Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 18:00:56 (4099)

2003-02-26 18:00:56# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[18:00]

Guðjón Guðmundsson (frh.):

Hæstv. forseti. Áður en ég gerði hlé á máli mínu hafði ég farið lítillega yfir þær ágætu umsagnir sem iðnn. bárust um þetta mál og vitnaði í það sem fram kom hjá gestum á fundum nefndarinnar, ræddi um stærð álmarkaðarins, hlutfall Íslands í álframleiðslunni, tekjuáhrif á sveitarfélögin, áhrif á atvinnulífið o.fl. en Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði er tvímælalaust stærsta tækifærið sem gefist hefur til að efla atvinnulíf á Austurlandi og auka fjölbreytni þess. Eins og fram hefur komið í könnunum er einhæfni atvinnulífsins meginástæða þess að fólk flyst af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins, og árum saman hefur fólki fækkað jafnt og þétt á Austurlandi. Frá 1990 hefur fækkunin verið að jafnaði 1% á ári. Því er spáð að ef af þessum framkvæmdum verður muni íbúafjöldi á Miðausturlandi verða 9.700--9.800 árin 2007--2008 eða allt að 20% meiri en hann er í dag. Bygging álvers í Reyðarfirði er því stórkostleg byggðaaðgerð sem mun snúa við íbúaþróun í þessum landshluta, úr stanslausri fækkun í mikla fjölgun.

Tölur um búferlaflutninga á Miðausturlandi á árunum 1971--2000 sýna að 2.768 fleiri fluttu frá svæðinu en til þess, þ.e. 95 að meðaltali á ári. Þannig hefur svæðið tapað rúmlega 1% íbúanna á ári vegna flutninga 1971--2000. Fjöldi þeirra sem fluttu á brott umfram aðflutta var um 0,6% á fyrsta áratugnum, þ.e. 1971--1980, 1% árlega á árunum 1981--1990 en um 2,2% á hverju ári á síðasta áratug aldarinnar. Á Miðausturlandi var fjöldi þeirra sem fluttu á brott umfram aðflutta 209 íbúar árið 2000 eða 2,6%. Mikill meiri hluti þeirra flutti á suðvesturhornið.

Þessar tölur sýna náttúrlega ótvírætt að brottflutningur fólks af svæðinu hefur aukist mjög á undanförnum árum. Hann hefur aukist jafnt og þétt síðustu 30 ár. Það er enginn vafi á því að bygging álvers í Reyðarfirði mun snúa þessari þróun við. Ég held að það sé einn þáttur þessa máls sem þarf að minna á. Það er auðvitað mikill fengur að fá fyrirtæki á Austurland sem greiðir góð laun. Það er athyglisvert að í fylgiskjölum með þessu frv. kemur fram að aðeins 7,5% skattskyldra einstaklinga á Miðausturlandi höfðu yfir 3,5 millj. í tekjur árið 1999, eða svipuð laun og gerðust þá að meðaltali í stóriðjufyrirtækjunum á Íslandi. 65% skattgreiðenda á Austurlandi höfðu undir 1,5 millj. í tekjur sem sýnir glöggt að þetta er láglaunasvæði. Þarna verður auðvitað gjörbreyting á með tilkomu álvers við Reyðarfjörð. Í því sambandi má minna á skýrslu sem Atvinnuþróunarfélag Vesturlands sendi frá sér fyrir einu eða tveimur árum um tekjur einstaklinga á Vesturlandi en þar kemur fram að stóriðjan greiðir langhæst laun allra atvinnugreina að fiskveiðum undanskildum.

Því er stundum haldið fram að störf við stóriðju séu einhæf og sumir tala niður til þessara starfa eins og þau séu annars flokks. Það er því rétt að rifja upp að gert er ráð fyrir að við álverið verði 400--460 ársverk sem skiptast þannig að 10--20 starfsmenn verða með akademíska háskólamenntun, 20--25 starfsmenn með tæknimenntun á háskólastigi eða sambærilega menntun, 50--60 starfsmenn með tæknimenntun, 300 starfsmenn með iðnnám eða sérstakt fjölbrautaskólanám til að vinna við álframleiðslu og 25--30 störf krefjast engrar sérstakrar þjálfunar. Auk þess verða svo 30--40 störf við afleysingar þannig að þarna er heilmikil fjölbreytni í störfum. Það er rangt sem oft er haldið fram að öll störfin í þessum fyrirtækjum séu einhæf. Svo er hreint ekki.

Það er fróðlegt að skoða spár um áhrif afleiddra starfa á svæðið sem fylgja tilkomu þessarar verksmiðju. Það kemur fram í skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins Nýsis sem er fylgiskjal með frv. að nettófjöldi óbeinna og afleiddra starfa sem myndast á Miðausturlandi með tilkomu þessa álvers sé um 300, eða verði það. Þessi störf munu að mestu myndast í Fjarðabyggð og á Egilsstöðum en að einhverju leyti á Fáskrúðsfirði. Í þessari skýrslu kemur einnig fram að ef ekkert verði af þessum álvers- og virkjanaframkvæmdum megi gera ráð fyrir að íbúunum á Miðausturlandi haldi áfram að fækka, að hlutfall 20--40 ára fólks og barna verði lægra en það er í dag, að ójafnvægi í hlutfalli milli karla og kvenna aukist og að meðaltekjur á svæðinu haldi áfram að dragast aftur úr hækkandi meðaltekjum á höfuðborgarsvæðinu. Það segir m.a. í þessari skýrslu, með leyfi forseta:

,,Fólksfækkun á síðustu árum hefur aðallega átt rætur sínar að rekja til þess að ungt fólk sækir burt til náms og í leit að áhugaverðum og vel launuðum störfum. Bein, óbein og afleidd áhrif fyrirhugaðs álvers munu verða þau að hjálpa ungu menntuðu fólki sem á rætur á Miðausturlandi til að fá störf við hæfi og þar með stuðla að meira jafnvægi í aldurs- og kynjaskiptingu íbúanna og draga úr brottflutningi. Skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir Reyðarál hf. árið 2000 sýndi að 40% 18--28 ára fólks á Miðausturlandi hefur örugglega eða líklega áhuga á að starfa í álverinu og að 17% brottfluttra Austfirðinga 25--49 ára telja líklegt að þeir muni flytja aftur til Austurlands ef álver rís á Reyðarfirði.``

Það segir enn fremur í skýrslu Nýsis, með leyfi forseta:

,,Eftir að álverið er komið í rekstur og byggingarframkvæmdum lokið munu aðstæður breytast mikið. Þeir sem munu starfa við álverið og önnur ný störf munu dreifast á nokkur byggðarlög á Miðausturlandi og búa þar ásamt fjölskyldum sínum. Auknir aðflutningar fólks ásamt auknum tekjum munu stuðla að fjölbreyttara mannlífi og efla hvers kyns félags- og menningarstarfsemi á Austurlandi.``

Mér þótti rétt að vitna í þennan kafla í skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins Nýsis vegna þess að ekki eru allir sammála því að þarna sé um byggðaaðgerð að ræða. Ég hef haldið því fram að þetta sé stærsta byggðaaðgerð sem við höfum staðið frammi fyrir lengi og muni verða til mikilla bóta fyrir þetta svæði.

Herra forseti. Álverið við Reyðarfjörð mun hafa mjög jákvæð áhrif. Það mun stórbæta atvinnuástandið, það mun auka útflutningsverðmæti um yfir 40 milljarða á ári og bæta þjóðarhag. Það er stórkostleg byggðaaðgerð sem mun snúa við neikvæðri byggðaþróun á Austurlandi og öll þekkjum við sem hér erum þau miklu og jákvæðu áhrif sem stóriðjufyrirtækin á Grundartanga hafa haft á umhverfi sitt og þá fyrst og fremst á Akranes, Borgarnes og sveitirnar sunnan Skarðsheiðar þar sem mikill fjöldi fólks vinnur við þessi fyrirtæki og þjónustu við þau. Það er enginn vafi á því að Fjarðaál mun hafa svipuð áhrif á samfélagið fyrir austan. Það er því fagnaðarefni að nú hillir undir að álver við Reyðarfjörð verði að veruleika.