Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 15:32:10 (4091)

2003-02-26 15:32:10# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[15:32]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég lýsi ánægju minni með að hv. þm. Hjámar Árnason skuli koma hérna upp og mótmæla svo oft í tveggja mínútna andsvörum. Það rennur þó í honum blóðið meðan hann stendur hér og mótmælir. Mér finnst það bara gott. Auðvitað eigum við að geta tekist á í þessu máli. Við hv. þm. erum hjartanlega ósammála um grundvallaratriði þessa máls eins og kemur fram í andsvari hans.

Hann talar um að ég fari með dylgjur og rangfærslur. Það er auðvitað ekki rétt. Ég mótmæli því. Ég tel mig hafa rökstutt það sem ég lagði fram í máli mínu. Máli mínu til stuðnings benti ég bæði á greinaskrif og ummæli sem rök fyrir máli mínu.

Varðandi mengunina frá fyrirhugaðri álbræðslu, herra forseti, segir hv. þm. að heildarmengunin verði minni. Hann fullyrðir að umhverfissamtök hafi komið að þessu máli. Það er auðvitað rétt að umhverfissamtök, náttúruverndarsamtök og stofnanir á þessu sviði hafa komið að málinu við mat á umhverfisáhrifum. Það hefur fólk auðvitað gert. Það hefur fólk nýtt sér, mótmælt og kært. En hvers vegna fékk iðnn. enga slíka á sinn fund þegar fjallað var um álverksmiðjuna, stærsta þáttinn í þessu máli hvað varðar mengunina? Er það eðlilegt að iðnn. þrengi svo umsagnarsvið umhvn. að umhvn. fái ekki að tjá sig um umhverfisþáttinn almennt heldur eingöngu að svara einfaldri spurningu um hvort farið hafi verið að lögum um mat á umhverfisáhrifum við afgreiðslu málsins? Hvers vegna var umhverfisverndarsamtökum og stofnunum á sviði umhverfis- og náttúruverndar ekki hleypt að þessu máli sem hér er til umræðu, frv. til laga um samning um álverksmiðju í Reyðarfirði? Það var á ábyrgð hv. formanns iðnn. að gera það. Það hefur ekki verið gert.

Varðandi strompana þá sagði ég í ræðu minni að þeir væru ekki leyfðir í nágrannalöndum okkar og nefndi í því sambandi Norðurlöndin. Það er ekki heimilt í Noregi að reisa strompa af þessu tagi til að blása út brennisteini. Þar nota þeir vothreinsibúnað.