Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 15:27:31 (4088)

2003-02-26 15:27:31# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[15:27]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við tölum ekki sama tungumál, ég og hv. þm., og það er mjög erfitt að ljúka þessari umræðu sem fer fram á milli okkar. Það er augljóst.

En stóri misskilningurinn í þessu er að ríkissjóður sé að leggja fram fjármagn. Ríkissjóður er ekki að því. Það er fjárfestir, erlendur fjárfestir sem byggir verksmiðjuna, og hvað starfið kostar hjá fyrirtækinu skiptir mig engu máli. Það sem ég er að hugsa um er að störfin verði til. Og það er misskilningur að við séum að stofna til einhvers reiknings sem framtíðarkynslóðin þurfi að borga. Það er framtíðarkynslóð Íslands í hag að farið verði út í þessar framkvæmdir. Það verða meiri umsvif í þjóðfélaginu, það verða meiri útflutningstekjur og við þurfum að standast samkeppni við aðrar þjóðir, hv. þm. hlýtur að gera sér grein fyrir því.

Hvað varðar undirbúningskostnað Landsvirkjunar, ég kann ekki að nefna tölur í sambandi við það hve mikið fjármagn hefur farið í undirbúning en ég veit að tekið er tillit til þess í orkuverði og það er aðalatriðið.