þess að reisa öflugan þjóðgarð á miðhálendinu á svæðinu fyrir norðan Vatnajökul. Á þeirri skýrslu lúrir hæstv. iðnrh. enn í dag. Úr því að hæstv. iðnrh. er gengin í salinn væri rétt að fá hér einhver svör við því: Hvers vegna hefur þjóðinni aldrei gefist tækifæri til að vega og meta þá tvo ólíku kosti: Að nýta þetta land með þeim hætti sem ríkisstjórnin hyggst gera eða að nýta það eins og Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur talað fyrir, þ.e. með náttúruvernd og með því að setja fjármagn í öfluga uppbyggingu ferðaþjónustunnar?

Hv. þm. Hjálmar Árnason talaði um það í ræðu sinni í morgun að ferðaþjónustufyrirtæki stæðu mörg hver á brauðfótum. Það er alveg rétt. Hvaða afl hefur ferðaþjónustan fengið hjá stjórnvöldum? Hvert hefur orkan frá stjórnvöldum farið? Hún hefur farið í stóriðjuna og fer í stóriðjuna áfram. 100 milljarða kr. fjárfesting er fyrirhuguð í Kárahnjúkavirkjun, sem hagfræðingar hafa sýnt fram á hvað eftir annað að sé fullkomlega óarðbær.

Hvenær fáum við að líta augum arðsemismat yfir annars konar landnýtingu, arðsemismat yfir landnýtingu sem byggir á náttúruvernd? Hvað hafa farið margir milljarðar í undirbúning þessa ævintýris ríkisstjórnarinnar?

Forstjóri Landsvirkjunar sagði frá því fyrir einum tveimur árum síðan að 3,2 milljarðar hefðu farið í undirbúning Fljótsdalsvirkjunar --- 3,2 milljarðar í undirbúning virkjunar sem aldrei varð neitt af. Hvað er þá búið að fara mikið í að undirbúa Kárahnjúkavirkjun, stórvirkjun númer tvö? Ég fullyrði, herra forseti, að það er ekki undir tveimur milljörðum. Það er eflaust komið upp í svipaða upphæð og fór í undirbúning Fljótdalsvirkjunar. Við erum kannski að tala um fimm til sex milljarða sem hafa farið í undirbúning þessara framkvæmda. Hvar stæðu ferðaþjónustufyrirtæki landsins í dag ef þau hefðu fengið þessa fimm, sex milljarða í atvinnuuppbyggingu til sín? Hvar stæði atvinnuuppbygging landsins og landsbyggðarinnar í dag ef önnur forgangsröðun hefði verið til staðar hjá ríkisstjórn Íslands en raunin hefur verið?

Herra forseti. Ég held að sé tímabært að þingmenn hugleiði þetta af mikilli alvöru og svari hver fyrir sig eða hér í þessum ræðustóli. Það hefur aldrei verið neitt val. Það hefur aldrei verið boðið upp á neitt annað en þessi gífurlegu áform um álver sem setur efnahagslíf landsmanna á annan endann, jafnvel þó svo hægt sé að flagga einhverri aukningu á útflutningstekjum þjóðarinnar.

Lítum aðeins á það mál. Hvað erum við að tala um mikinn arð í peningum, þó mér sé meinilla við, þegar svona liggur á mér, að tala um arð í peningum? Búið er að gefa það út, herra forseti, að fyrirhuguð orkusala muni að öllum líkindum gefa þjóðarbúinu 5 milljarða í aðra hönd á ári. En hins vegar er vitað að á sama tíma, herra forseti, borgum við um 4 milljarða í vexti af þeim lánum sem þarf að taka til framkvæmdanna. Hver er þá mismunurinn? Einn milljarður? Ríkissjóður gæti fengið kannski einn milljarð inn vegna vinnlauna í afgjöld skatta og slíks af vinnulaunum, þá erum við kannski að tala um 2 milljarða sem við mundum fá fyrir þessa orkusölu --- þjóðarbúið, á ársgrundvelli.

Við skulum skoða þetta í samhengi. Ef við skoðum landsframleiðsluna árið 2001 þá var hún 740 milljarðar. Á árinu 2001 var landsframleiðslan 740 milljarðar. Við erum að tala um 2 milljarða viðbót við þessa framkvæmd inn í landsframleiðsluna. Er það nú eitthvað til að hrópa húrra fyrir? (Iðnrh.: Skiptir kannski bara engu máli.) Tveir milljarðar í landsframleiðsluna skipta vissulega máli en hæstv. iðnrh. sem hér kemur með frammíkall verður auðvitað að gera sér grein fyrir því og veit fullvel í hjarta sínu að það er hægt að afla tveggja milljarða inn í landsframleiðsluna á annan hátt en með stóriðjunni sem hér er lögð til. Ég veit að einhverjir hv. þingmenn, trúlega framsóknarmenn, brosa í kampinn og hlægja að Vinstri grænum og tala um það þeir verði að koma með ,,eitthvað annað``. (Iðnrh.: Akkúrat það sem ég hugsaði.) Nákvæmlega það sem hæstv. ráðherra hugsaði, viðurkennir hún. Ég skal segja hér nokkur orð, herra forseti, um ,,eitthvað annað``.

[15:00]

Það var á fjölmennum mótmælafundi, sennilega með 1.500--1.600 manns, sem haldinn var í Borgarleikhúsinu fyrir örfáum vikum, fundi sem haldinn var til að mótmæla þessum brjálæðislegu áformum, sem hagfræðingurinn Sigurður Jóhannesson steig á stokk og hélt mjög öflugt erindi. Honum var klappað mikið lof í lófa þegar hann sagði stoltur og með reistan makka: Við eigum auðvitað að láta þjóðina gera eitthvað annað. Og við eigum ekki að segja þjóðinni hvað hún á að gera. Við eigum ekki að koma með stóriðju á silfurfati til þjóðarinnar, eða hvernig fatið svo sem er, og segja: Gjörið svo vel, veskú, hér er ein álverksmiðja. Við eigum að heimila þjóðinni að gera ,,eitthvað annað``, ekki samkvæmt valdboði ríkisins, sokkaverksmiðja hér, nærfataverksmiðja hér, áburðarverksmiðja hér, álverksmiðja hér. Ónei, heldur nákvæmlega að heimila þjóðinni að gera eitthvað annað. Áætlunarbúskapur af þessu tagi heyrir sögunni til. Hann gafst ekki vel þar sem hann var reyndur á öldinni sem leið. Hann kemur ekki til með að gefast vel núna á Íslandi í upphafi 21. aldarinnar. Þetta eru fortíðardraumar. Þeir eru gamaldags. Þeir eru löngu farnir úr tísku. Og það á að heimila þjóðinni að gera eitthvað annað. Og ég segi þetta bara mjög hnakkakert og stolt: Að heimila þjóðinni að gera eitthvað annað.

Herra forseti. Það er í mörg horn að líta í þessu stóra máli. Eitt af því sem kemur upp í hugann er þörf fólks á að gera eitthvað stórt. Þörfin kemur fram sem einhvers konar græðgisþörf. Skoðum samfélag okkar, mannfólkið telur 290 þús. tæp, þjóðin er ekki stærri, og við erum að tala um það hér að verksmiðjan sem hæstv. ríkisstjórn dreymir um eigi að búa til 450--500 störf, í hæsta lagi 700 þegar öll afleidd störf fyrir austan eru talin með. Hvað er verið að tala um að hvert starf kosti? 300--500 millj. heyrist sagt. Það eru engin dæmi um það að störf sem búin eru til með ríkisafli eða ríkisforsjá kosti annað eins hér á landi. Hvernig réttlætir ríkisstjórnin fyrir þjóðinni þennan mikla kostnað við hvert starf? Er ekki hægt að láta sér nægja minni hluti sem fara betur í þessu samfélagi? Hvers vegna hefur ekki verið litið til hluta sem henta stærð samfélagsins fyrir austan betur en álverksmiðjan sem hér um ræðir?

Mig langar í þessu sambandi, herra forseti, til að vitna til greinar sem birtist í Morgunblaðinu 18. febrúar sl. eftir Kára Þorgrímsson. Hann er bóndi í Garði við Mývatn í Þingeyjarsýslu og greinin hans hreyfði mjög við mér. Ég geri ráð fyrir að ákveðnir þættir í henni geti hreyft við öðrum þingmönnum sem hér í sal eru. Ég fæ þess vegna að vitna til hennar. Hann var einmitt að fjalla um það í grein sinni hvernig hlutföllin í stærð þessa samfélags væru með tilliti til þessara gífurlegu áforma. Og Kári segir, með leyfi forseta:

,,Hagfræðin getur jafnt verið með eða móti virkjuninni, náttúruspjöllin eru söm og síst betri þótt einhver hafi hag af þeim, enda bera virkjunarsinnar fremur fyrir sig svokölluð byggðasjónarmið, það er annað nafn á dreifbýlishyggju sem lengi hefur þjakað Íslendinga. Sætir furðu að slík viðhorf skuli uppi með svo fámennri þjóð að þótt hún byggi öll á einum stað yrði þar samt naumast kölluð borg.``

Herra forseti. Þetta er vert að skoða í þessu samhengi. Og kjarni málsins er auðvitað sá að samfélag okkar, þetta fámenna samfélag, þolir hluti af ákveðinni stærðargráðu en aðra hluti ekki.

Áfram vil ég fá að vitna í grein Kára Þorgrímssonar í Garði, með leyfi herra forseta:

,,Því er það mikið lán að svo margir skuli hafa valið sér búsetu á sama stað, í Reykjavík. ,,Fjölmennið`` þar hefur fært okkur öfluga verslun, heilbrigðisþjónustu, menntastofnanir o.fl o.fl. Síðast en ekki síst er Reykjavík sá markaður sem atvinnustarfsemi og lífskjör landsbyggðarinnar byggjast á. Í dreifbýli býr nú svipaður fjöldi manna eins og lengst af, en nú ótilneyddir og án þess að hungurfalla í góðærum sem fyrrum. Ekkert bendir til að landsbyggðin hefði annað en hag af frekari fjölgun fólks í Reykjavík, alla vega fremur en á Austurlandi. Samfélög manna verða ekki fullsmíðuð í eitt skipti fyrir öll, hvorki með álverum né kaupfélögum. Þau eru eins og lifandi líkami, allt þarf þar að hæfa hvað öðru. Álverið stóra á Reyðarfirði verður eins og fílshjarta í litlu barni.``

Herra forseti. Þetta segir Kári Þorgrímsson í Garði við Mývatn: ,,Álverið stóra á Reyðarfirði verður eins og fílshjarta í litlu barni.`` Og ég verð að viðurkenna, herra forseti, að þessi samlíking á mikinn samhljóm innra með mér. Hún styður við það sem ég hef verið að gagnrýna í þessu máli frá upphafi, hugmyndin og framkvæmdin er allt of stór fyrir hagkerfi okkar og samfélag. Skýrsla Nýsis um samfélagsáhrifin sýnir þetta auðvitað svo ekki verður um villst. Það skiptir bara máli með hvaða gleraugum menn lesa þá skýrslu.

Og auðvitað er sannleikurinn líka sá að ríkisstjórnin er ekki farin að svara þeirri gagnrýni sem hefur komið á samfélagslegu áhrifin sem lúta t.d. að innflutningi vinnuafls. Það hefur ekkert verið sagt um það hvernig samfélagið fyrir austan ætlar að búa sig undir það að taka við öllu því innflutta vinnuafli sem verður tekið við hér, bæði á framkvæmdatíma og ekki síður eftir að álverksmiðjan hæfi starfsemi sína. Það er auðvitað ekkert vitað um það hverjir kæmu til með að vinna í þessari álverksmiðju, Íslendingar eða útlendingar. Það er rennt blint í sjóinn með það. En í sannleika sagt verða menn að búa sig undir að það verði ekki Íslendingar. Menn verða líka að búa sig undir að það verði afar hreyfanlegt vinnuafl. Menn verða að búa sig undir það að þeir sem koma til með að vinna í álverksmiðjunni verði þar nánast eins og á vertíð, verði karlmenn sem fljúgi inn á svæðið, vinni í vikutíma, 10 daga, og fari svo heim til fjölskyldna sinna, hvort sem það er í Reykjavík, á Ísafirði eða í útlöndum og dvelji þar næstu 10 daga. Menn eru ekki að búa sig undir svona lagað. Samkvæmt samfélagslegu áhrifunum sem lýst er í skýrslu Nýsis eru hugmyndir manna fyrst og fremst byggðar á því að þetta verði stöðugur vinnustaður fyrir Íslendinga. En það er ekki á vísan að róa með það, herra forseti, sannarlega ekki.

Herra forseti. Þjóðin er klofin í þessu máli. Og það hefur verið vitað afar lengi. Það er alveg ljóst að í þeim skoðanakönnunum sem hafa verið gerðar segjast hartnær 50% þjóðarinnar vera fylgjandi framkvæmdunum á meðan hinn hluti þjóðarinnar, hinn helmingurinn, er annaðhvort ekki búinn að gera upp hug sinn eða er mótfallinn þeim. 33% í síðustu könnun sem ég sá voru mótfallin framkvæmdunum og 27% tjá sig ekki um málið. Þetta þýðir auðvitað að þjóðin er fullkomlega klofin í málinu.

Við höfum líka heyrt gagnrýni frá útflutningsfyrirtækjunum, útflutningsatvinnuvegunum. Við höfum heyrt gagnrýni á hátt gengi krónunnar sem er talið stafa ekki hvað síst af þessum áformum. Hverju hafa stjórnvöld svarað þessum gagnrýnisröddum? Litlu sem engu.

Hverju hafa stjórnvöld svarað því fólki sem hefur staðið hér og mótmælt í hverju einasta hádegi síðan í lok ágúst? Þessu fólki hefur í engu verið svarað. Fólkinu sem krefst þess að Kárahnjúkavirkjun verði sett í atkvæði þjóðarinnar, að áformunum verði frestað fram yfir alþingiskosningar eða það verði sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla um málið. Ríkisstjórnin hefur engu svarað þessu fólki. Hefur heldur ekki svarað þeirri gagnrýni sem fram hefur komið að Kárahnjúkavirkjun hafi verið sett fram og fóstruð á einu kjörtímabili, hún hafi ekki verið á teikniborðum Landsvirkjunar við síðustu kosningar.

Ríkisstjórnin hefur heldur ekki svarað því fólki sem gagnrýnir það að umhvrh. skuli hafa snúið við úrskurði Skipulagsstofnunar sem var náttúruvernd og náttúru svæðisins norðan Vatnajökuls í hag.

Okkur hefur heldur ekki verið svarað varðandi þær ávirðingar sem heyrst hafa utan úr heimi frá stórfyrirtækjum sem hugðust bjóða í þau verk sem komu við Kárahnjúkavirkjun. Hvers vegna duttu úr skaftinu fyrirtæki á borð við Skanska, Veidekke, NTC og fleiri? Voru það umhverfis\-áhrifin yfirvofandi sem fyrirtækin settu fyrir sig eins og hefur heyrst í fjölmiðlum hér heima, herra forseti? Er það svo að ríkisstjórnin sé að keyra hér í gegn framkvæmd sem stór verktakafyrirtæki, viðurkennd á sínu sviði í nágrannalöndum okkar, veigra sér við að fara í vegna þess að hér sé umhverfisskaðinn of mikill? Og líður ríkisstjórninni vel með það að setja bara undir sig hausinn og keyra málið í gegn í ljósi þess að hún hefur meiri hluta fyrir því hér í þinginu, en með klofna þjóð á bakinu?

Herra forseti. Ég treysti því bara að þjóðin láti til sín heyra í kosningum 10. maí nk. í þessum efnum. Og ég sé ekki annað en að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, sé að gera okkur það auðveldara að kjósa um Kárahnjúkavirkjun í næstu alþingiskosningum vegna þess að nú hefur ESA kallað inn til sín ákveðnar upplýsingar sem við þingmenn fáum raunar ekki að vita hverjar eru. En ég veit ekki betur en að ESA ætli sér alltaf ákveðna fresti við umfjöllun mála. Og ég trúi því ekki að ríkisstjórnin geti undirritað bindandi samninga um orkusölu eða alla þá þætti sem hanga á spýtunni varðandi samninga við Alcoa án þess að ESA sé búið að gefa sitt græna ljós.

Það er kannski rétt að við spyrjum hæstv. iðnrh.: Hvað hefur iðnrh. hæstv. fyrir sér í því að úrskurður ESA í þessum málum verði á endanum jákvæður? Við vitum vel að ESA afgreiddi Grundartangaálverksmiðjuna á jákvæðan hátt með u.þ.b. 500 millj. kr. meðgjöf ef ég man rétt sem var kölluð ,,aðstoð við Norðurál``. Stofnunin mat það svo að ríkið hefði styrkt álverið á Grundartanga um 430 millj. kr., sá ég í Morgunblaðinu 15. júlí 1998. Og það var talið vera innan marka þess sem ESA heimilaði þá. En er það sama upp á teningnum endilega í dag? Og hvernig getur hæstv. iðnrh. verið jafnkokhraust og viss í sinni sök og hún virkar í fjölmiðlum og hér í þinginu þegar þetta ESA-mál er dregið fram?

Herra forseti. Það er rétt að það komi fram hér að ég skrifaði iðn.- og viðskrn. bréf og ég óskaði eftir því að fá þær upplýsingar sem ESA bað um. Ég vildi fá að vita í hverju spurningar ESA lágu en ráðuneytið kaus að hafna beiðni minni og gaf tvær ástæður fyrir því. Önnur var sú að samkvæmt upplýsingalögum væri stjórnvöldum heimilt að takmarka aðgang að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast enda hafi þau gögn að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir. Og það væri ágætt að vita hvaða almannahagsmunir eru hér í húfi. Það væri ánægjulegt að heyra það frá hæstv. iðnrh. hvaða mikilvægu almannahagsmunir komi í veg fyrir það að ég fái sem alþingismaður og þegn þessarar þjóðar aðgang að þeim gögnum sem ESA hefur óskað eftir að iðnrn. léti af hendi.

Ekki nóg með það, heldur telur ráðuneytið hættu á því að veiting aðgangs að þeim bréfum mundi valda tjóni. Herra forseti, ,,mundi valda tjóni``. Ég spyr hæstv. iðnrh.: Hvaða tjóni gæti það valdið þó að iðnrn. væri gert að heimila mér aðgang að þeim bréfum sem skrifuð hafa verið til ESA? Er verið að gera einhvern úlfalda úr mýflugu hér eða er meðvitað verið að halda upplýsingum frá þingmönnum og þjóð?

Í þessu sambandi má líka geta þess að í efh.- og viðskn. óskaði hv. þm. Ögmundur Jónasson eftir því að það færi fram óháð mat á umframkostnaðinum sem væri fyrirhugaður eða yrði augljóslega farið út í við framkvæmdir á Kárahnjúkavirkjun. Og það var óskað eftir því að fenginn yrði óháður aðili til að meta líkurnar á möguleikanum á umframkostnaðinum. Og hvað gerðist í nefndinni? Efh.- og viðskn. hafnaði auðvitað kröfunni. Og ég spyr: Á hvaða forsendum?

[15:15]

Hafa menn fengið nægilega hlutlausar upplýsingar eða hlutlaust mat á t.d. þeim arðsemisútreikningum sem liggja fyrir? Skýtur það mönnum ekki neinn skelk í bringu að nú skuli það liggja fyrir að Sumitomo-bankinn, sem skilaði á sínum tíma skýrslu um arðsemisútreikninga Landsvirkjunar og gaf einhvers konar stimpil á það að Landsvirkjun hefði reiknað rétt, er akkúrat bankinn sem ætlar að fjármagna að hluta til þessar framkvæmdir Landsvirkjunar? Er hér ekki um einhver óeðlileg tengsl að ræða? Hvers vegna ákveður efh.- og viðskn. þá að ekki sé tilefni til að fram fari óháð mat á líkunum á því að umframkostnaður verði við framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun?

Herra forseti. Mér finnst þetta ámælisvert. Mér finnst þjóðin eiga heimtingu á því að málin séu skoðuð betur ofan í kjölinn en hér hefur verið gert. Ég sé engin rök fyrir því að neita þjóðinni um að fá óháð mat á þessum kostum, sérstaklega ekki þegar í ljós kemur að bankastofnunin sem oftast hefur verið veifað í umræðum og sögð er blessa útreikninga Landsvirkjunar, er svo þvæld í þennan fjármögnunarvef Landsvirkjunar að hún ætlar að sjá Landsvirkjun fyrir lausafjármagni meðan á byggingu virkjunarinnar stendur.

Það er kannski Sumitomo-bankinn sem ætlar að lána Landsvirkjun þessi 25% af fjármögnuninni sem heitir eigið fé í reikningum Landsvirkjunar? Eða finnst mönnum það ekkert skrýtið að Landsvirkjun skuli líka ætla að taka að láni það sem hún kallar eigið fé í þessum arðsemisútreikningum? Er þetta allt bara eðlilegt og allt í lagi? Herra forseti, mér finnst það ekki.

Herra forseti. Ég hef líka verið að spyrja ráðherrana hér um mótmælin gegn Kárahnjúkavirkjun sem hafa komið erlendis frá og það er alveg ljóst að þau hafa verið talsverð. Bréf, undirrituð af fjölda einstaklinga, hafa verið send til forsrn., eitthvað til umhvrn. og sömuleiðis til iðnrn. og eitthvað til Landsvirkjunar. Það kemur auðvitað í ljós að fólk sem stundar náttúruvernd og ber hana fyrir brjósti, jafnvel þótt það búi á erlendri grundu, lætur sig þetta mál varða. Og það má lesa um það í þingskjölum, herra forseti, í þeim svörum sem hafa verið að berast frá þessum þremur ráðherrum, hæstv. iðnrh., umhvrh. og forsrh., að ráðuneyti þeirra hafa ekki farið varhluta af slíkum mótmælum, borist hefur inn á þeirra borð fjöldinn allur af slíkum mótmælum.

Enda skyldi maður hafa ætlað svo. Það er eðlilegt að álykta að svo sé, því að auðvitað vitum við um þau mótmæli sem t.d. Bandaríkjastjórn þarf að taka við vegna hugsanlegra framkvæmda á heimskautasvæðunum í Alaska eða svæðunum þar sem Bush Bandaríkjaforseti vill nú fara að bora eftir olíu, í friðlandsvæðum Alaska. Bush Bandaríkjaforseti fær mikið af mótmælum frá alþjóðlegum náttúruverndarsamtökum víða að, frá fólki sem býr hvergi nálægt Alaska. Það sama má segja um Brasilíustjórn sem þarf að þola það árum saman að vera áreitt af náttúruverndarsamtökum og náttúruverndarsinnum fyrir að eyða regnskógunum. Herra forseti. Kárahnjúkavirkjun er alveg sambærilegt mál. Hér er um arfleifð að ræða, arfleifð sem Íslendingum hefur verið trúað fyrir en í raun og sann arfleifð heimsbyggðarinnar, auðlegð sem náttúra Íslands hefur að geyma, fjársjóður og gull og gersemar sem náttúra Íslands hefur varðveitt fyrir þjóðir heims. Þess vegna koma umræddar framkvæmdir þjóðum heims við. Og ég fagna því að náttúruverndarsinnar vítt og breitt um heiminn hafi látið í sér heyra um þetta mál. Það gefur okkur, sem erum að reyna að berjast fyrir náttúruvernd á Íslandi, aukinn kraft að finna það að við stöndum ekki ein. Við eigum bræður og systur vítt um lönd sem deila sjónarmiðum okkar.

Einnig er ástæða til að geta þess, herra forseti, að hópurinn sem staðið hefur á Austurvelli frá því í lok ágúst sl. í hverju einasta hádegi, kemur saman til að fræðast og fjalla um þessi mál, heldur fundi um hverja einustu helgi þar sem koma einstaklingar sem fengnir eru til að flytja erindi, að þessi hópur hefur nú sent alþingismönnum mótmælabréf þar sem þess er óskað að hlutirnir séu settir í samhengi. Þar segir eitthvað á þá leið að ástæða sé fyrir því að verið sé að hleypa stóriðju inn í landið í stórum stíl en hefðbundnar atvinnugreinar eins og sjávarútvegur og landbúnaður séu að hrynja. Sjávarútvegurinn vegna rányrkju og kvótakerfisins og landbúnaðurinn vegna þess að hann er í fjötrum byggðastefnu og annars óskipulags. Austurvallarhópurinn hefur óskað eftir því í þeim bréfum sem alþingismenn hafa fengið að hlúð sé að þessum mikilvægu atvinnugreinum og þeim komið í nútímalegt horf fremur en að stóriðjan sé borin svona á örmum ríkisstjórnarinnar inn í landið.

Austurvallarhópurinn er sammála því sem ég hef hér rakið að stóriðja henti ekki á Íslandi og vitnað er til Guðmundar Páls Ólafssonar náttúrufræðings sem hefur verið manna ötulastur í framvarðarsveit náttúruverndarsinna við að vekja athygli þjóðarinnar á þessu. Þetta fólk segir stóriðju vera hættulega íslenskri náttúru og segir að það sé eitthvað mikið að hjá þjóð sem á annan eins fisk og annað eins lambakjöt en þarf svo að opna dyrnar fyrir stóriðju á þann hátt sem verið er að gera. Austurvallarhópurinn segir Ísland vera að missa á þennan hátt sérstöðu sína. Og, herra forseti, ég tek undir það.

Með þessum brjálæðislegu framkvæmdum eru Íslendingar að missa sérstöðu sína, þjóðin er að brengla ímynd sína, ímyndina sem hefur verið okkur svo mikils virði, ímynd hreinleika, hreinnar, fagurrar og stórbrotinnar náttúru. Ríkisstjórn Íslands er núna að koma í veg fyrir að við getum byggt áfram afkomu okkar á þessari hreinu og tæru ímynd. Við erum að verða stóriðjuland, við erum að verða stórútflytjendur alúminíums, stórútblástursþjóð sem borgar ekki einu sinni losunarkvóta af því að hæstv. umhvrh. samdi þá af sér í Marrakesh og fékk undanþágu frá ábyrgðinni sem aðrar þjóðir veraldarinnar ætla að gangast undir, ætla að standa undir með sóma. Íslendingar ætla ekki að gera það, þeir fara þetta á undanþágum, undanþágu frá losunarheimildum, og undanþágum hvað varðar eitt og annað í þessum alþjóðlegu skuldbindingum. Íslendingar eru með ríkisstjórninni að skjóta sér undan þeirri ábyrgð sem aðrar þjóðir ætla að axla.

Herra forseti. Ég vil í lok máls míns einungis ítreka það að ég tel hér mikil afglöp vera á ferðinni og ég tel ímynd Íslands ekki vera fórnandi fyrir þessa framkvæmd. Ég tel náttúru Íslands vera svo mikils virði að ég get tekið undir með Kára Þorgrímssyni, sem ég vitnaði í hérna áðan, að framkvæmd af þessu tagi er eins og fílshjarta í líkama barns. Ég get ekki stutt þetta mál.