Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 20:00:24 (4106)

2003-02-26 20:00:24# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[20:00]

Ögmundur Jónasson (frh.):

Herra forseti. Það er einkar ánægjulegt að hæstv. fjmrh. skuli vera við umræðuna því að nú vík ég sérstaklega að efnahagsumræðunni, efnahagslegum áhrifum þessara framkvæmda, en á fund efh.- og viðskn. þingsins komu fulltrúar Seðlabanka, fjmrn., greiningardeilda fjármálafyrirtækja, háskólakennarar og ýmsir sérfræðingar sem hafa sent frá sér ýmis gögn um efnahagslegar afleiðingar og hliðarverkanir fyrirhugaðra álframkvæmda. Á fundi efh.- og viðskn. lýsti fulltrúi Seðlabankans því yfir að verkefnið væri viðráðanlegt að þeirra mati en þegar eftir var leitað komu engu að síður í ljós mjög miklir fyrirvarar, í fyrsta lagi að framkvæmdin væri af slíkri stærðargráðu að efnahagssérfræðingar væru komnir ,,út fyrir sinn reynsluheim``. Í þessari framkvæmd byggðu efnahagssérfræðingar þess vegna að verulegu leyti á ágiskunum.

Í öðru lagi kom í ljós að bankinn hefði ekki tekið afstöðu til þeirra miklu deilna sem risið hafa í þjóðfélaginu um arðsemi framkvæmdanna. Hvort heppilegt væri að ráðast í þessar framkvæmdir með tilliti til annarra valkosta í þróun atvinnulífsins væri einfaldlega nokkuð sem bankinn hefði hvorki skoðað né tekið afstöðu til. Þetta er náttúrlega lykilatriði. Efnahagssérfræðingar ríkisstjórnarinnar eru einvörðungu að fjalla um málið með tilliti til umfangs verkefnanna, ekki hvort þau eru æskileg eða arðsöm. Gott ef einhver orðaði það ekki svo að við gætum allt eins verið að fjalla um að reisa pýramída á miðhálendinu, þeir tækju ekki afstöðu til þess hvort framkvæmdin væri arðsöm eða ekki, heldur einvörðungu um innspýtingu á fjármagni og hvaða áhrif þetta mundi hafa á efnahagsstarfsemina út frá umfanginu, nánast.

Í þriðja lagi kom fram að hvorki Seðlabankinn né fjmrn. treystu sér til að meta hvaða langtímaáhrif breytt samsetning efnahagslífsins, þar sem þungaiðnaður í erlendri eign vegur sífellt meira í efnahagsstarfseminni, hefði á efnahagslífið í heild og þá sérstaklega á tekjustreymi til ríkis og sveitarfélaga. Þá hafa rannsóknir sýnt að áliðnaður er líklegur til að ýta undir sveiflur í efnahagslífinu. Ég ætla að víkja að þessu seinna en þetta þriðja atriði skiptir náttúrlega mjög miklu máli. Þegar metið hefur verið hvaða afleiðingar þetta hafi á ríkisbudduna og fjárhag viðkomandi sveitarfélaga hefur engin tilraun verið gerð til þess að kanna hvernig breytt samsetning efnahagslífsins hafi áhrif á skatttekjur ríkissjóðs, þar sem áliðja og áliðnaður, þungaiðnaður, er orðið að kjölfestu. Það hefur engin tilraun verið gerð til að skoða þetta.

Í fjórða lagi kom fram, bæði hjá fulltrúum Seðlabanka og fjmrn., að á þeirra vegum hefði ekkert mat verið lagt á vinnsluvirði framkvæmdanna. Engir útreikningar hefðu farið fram á því hver ætla mætti að yrði ávinningurinn fyrir íslenskt efnahagslíf, hve mikið af væntanlegum arði af rekstri stóriðjunnar sæti eftir í landinu eftir að vaxtakostnaður og arður hefði verið færður úr landi.

Engin tilraun hefur verið gerð til að skoða þetta. Hlýtur ekki að vera lykilatriði í málinu hverju þetta skilar inn í efnahagskerfi okkar?

Menn hafa verið að bera þetta saman við sjávarútveg sem vegur þungt hér í efnahagsstarfseminni. Við flytjum út sjávarafurðir fyrir rúmlega 120 milljarða kr., ef ég man rétt, og samkvæmt áætlunum ríkisstjórnarinnar, a.m.k. Framsfl. sem hefur boðað hér nýja framtíðarsýn í atvinnumálum Íslendinga, á þungaiðnaður að vega mjög þungt, á að verða hornsteinn velferðarkerfisins, segir hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. Það hefur engin tilraun verið gerð til þess að kanna hverju þetta skilar inn í efnahagskerfið. Þegar allt kemur til alls hefur sjávarútvegurinn skilað arðinum upp úr sjónum inn í hinn íslenska þjóðarlíkama. Það hefur að sönnu verið að færast í vöxt í seinni tíð að fjármunir úr sjávarútvegi eru fluttir í stórum stíl úr landi. Það er rétt. En í þessu tilviki er eignarhaldið á atvinnustarfseminni í erlendum höndum og fyrirtækið mun að sjálfsögðu taka arðinn og flytja hann úr landi.

Við getum þá haft af þessu hagnað með ýmsum hætti. Í fyrsta lagi og fyrst og fremst ætti það að vera fyrir sölu á okkar afurð, sem er raforkan, og það eru mikil áhöld um það hvort við rísum þar undir tilkostnaðinum, eins og ég gat um áðan, eða hvort það verði bókhaldslegt tap á framkvæmdinni. Það er ekki fyrirséð og það veit enginn vegna þess að það eru svo margir og stórir óvissuþættir í málinu. Það veit enginn hver stofnkostnaðurinn verður. Þetta er bara puttinn upp í loftið og samkvæmt öllum könnunum og samanburðarskýrslum sem unnar eru á vegum Alþjóðabankans og sérfræðinga vanáætla menn óvissuþáttinn stórlega. Með öðrum orðum, það veit enginn hvað við fáum fyrir raforkuna, hvort það verður einhver hagnaður eða hvort það verði hugsanlega stórfellt tap á henni. Og þá er spurningin um hitt: Hvernig náum við í tekjur af álframkvæmdinni? Það efast ekki nokkur maður um að Alcoa muni græða á þessu. Stórfyrirtæki sem lendir í því happi að semja við Framsfl. um álverksmiðju mun náttúrlega græða á tá og fingri vegna þess að raforkan verður seld á útsöluprís. Það er ekki þorandi að segja þjóðinni frá því hvert verðið er, það yrði sennilega uppreisn í landinu af hálfu þeirra sem þurfa að borga raforkuna hérna til húshitunar eða annarra fyrirtækja. Þetta vitum við sem sagt ekki.

Við vitum ekki um raforkuþáttinn en, eins og ég var kominn að, hvað með tekjurnar? Jú, við ætlum að skattleggja tekjurnar af starfseminni hér innan lands, 18% tekjuskatt, ekki hærra, jafnvel þó að hann verði hækkaður á önnur fyrirtæki, ekki á Alcoa. Það eru sérsamningar við Alcoa, ívilnandi samningar að þessu leyti og öðru leyti einnig. Þessi fyrirtæki eru ekkert sérstaklega vön því að greiða tekjuskatt, þau haga sínum málum þannig, stilla upp mörgum dótturfyrirtækjum, lána hvert öðru og greiða síðan vexti af lánum, þeir eru færðir til rekstrar og koma ekki til skattlagningar. Það sem fer út úr landinu engu að síður sem hagnaður verður skattlagt 5%. Þegar það kemur til Bandaríkjanna, til móðurlandsins, þegar komið er út úr frumframleiðslulandinu --- ég ætla ekki að segja nýlendunni --- þar sem hagnaðurinn er skattlagður 5% er skattlagningin 35%. Þar verður skattlagt, þar rennur þetta inn í samfélagið.

Síðan eru náttúrlega umsvif í kringum þessa starfsemi, það eru margir sem vinna við álverið, eitthvað innan við 400 manns. Síðan eru menn að tala um afleidd störf, 750, gefum okkur að það verði 1.000 störf, sem er ekki einu sinni meðaltalsaukning á störfum á Íslandi síðustu 10, 20, 30 árin, frá 1970. Það nær ekki einu sinni meðaltalsaukningu á störfum á ári á síðustu þremur áratugum. Stundum hefur aukningin verið talsvert meiri. Á samdráttarskeiðum hefur hún verið minni og stundum samdráttur eins og samdráttarskeið segir til um, eins og á árunum 1991 og 1992, þá fækkaði heldur störfum. Að meðaltali hefur þó störfum hér fjölgað um 1.500 á ári. Við erum að tala um langt undir meðaltali sem menn ætla að kosta 250--300 milljörðum til. Þetta er staðreynd málsins. Nema af þessum mannskap, af þessum starfsmönnum innan álverksmiðjunnar og afleiddum störfum, mun að sjálfsögðu koma tekjuskattur í opinbera sjóði eins og af öðrum störfum hér í landinu.

Þetta er sem sagt ávinningurinn sem hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. segir að muni gefa svigrúm fyrir opinbera sjóði upp á 25 milljarða á kjörtímabilinu, og það sé svigrúm til að ráðast í skattalækkanir og aukin útgjöld upp á 15 milljarða á ári vegna þessara framkvæmda. En það eru engin rök færð fram fyrir þessum staðhæfingum. Síðan talar sami maður, formaður Framsfl., um óábyrga vinstri menn, maður sem setur bara puttann upp í loftið og staðhæfir út í loftið eitthvað sem engin innstæða er fyrir, án nokkurs rökstuðnings. Væri ekki ástæða til þess að fulltrúar Framsfl. kæmu hingað og stæðu fyrir sinni pólitísku stefnu? Það er ábyrgðarhluti að boða það að með þrýstingi ríkisins verði þjóðinni þröngvað inn í stóriðjufarveg í atvinnumálum. Það er ábyrgðarhluti að beita löggjafarvaldinu til þess, hverfa síðan af hólmi og skýra ekki mál sitt. Mér finnst þetta vera í hæsta máta mjög óeðlilegt. En það væri fróðlegt að heyra hvernig hæstv. fjmrh. leggur mat á þessa breyttu samsetningu efnahagslífsins. Hvernig metur hæstv. fjmrh. hvaða afleiðingar þetta muni hafa fyrir ríkissjóð og sveitarsjóði í framtíðinni þegar búið er að gera stóriðju í erlendri eign að meira en þriðjungi af efnahagsstarfseminni í landinu? Að því er stefnt innan fárra ára.

Nú er ég búinn að gera grein fyrir því hvernig skattlagningu er háttað, eða öllu heldur hvernig henni er ekki háttað. Tekjurnar af þessum atvinnurekstri skila sér inn í almannasjóði í miklu minna mæli en gerist í atvinnurekstri, þar á meðal sjávarútvegi sem er á íslenskri eignarhendi.

Enginn af þessum grundvallarþáttum hefur verið gaumgæfður af hálfu efnahagssérfræðinga ríkisstjórnarinnar og enginn samanburður hefur verið gerður á skattlagningu stóriðjufyrirtækja í Evrópu og Bandaríkjunum þrátt fyrir að eftir því hafi verið leitað. Ég óskaði eftir því aftur og ítrekað að við fengjum yfirlit yfir skattlagningu, hvernig henni væri háttað í þeim ríkjum sem hýstu þetta ágæta fyrirtæki, Alcoa. Reyndar finnst mér það ekkert sérstaklega ágætt, ég nota það orð ekki um fyrirtæki sem níðist á verkafólki. Alcoa hefur orðið uppvíst að því víða, ekki síst í fátækjum ríkjum þar sem verkafólk getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér, að meina því að bindast samtökum í verkalýðsfélögum og haldið þessu fólki niðri á afarkjörum. Þetta er staðreynd. Og síðan er hinn viðskiptaaðilinn, Impregilo, ítalska fyrirtækið sem hér hefur verið tekið opnum örmum, þekkt að endemum fyrir svindl og svínarí. Ég nota hiklaust þau orð.

[20:15]

Ég ætla að nefna dæmi úr breskri skýrslu sem unnin var á vegum breska þingsins. Impregilo fór á bak við viðskiptabann á Suður-Afríku þegar það tók þátt í framkvæmdum í Lesótó. Það komu upp ásakanir um mútur og svindl. Þau mál eru enn þá í rannsókn en hitt er ekki vefengt að fyrirtækið fór á bak við alþjóðlegt viðskiptabann á Suður-Afríku og setti upp í London það sem kallað er þvottastöð, til að þvo peninga, ,,money laundry`` sagði í bresku skýrslunni. Í skýrslunni sagði enn fremur að þetta væri á mörkum hins siðlega og lagalega. Þetta var Lesótó. Fulltrúi fyrirtækisins kom fram í íslenskum fjölmiðlum og sagði ekkert hafa verið sannað á þá í Lesótó. Málið er ekki til lykta leitt. Hitt er sannað að þeir fóru á bak við alþjóðlegt viðskiptabann sem heimurinn setti á Suður-Afríku til að knýja stjórnina þar til að aflétta kynþáttastefnunni.

Síðan var það Suður-Ameríka, Argentína og Brasilía. Fyrrverandi forseti Argentínu sagði að þar í landi hefði Impregilo reist minnismerki um spillingu. Í Brasilíu, sagði breska rannsóknarskýrslan, skýrsla unnin á vegum breska þingsins, hafði Impregilo átt aðild að einhverju mesta hneykslismáli í sögu kapítalismans. Þá er nú ekki lítið sagt. Þá var talað um framkvæmd sem upphaflega átti að kosta á milli 3 og 4 milljarða dollara og var komin upp í 20 milljarða þegar málið var á enda rekið. Höfðu þar komið að ýmsir kónar í Brasilíu, Paragvæ og víðar.

Þetta eru staðreyndir. Ég hef áður bent á að það sé fróðlegt að slá upp á netinu Impregilo scandals, Impregilo hneyksli, þá fyllist skjárinn. Ef menn bæta Berlusconi við, þá flóir allt yfir. Því miður kann ég ekki ítölsku en þar er mikið af upphrópunarmerkjum. (SJS: Fjmrh. kann hana.) Fjmrh. kann ítölsku. Það væri fróðlegt að vita hvort hann hafi kynnt sér þetta fyrirtæki sem við bjóðum heim opnum örmum. Við erum að bjóða þeim heim opnum örmum. Hafa menn hugleitt aðdragandann að þessum samningum? Hafa menn hugleitt það? Verkið er boðið út á heimsvísu. Það koma mörg fyrirtæki að útboðum, mörg fyrirtæki stór og smá sem eru vönd að virðingu sinni. Einhverra hluta vegna hverfa þau frá. Þau falla frá tilboðum sínum en til sögunnar kemur ítalska fyrirtækið Impregilo og viti menn: Hvað skyldi gerast? Það er reyndar tvennt eða þrennt.

Í fyrsta lagi er því ítrekað frestað að opna útboðin að kröfu Impregilo. Síðan, áður en tilboðin eru opnuð, greinir Landsvirkjun frá kostnaðaráætlun sinni. Hvað gerir Impregilo þá? Það kemur með tilboð sem er lægra en kostnaðaráætlun Landsvirkjunar. Þá gengur dæmið upp. Kosningaloforð Framsfl. á Austurlandi ganga upp vegna þess að kostnaðar\-áætlunin stenst. Það verður bullandi arður af framkvæmdinni. Þetta mun allt ganga ljómandi vel og Landsvirkjun lækkar áætlun sína. Það verður enn þá meiri gróði. En þá fara menn að koma með efasemdir. Þeir fara að rýna í erlendar samanburðarskýrslur og skoða gögn á vegum Alþjóðabankans.

Ég gat um skýrslu sem hagfræðingurinn Þorsteinn Sigurlaugsson lagði fyrir í efh.- og viðskn. sem sýnir að á svona framkvæmdum erum við að meðaltali að tala um 30--50% hækkun eftir atvikum, eftir því hvað um er að ræða, göng eða stíflugerð. Hér er ekkert slíkt á ferð heldur eru valdar út nokkrar framkvæmdir, litlar framkvæmdir á vegum Landsvirkjunar og sýnt fram á, með slíkum útreikningum, að áhættan sé sáralítil. Þegar gögnin eru send til Sumitomo, japanska bankans sem allt á að blessa í bak og fyrir, segir að þetta séu allar framkvæmdir Landsvirkjunar, ,,the previous`` framkvæmdir á vegum Landsvirkjunar. Á þessu byggir síðan japanski reiknimeistarinn.

Síðan koma þær hver af annarri, Orkustofnun og hinar og þessar stofnanir og segja: Þetta er óskaplega fagmannlega gert. Þeir kunna að reikna, þeir kunna margföldunartöfluna. Þeir kunna að slá þessu öllu upp og saman. En sjálfar forsendurnar sem allt verkið byggir á eru aldrei vefengdar. Það eru þær sem skipta máli, forsendurnar. Hver verður stofnkostnaðurinn? Verður hann 100 milljarðar? Verður hann 130 milljarðar, 140 milljarðar? Það veit enginn. En það er ekki tekið mið af alþjóðlegum reiknilíkönum hvað þetta snertir. Ef stofnkostnaðurinn er kominn í þessar hæðir, fer upp í 130 milljarða, er bókhaldslegt tap á framkvæmdinni. Við skulum ekki gleyma því að við erum að tala um fórn á náttúrunni sem menn segja þess virði að færa vegna þess að efnahagslegur ávinningur sé svo mikill. En þegar allt kemur til alls er hætta á því að það verði tap á framkvæmdinni. Jafnvel þótt það yrði ekki tap þá benda hagfræðingar á að arðsemi annarra framkvæmda og annarrar stefnu í atvinnumálum yrði miklu meiri. Þetta er ekki einu sinni vefengt.

Hér hef ég tekið nokkur dæmi um hvernig standa ætti að málum til að meta þessa arðsemi. Hvað hef ég lagt til grundvallar þar? Stefnu hæstv. fjmrh., Geirs H. Haardes, sem allt ætlar að markaðsvæða og einkavæða. Ef hann væri búinn að einkavæða raforkuframleiðsluna í landinu, sem er markmiðið, þá gengi þetta ekki eftir. Lesið bara greinargerð með raforkufrv. Þar er sagt að markaðsvæðing sé markmiðið með lagabreytingunum. Ef það væri búið, þá væri horfinn sá stuðningur sem Landsvirkjun býr við í sköttum, í ókeypis landi, í margs kyns ívilnunum, hann væri horfinn. Og hvað þá? Ef Landsvirkjun borgaði skatta eins og önnur fyrirtæki og sæti við sama borð og aðrir atvinnurekendur í þessu landi mundu þeir aldrei ráðast í þessa framkvæmd. Þeir segja það sjálfir. Þeir segja í rauninni að þeir séu að gera þetta að pólitísku valdboði. Það er þess vegna sem við erum að tala um miðstýrða þungaiðnaðarstefnu, risastórt skref aftur í tímann. Við erum komin aftur til 1930. Við þurfum að vísu að færa okkur svolítið um set í landafræðinni, austur á bóginn þar sem menn leystu atvinnumálin í heilum byggðarlögum með því að setja alla íbúana í tilteknar verksmiðjur. Ég veit ekki hvort það var ál eða stál eða traktoraverksmiðjur. Auðvitað þarf að framleiða þetta allt saman en er það þetta sem við viljum? Er það þetta sem við viljum á atvinnusvæði sem telur innan við 10 þúsund manns eða viljum við stefna í aðra átt með atvinnulíf okkar? Ég hefði haldið það.

Ég er svolítið spenntur að heyra eitt. Ég er mjög spenntur að heyra hæstv. fjmrh. skýra fyrir okkur á pólitíska vísu hvernig hann fer að því að spjalla við flokksfélaga sína, sérstaklega yngri kantinn. Hvernig rímar þungaiðnaðarstefna hæstv. utanrrh. Halldórs Ásgrímssonar og formanns Framsfl. við sjónarmið ungs fólks sem vill treysta sköpunarkraftinn í efnahagslífinu? Hvernig fer hæstv. fjmrh. að því að réttlæta inngrip ríkisvaldsins í atvinnustarfsemina með þessum hætti? Það verður fróðlegt að heyra þau rök sem notuð eru.

Ég er búinn að vera að hlusta á rök formanns Framsfl. sem ég á reyndar afskaplega erfitt með að fá til að ganga upp. Hann er sagður mjög talnaglöggur maður en í þeirri tölfræði stendur ekki steinn yfir steini. Þar eru staðhæfingar sem hreinlega ekki standast. Síðan kemur hann og talar um óábyrga stefnu vinstri manna. Þetta er eins óábyrgt og hugsast getur, að slá fram þeim fullyrðingum sem hann gerði á þingi Framsfl. fyrir fáeinum dögum, fullyrðingum sem eiga sér ekki nokkra einustu stoð í raunveruleikanum. Þetta er bara staðreynd. Hann talar um stórkostlegan ávinning, 15 milljarða á ári. Hvar ætlar hann að fá það? Við erum að tala um raforkusölu upp á 5 milljarða væntanlega. Við erum að tala um vaxtagjöld og greiðslur upp á annað eins, 4--5 milljarða. Hvar er þessi hagnaður? Er hann í sköttunum? Er hann í þessum 5% af hagnaði sem sett eru úr landi? Er hagnaðurinn af tekjuskatti fólksins? Hvar liggur þetta? Þarf ekki að skýra það? Þarf ekki að segja okkur frá því? Hvernig skýrir hæstv. fjmrh. þetta?

Efnahagssérfræðingar ríkisstjórnarinnar hafa bent á að verði ekki gripið til neinna hliðarráðstafana megi ætla að hagkerfið ofhitni með óðaverðbólgu og óstöðugleika í kjölfarið. Til að koma í veg fyrir þetta hefur einkum verið bent á þrennt: Tímabundinn niðurskurð opinberra framkvæmda, vaxtahækkun og opnun landsins fyrir erlendu vinnuafli. Þetta er þrennt. Vaxtahækkun, niðurskurður á opinberum framkvæmdum og opnun landsins tímabundið fyrir erlendu vinnuafli. Ég er því fylgjandi að Íslendingar bjóði erlent fólk velkomið en ég vil geta tekið sómasamlega á móti því. Ef við erum að laða fólk til okkar þá eigum við að gera það til frambúðar en ekki tímabundið og henda því síðan á brott eins og hætt er við að muni gerast hér. Það er talað um að opna landið tímabundið. Ég hef miklar efasemdir um að þetta sé skynsamlegt. Á vinnumarkaði innan verkalýðshreyfingar eru vaxandi áhyggjur yfir þessu. Í ályktunum sem hafa komið frá íslenskum stéttarfélögum er fjallað um slíkt og í ályktun Félags járniðnaðarmanna frá 14. janúar 2003 segir m.a. eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Verktakar hafa ítrekað flutt inn erlent vinnuafl á fölskum forsendum og verið staðnir að svikum við launagreiðslur.`` Hvatt er til þess að Landsvirkjun og stjórnvöld tryggi fulla atvinnuþátttöku Íslendinga í virkjana- og álversframkvæmdum ásamt því að ganga ríkt eftir því að erlendir launþegar njóti sömu kjara.

Íslensk stjórnvöld líta hins vegar á innflutning erlends vinnuafls í öðru ljósi. Í greinargerð fjmrn. frá 8. janúar sl. er einvörðungu spurt um hugsanlega aðkomu erlendra verkamanna með tilliti til hagstærða. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

[20:30]

,,Sé gert ráð fyrir að helmingur þess vinnuafls sem starfar tímabundið við framkvæmdirnar verði erlent í stað fjórðungs samkvæmt þessum útreikningum myndi það leiða að jafnaði til rúmlega 0,25% lægri verðbólgu en ella á tímabilinu 2003--2006.``

Menn eru að leika sér að þessum stærðum eða kannski á ekki að orða það þannig. Menn eru að tefla fram þessum stærðum með tilliti til áhrifa á efnahagslífið, ekki með tilliti til hins mannlega þáttar og hvernig á að fara með þetta fólk og hvaða áhrif þetta hefur á innlendan vinnumarkað heldur einvörðungu með tilliti til verðbólgu, til þenslu í þjóðfélaginu.

Varðandi niðurskurðinn segir í greinargerð fjmrn. frá 8. janúar sl. um álver Alcoa og stækkun Norðuráls m.a., með leyfi forseta:

,,... mun 2% hækkun raunvaxta draga úr verðbólgu sem nemur 0,75% að jafnaði tímabilið 2003--2006. Sé dregið úr fjárfestingu hins opinbera í sama mæli, þ.e. um 10%, verður verðbólgan 1,25% lægri að jafnaði á sama tímabili. Samkvæmt þessum útreikningum myndu aðgerðirnar ekki duga einar og sér til að halda verðbólgu innan þolmarka.``

Á fundi efh.- og viðskn. 10. febrúar sl. sögðu fulltrúar Seðlabanka Íslands að til álita kæmi að draga tímabundið úr opinberum fjárfestingum um 20%. Ekki vildu þeir tilgreina hvar niðurskurðarhnífnum skyldi beitt, enda væri það ekki á verksviði bankans. Fulltrúi ASÍ var heldur ekki reiðubúinn til þess þótt hann tæki undir nauðsyn þess að draga úr opinberum framkvæmdum. En hvað eru menn að tala hér um? Að draga tímabundið úr opinberum framkvæmdum og fjárfestingum um 20%. Hvað eru menn að tala um? Hvers konar ábyrgðarleysi er að slengja fram slíkum fullyrðingum og svona kröfum án þess að gera grein fyrir því hvar eigi að láta hnífinn koma niður? Erum við að tala um vegaframkvæmdir? Erum við að tala um sjúkrahús, skóla? Hvað er verið að tala um? Hvar á að skera niður 20%? Þarf ekki að gera grein fyrir því? Mér finnst ekki nógu gott, herra forseti, þegar aðilar sem hafa stutt þessar framkvæmdir, aðilar á vinnumarkaði sem hafa stutt þessar framkvæmdir --- og ég vísa þar til samtaka atvinnurekenda og einnig til samtaka launafólks, þeirra samtaka sem hafa tekið afdráttarlausa afstöðu með þessum framkvæmdum og fylgst með umræðunni um nauðsynlegar mótaðgerðir og tekið því án mótmæla --- rísa núna upp og segja jafnan þegar á að fara að beita þessum stýritækjum: Heyrðu, ekki ég, ég er ekki ábyrgur.

Þeir sem styðja þessar framkvæmdir hljóta að axla ábyrgð í samræmi við þann stuðning vegna þess að við erum að andæfa þessu fyrst og fremst af þeim sökum að verið er að vinna óafturkræf spjöll á náttúru landsins, við erum einnig að mótmæla þessu vegna einmitt þessara efnahagslegu afleiðinga til skamms tíma og að sjálfsögðu til langs tíma þegar stóriðju- og þungavinnsluáform Framsfl. eru orðin að veruleika eða yrðu að veruleika ef sá flokkur sæti áfram við stjórn sem allt bendir til að gæti orðið einhver breyting á því að kjósendur hljóta náttúrlega að velta því fyrir sér hverja þeir ætla að kjósa yfir sig á næsta kjörtímabili. Ætla menn að styðja til valda aðila sem boða þungaiðnað sem hornstein íslenska efnahagskerfisins? Vilja menn þetta? Það er þetta sem Framsfl. er að segja. Hann vill stefna að því að meira en þriðjungurinn af efnahagsstarfseminni á Íslandi, meira en þriðjungur, hugsanlega mun meira verði þungaiðnaður, verði stóriðja. Látum það vera, kynni einhver að segja, ef það yrði arður af þessu, ef ekki væri bara verið að þjóna erlendum auðhringum. En þegar það kemur í ofanálag að mjög umdeilanlegt er hvort það gæti orðið verulegt tap á þessu, um hitt ber mörgum hagfræðingum saman að arðseminni sé ekki fyrir að fara. Mörgum hagfræðingum segi ég, þá er ég að vísa til þeirra hagfræðinga sem eru ekki undir hælnum á ríkisstjórninni því að það er undarlegur hlutur að jafnvel mætustu menn virðast tapa algerlega sjálfstæðri dómgreind þegar þeir eru komnir í nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar, þá er hún bara fokin, dómgreindin. Og það er svolítið merkileg lesning að lesa ýmsar greinar og álitsgerðir t.d. hagfræðinga og kennara við Háskóla Íslands. Þegar þeir eru síðan komnir í nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar, þá er allt annað hljóð komið í strokkinn. Við höfum kynnst þessu áður. Við höfum kynnst þessu í sambandi við rannsóknaskýrslur sem hér voru gerðar á sínum tíma um rafmagnseftirlitið í landinu. Ég ætla ekki að fara nánar út í þá sálma. En það er ástæða til að fara að spjalla aðeins um rafmagnseftirlitsmálin að nýju innan tíðar og er ég þá ekki að horfa til þess sem er að gerast hjá Löggildingarstofunni nú um stundir og er af öðrum toga.

Vaxtahækkanir. Ítrekað hefur verið fullyrt af hálfu fulltrúa Seðlabanka Íslands að raunvextir þurfi að verða a.m.k. 2 prósentustigum hærri en ella vegna fyrirhugaðra stóriðjuframkvæmda. Enginn vafi leikur á að þetta mun hafa veruleg áhrif í efnahagslífinu, þrengja kost fyrirtækja í vexti og hag heimilanna.

Þegar arðsemin er metin hefur, eins og ég hef áður bent á, verið rætt um það hvort hugsganlega verði bókhagslegt tap á verkefninu og hins vegar hvort bókhaldslegur ávinningur ef á annað borð verður um hann að ræða væri virði þeirrar áhættu sem þjóðin tekst á hendur. Í þessu sambandi hefur einnig verið rætt um svokölluð ruðningsáhrif í efnahagslífinu. Hagfræðingar hafa varað við því að fyrirtækjum sem standa veikt að vígi eins og við á um mörg sprotafyrirtæki verði hreinlega rutt úr vegi og hafa þeir bent á að skattstyrkir til Landsvirkjunar og opinber ábyrgð á lánum geri það að verkum að líklegt megi heita að þau fyrirtæki sem rutt verður úr vegi séu í raun arðsamari en virkjun og álver. Í því sambandi vísa ég aftur í álitsgerð Samfylkingarinnar, sem eins og kunnugt er styður þessar framkvæmdir og þessa stóriðjustefnu, en í álitsgerðinni er þveröfugu haldið fram og talið að óarðbærum fyrirtækjum sérstaklega verði rutt úr vegi. Hættan er einmitt á hinu gagnstæða, að sprotafyrirtækjum sem standa að sönnu veikt en eiga hugsanlega góða lífdaga fyrir höndum ef þau fá að þroskast og dafna verði rutt úr vegi vegna niðurgreiðslu ríkisins á framkvæmdum Alcoa, þessum stuðningi við litla fyrirtækið Alcoa sem er hingað komið í boði Framsfl. sem kunnugt er og á að njóta sérstakrar ívilnunar og styrkja af hálfu íslensku þjóðarinnar. Þetta er ömurlegt.

Jákvæð þjóðhagsleg áhrif af álveri Alcoa og virkjun vegna þess er á annan veg en stjórnvöld vilja vera láta. Samkvæmt athugun Þjóðhagsstofnunar, sem miðaðist við rekstur Reyðaráls, hefði þjóðarframleiðsla aukist um aðeins 0,7% vegna reksturs álvers. Samkvæmt lauslegri athugun Þorsteins Siglaugssonar hagfræðings mundu áhrifin af álveri Alcoa líklega ekki nema meiru en 2,3 milljörðum kr., eða um 0,6% af þjóðartekjum árið 2001. Þetta samsvarar árshagnaði tveggja stórra fyrirtækja í góðu árferði. Lítið má út af bera til að þessi jákvæðu áhrif hverfi og verði jafnvel neikvæð eins og ég hef rakið. Sem dæmi má nefna að fari stofnkostnaður virkjunar 30% fram úr áætlun, sem athuganir benda til að gæti orðið, helmingast þessi áhrif og hreint núvirði fjárfestingar í Kárahnjúkavirkjun yrði mínus 27,2 milljarðar kr. Þá erum við að vísa í meðaltal þess sem gerist í framkvæmdum af þessu tagi í heiminum og við erum meira að segja í lægri kantinum. Áhrif virkjunar á ferðaþjónustu geta vel orðið neikvæð og hugsanlega mjög neikvæð. Þriggja milljarða samdráttur í vinnsluvirði frá ferðaþjónustunni mundi gera þjóðhagsleg áhrif virkjunar og álvers neikvæð um 700 millj. árlega. Bara enn eitt dæmið. Neikvæð um 700 millj. árlega.

Væntingar þær sem stjórnvöld hafa markvisst byggt upp og viðhaldið um verulega innspýtingu í efnahagslífið vegna væntanlegra framkvæmda hafa haldið uppi vaxtastigi og gengi sem efnahagslegur veruleiki er álitamál hvort innstæða er fyrir. Nú er það svo með gengið að á því eru náttúrlega tvær hliðar. Þegar krónan styrkist, þá eykst kaupmáttur okkar gagnvart innfluttri vöru. Hún verður okkur ódýrari hér innan lands og þegar við förum til útlanda í ferðalag höfum við meira handa á milli en þetta er afskaplega viðkvæm jafnvægislist vegna þess að hinum megin á krónunni er útflutningur okkar og útflutningsatvinnuvegirnir. Þarna þarf að ríkja jafnvægi. Og sjávarútvegurinn er þegar farinn að kvarta, ferðaiðnaðurinn er farinn að kvarta og innlend samkeppnisvara eða framleiðendur öllu heldur á iðnaðarvöru sem framleidd er innan lands eru farnir að kvarta þannig að það eru tvær hliðar á þessu. Þarna þarf að vera jafnvægi á milli.

Væntingar þær sem stjórnvöld hafa markvisst byggt upp og viðhaldið --- og ég er búinn að víkja að þessu með gengið. Ruðningsáhrifin hins vegar er mjög erfitt að meta og hver áhrifin þar verða. Hvers vegna er verið að hækka vexti, hvers vegna munu þeir hækka? Annars vegar er spurning um framboð og eftirspurn á peningum sem mun valda því að aukin eftirspurn eftir þeim mun knýja verðið upp, knýja vextina upp og hins vegar eru vextirnir stýritæki í efnahagslífinu. Það verður ákveðið að hækka vextina. Hvers vegna? Til þess að koma í veg fyrir að ég og þú og fyrirtækin í landinu taki lán --- til hvers? Jú, væntanlega til að kaupa íbúðir ef við erum einstaklingar og fjölskyldur eða í tilviki fyrirtækjanna að fjármagna reksturinn, brúa bil og til að ráðast í nýjar fjárfestingar, færa út kvíarnar. Það er beinlínis hugsað sem tæki til að koma í veg fyrir að fyrirtækin færi út kvíarnar. Hvað gerist þegar fyrirtæki færa út kvíarnar? Þá skapast störf, ekki satt? Með öðrum orðum er verið að beita tækjum við efnahagsstjórnina til að koma í veg fyrir að störf skapist í öðrum geirum atvinnulífsins. Til þess er þetta hugsað. Og þegar við bætum síðan við samdrætti í opinberri fjárfestingu um 20% eins og Seðlabankinn segir, þá liggur það í augum uppi, það segir sig sjálft að þetta mun leiða til samdráttar á vinnumarkaði og draga úr atvinnutækifærum þar. Þetta er samhengi hlutanna. Mér finnst að menn þurfi að horfast í augu við þetta þegar menn slá því síðan fram að við megum ekki vera á móti þessum framkvæmdum vegna þess að þörf sé á því að skapa störf í landinu.

[20:45]

Ég er búinn að tala um það áður að störfin sem skapast hér eru innan við þann fjölda starfa sem að meðaltali hefur orðið til á hverju einasta ári frá 1970 fram á þennan dag. Það er undir meðaltalsaukningu á störfum í landinu á þessu tímabili. Á næstu tíu árum þurfa að skapast hér 15.000 störf. Og við erum að velta því fyrir okkur hvernig við eigum að fara að því, hvernig við eigum að undirbúa efnahagslífið undir þessa nýsköpun. Þetta er tillaga ríkisstjórnarinnar, að hleypa 250 milljörðum í fjárfestingar í efnahagslífinu til þess að skapa innan við 1.000 störf, og afleiðingarnar eru þessar þrengingar fyrir annan atvinnurekstur í landinu. Finnst mönnum þetta vera skynsamlegt?

Og allt er þetta bara út af einu, kosningaloforðum Framsfl. Um það snýst þetta mál og ekkert annað. Munið þið eftir því þegar við vorum að tala um Norsk Hydro á sínum tíma? Var það ekki alveg stórkostlegt happatækifæri sem þar bauðst? Síðan gerist það einhverra hluta vegna að Norsk Hydro hverfur af hólmi. Þá þótti Framsfl. mjög gott að losna við Norsk Hydro, þar var aldeilis ekki nógu gott verkefni á ferðinni, það var aldeilis afleitur samningsaðili. Mikið var gott að losna við Norsk Hydro. Þá var nú eitthvað annað að eiga við Alcoa. Það var nú eitthvað annað.

Hvað segir þetta okkur? Það segir okkur að þetta snýst ekkert um málefnaleg rök. Þetta snýst um þann ásetning eins stjórnmálaflokks og ríkisstjórnar að knýja þetta mál til lykta. Um það snýst það. Því miður hefur maður ekki orðið var við það í þinginu, þó með undantekningum, að menn hafi sett sig mjög djúpt inn í þessa hluti.

Þetta frv. sem við erum hér að afgreiða, eða ríkisstjórnin ætlast til að við afgreiðum, snertir heimild til að reisa álver í Reyðarfirði og við erum hér að fjalla um alla framkvæmdina. Við erum að fjalla um Kárahnjúkavirkjun. Ástæðan er náttúrlega sú að Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði eru óaðskiljanlegir þættir í sama máli, á sama verkefni. Þetta er bara mótorinn fyrir þessa álverksmiðju, og þessi virkjun yrði ekki reist ef ekki væri þessi álverksmiðja. Það er þetta sem gerir málið einstætt í virkjunarsögu landsins því að aldrei áður hefur verið reist virkjun með það eitt að markmiði að þjóna aðeins einum aðila. En menn segja: Í þessu felst geysilegur styrkur, þetta er svo stórt fyrirtæki. Það er með mikinn fjölda manns á launum, skiptir tugum þúsunda ef ekki hundruðum þúsunda, ég skal ekki fara með það, starfar um heim allan og er firnasterkt. Í þessu er mikil trygging fyrir Íslendinga, segja menn. Ég held ekki. Stór fyrirtæki eru líka fallvölt. Pan American var eitt stærsta flugfélag í heiminum. Hvern hefði órað fyrir að Pan American færi á hausinn? Það gerðist samt. Stór fyrirtæki verða gjaldþrota, ekkert síður en smáfyrirtæki, og að þessari áhættu hafa menn ekkert hugað. Hvað gerðist ef Alcoa færi á hausinn og engir samningar stæðust? Hvað mundi þá gerast? Gæti gerst hið sama og gerðist í járnblendinu í Hvalfirði, gæti það sama gerst? Hvað gerðist þar? Járnblendifélagið fór margsinnis á hausinn og norski eignaraðilinn, Elkem, kom að samningum aftur og ítrekað. Hvað gerðist í þeim samningum? Það var endursamið um raforkuverðið. Alltaf fór það neðar og neðar. Og hvað gerðist síðan haustið 2001? Hlutaféð var lækkað um 75%, var það ekki? Þetta átti allt að vera óskaplega traust.

Ég minnist þess og hef áður reyndar vitnað í þau orð hér í ræðustóli þegar Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Járnblendiverksmiðjunnar, kom í efh.- og viðskn. og varaði okkur við, varaði þjóðina við því að ana út í þetta fen. Hann sagðist hafa reynslu af samningum við stóra erlenda aðila sem hefðu okkur í hendi sér. Sú hætta væri fyrir hendi að ef það blési ekki byrlega fyrir fyrirtækið þröngvaði það okkur til að endursemja um afurð okkar, raforkuna, eða ef það yrði gjaldþrota og hyrfi frá kæmi annar aðili til sögunnar, sagði Jón Sigurðsson, hræætan sem hann kallaði. Það er fyrirtæki sem mætir að samningsborðinu þegar við eigum engra kosta völ annarra en að semja, og endursemja um raforkuna.

En værum við þá að missa af einhverjum miklum og góðum samningi? Nei, vegna þess að samningurinn er mjög slæmur. Það má náttúrlega ekki segja það, það má ekki segja hvað raforkan er seld á, það er leyndarmál gagnvart þjóðinni. Það vita það allir aðrir, þjóðin bara má ekki vita það. Samningurinn er slæmur og hann yrði einfaldlega enn þá verri.

Hvers vegna segi ég að samningurinn sé slæmur? Hann er slæmur vegna þess að hann byggir á vanhugsun. Hann byggir á því að leita eftir ráðgjöf til aðila sem virðast staðráðnir í því að þjóna markmiðum þess sem ráðgjöfina kaupir. Og markmið Landsvirkjunar og Framsfl. er að láta þetta dæmi ganga upp. Þess vegna ganga upp allar áætlanir þær CRU sem spá til um álverð, þ.e. fram í tímann. Aftur í tímann ganga þær aldrei upp. Menn þurfa ekki annað en að líta í skýrslur Landsvirkjunar annars vegar og spádóma CRU hins vegar. Það stendur ekki steinn yfir steini.

En aftur er komið inn í nefndir Alþingis og sagt: Þetta eru geysilegir sérfræðingar sem hér eru að verki. Þeir spá því að 2007 gerist þau undur og stórmerki að álverðið rísi og upp í þær hæðir að álverið í Reyðarfirði verði stórkostlega arðbært. Þetta gerist þarna um haustið rétt áður en verksmiðjan tekur til starfa. Skrýtið. Það bara gengur allt upp í áætlununum, þessum aðkeyptu áætlunum og spádómum. En hvers vegna er þessu ekki að treysta? Annars vegar vegna þess að það er illa haldið á málinu af pólitískum kommissörum sem eru að ná sínu fram, sínum pólitísku markmiðum fram, að fullnægja kosningaloforðum Framsfl. Það er eitt. En svo er annað líka. Það er að þau módel sem byggt er á ganga ekkert lengur upp. Það gerist nefnilega stundum í sögunni að strúktúrbreytingar eiga sér stað, grundvallarbreytingar, sem verða þess valdandi að gömul reiknilíkön standast ekki lengur, og það er að gerast núna. Er þetta eitthvað sem ég þekki eða er að finna upp? Að sjálfsögðu ekki. Ég er enginn sérfræðingur í þessum málum. En ég leita til sérfræðinga og ég leita til manna sem kunna skil á þessum málum.

Og hvað segja þeir? Þeir segja: Það er tvennt sem veldur því að spádómar og spádómalíkön sem byggt hefur verið á um þróun álverðs standast ekki. Í fyrsta lagi er það að færast í vöxt að ál sé endurunnið. Endurvinnsla áls tekur aðeins 5% af orkunni sem frumframleiðslan krefst. Hvað þýðir það? Það þýðir að framleiðslan verður miklu ódýrari. Með öðrum orðum heldur það álverðinu niðri. Þegar Norsk Hydro hætti við Framsfl. á sínum tíma fór það að halda við fyrirtæki í Þýskalandi og reyndar bara giftist, þau runnu saman, fyrirtæki sem er í álframleiðslu og hefur sérhæft sig einmitt í þessu, að endurvinna ál. Þessi hluti álframleiðslunnar í heiminum er að færast mjög í vöxt. Svo er annað að gerast sem einnig veldur því að gömlu líkönin ganga ekki upp lengur, álframleiðslan er að færast frá ríku löndunum sem búa við sterk velferðarkerfi, mikla skattlagningu og háan vinnuaflskostnað til þriðja heimsins, til fátækari ríkja, til Mósambíks, Víetnams og Kína.

Kína var einn stærsti innflytjandi á áli fyrir fáeinum árum, er nú orðinn útflytjandi og það stefnir í að Kína verði mesti álútflytjandi í heimi. Hvað þýðir þetta? Allt ber að sama brunni: Lækkandi álverð. Þetta veldur því að spádómslíkönin sem Landsvirkjun og ráðgjafar hennar byggja á ganga ekki lengur upp. Er ég að segja þetta út í loftið? Nei. Því miður er ég ekki með ársskýrslur Landsvirkjunar við höndina, ég get komið með þær í næstu ræðu og sýnt þær, borið saman annars vegar spádómana og hins vegar hver reyndin hefur orðið.

Hvaða máli skiptir þetta? Þetta skiptir því máli að raforkuverðið er háð álverðinu, bundið í álverðið. Raforkuverðið er sett í jafnvægi þar sem áltonnið á að kosta tiltekna upphæð, eitthvað rúmlega 1.550 dollara tonnið. Það er langt þar fyrir neðan og mun ekki hækka samkvæmt spádómum CRU og Landsvirkjunar og annarra aðkeyptra aðila, sérfræðinga, fyrr en rétt áður en álverið opnar rétt fyrir þarnæstu alþingiskosningar. Það er svo skrýtið að þetta er allt hugsað í kjörtímabilum. Og það er eitt af því sem menn furða sig svolítið á, það er framkvæmdatíminn, hvað hann á að vera hraður. Þetta á að gerast á mun skemmri tíma en flestir verkfræðingar og verktakar höfðu ætlað. En þeir gleymdu því að Íslendingar kjósa bara á fjögurra ára fresti og hefði sennilega verið heppilegra ef kjörtímabilið hefði verið sex ár, þá hefði Framsfl. komið með svolítið raunsærri útgáfu, og Landsvirkjun þar af leiðandi, af framkvæmdaáætluninni. En þannig er því nú farið.

[21:00]

Ég fer að nálgast lokin á þessari fyrri ræðu minni við 2. umr. málsins því að ég minni á að við eigum eftir að ræða þetta mál að nýju við 3. umr. og við eigum eftir að ræða ýmsa þætti sem verðugt er að taka til ítarlegrar umfjöllunar og þar vísa ég í kröfu okkar um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég hlustaði á hæstv. iðnrh. í dag segja frá því að geysileg ánægja ríkti í þjóðfélaginu núna og sérstaklega með þessar framkvæmdir og það væri yfirgnæfandi stuðningur og velvilji á meðal þjóðarinnar í garð framkvæmdanna. En þá spyr ég sjálfan mig: Hvernig stendur á því að þeir sem berja sér svona á brjóst og eru svona vissir í sinni sök og um málstað sinn þori ekki að láta á hann reyna? Þeir þora ekki að láta reyna á sinn málstað í lýðræðislegum kosningum, þora það ekki.

Ég las mjög athyglisverða grein ekki alls fyrir löngu um kvótakerfið þegar því var komið á á sínum tíma, þegar almenn réttindi voru gerð að sérréttindum, að það hefði verið óeðlilegt í rauninni að spyrja ekki þjóðina álits. Hvað þá með þetta mál? Við erum að tala um almenn réttindi sem í greininni voru kölluð frelsisréttindi snúið í sérréttindi erlends álfyrirtækis. En það á að afgreiða þetta með minni viðhöfn en breytingu á kjördæmaskipan í landinu vegna þess að þá þarf stjórnarskrárbreytingu til. Þá þarf að taka málið fyrir á tveimur þingum. En þegar ráðist er í mestu náttúruspjöll sögunnar, þegar lagst er í hernað gegn íslenskri náttúru, þá þarf meiri hluta á Alþingi einu sinni.

Hér komu upp áðan fulltrúar ríkisstjórnarinnar og Samfylkingarinnar, stuðningsaðilar þessa máls og nánast lýstu því yfir að þetta væri ekki umræðunnar virði. Menn hefðu þegar hafist handa, byrjað væri að bora í gegnum fjöllin þarna fyrir austan. Það er alveg rétt. Við höfum heyrt skröltið í skriðdrekunum sem hafa lagt í hernaðinn gegn náttúrunni í allt sumar og haust, sem minnir á þau loforð og þær heitstrengingar sem voru gefnar á Alþingi um að ekki yrði ráðist í neinar framkvæmdir sem tengdust þessum stóriðjuáformum fyrr en allir samningar hefðu verið frágengnir. Þessu var lofað aftur og ítrekað og ég veit að þetta muna allir. Þjóðin man það. Það er þess vegna sem þeir þora ekki að snúa sér til þjóðarinnar til að ýfa þetta mál ekki upp.

En það er annað sem einnig var sagt og er reyndar bundið í lög. Það er að þessar framkvæmdir mega ekki koma niður á raforkuverðinu, mega ekki hækka raforkuverð til notenda í landinu. Það er bundið í lög. Hins vegar er allt sem bendir til þess að einmitt það gæti gerst nema ríkið komi inn með frekari innspýtingu, greiðslur og styrki til Alcoa. Þá þarf það að koma til og eflaust verður það gert. Ég efast ekkert um að reynt verður að fela þennan kostnað sem ráðist er í. Ég hef engar efasemdir um það. Verða allar hafnarframkvæmdir og vegaframkvæmdir reiknaðar inn í þennan tilkostnað? Er það nokkuð sem ESA er kannski að skoða? Ég veit það ekki. Við fáum ekki að vita það. Okkur var sagt í efh.- og viðskn. að við gætum fengið að vita hvað þeir eru að véla gagnvart ESA ef við hétum því að segja ekki þjóðinni frá því. Við yrðum að lofa að segja ekki frá því sem við yrðum áskynja. Í fyrramálið kl. 8.15 kemur efh.- og viðskn. þingsins saman og þá ætla ég að fara fram á rökstuðning fyrir því að þjóðin fái ekki upplýsingar um þessi mál. Hvað er það sem ríkisstjórnin er að fela? Hvað er það sem má ekki ræða opinskátt?

Þetta er mjög einfalt mál í rauninni. Verið er að tala um hvort stuðningur ríkisins, skattborgarans íslenska gangi á einhvern hátt í berhögg við markaðssáttmála hins Evrópska efnahagssvæðis. Um það snýst málið. En af hverju má ekki ræða það opinskátt? Af hverju þarf að loka þá umræðu inni? Af hverju þarf að sveipa hana leyndarhjúpi? Ég skil það ekki. En svona hefur þetta mál náttúrlega allt verið.

Álfyrirtækin í Straumsvík og í Hvalfirði, ímynda menn sér að fulltrúar þeirra þekki ekki raforkuverðið? Halda menn að verið sé að halda þeim upplýsingum leyndum gagnvart samkeppnisaðilum? Halda menn það virkilega? Heldur það einhver? Ég held ekki. Auðvitað þekkja þeir allir þessa samninga í þaula. Það er verið að halda þessu leyndu gagnvart þjóðinni. Það er hún sem má ekki vita, þegar þjóðin er að borga brúsann af þessu öllu og þessu á að halda leyndu eftir því sem kostur er gagnvart henni.

Að lokum langar mig aðeins til að vísa í ræðu sem formaður Framsfl., Halldór Ásgrímsson, flutti á flokksþingi fyrir fáeinum dögum og nú bið ég menn að leggja eyrun við. Ég ætla að vitna í þá ræðu. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Áætlanir gera ráð fyrir að framleiðslustigið í hagkerfinu verði a.m.k. 2% hærra á komandi kjörtímabili en annars hefði orðið vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar, ekki síst vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi og byggingar Kárahnjúkavirkjunar. Í þessu felst að svigrúm ríkissjóðs verði samanlagt á kjörtímabilinu um 20--25 milljörðum meira en ella og sveitarfélaganna 5 milljörðum meira en annars hefði orðið. Þá má ætla að afkastageta þjóðarbúsins verði 4--5 prósentustigum meiri í lok næsta kjörtímabils en án þessara aðgerða.`` Ég ætla að halda áfram, með leyfi forseta:

,,Ég tel augljóst að almenningur í landinu eigi að njóta stærsta hluta þessara auknu tekna, en mikill meiri hluti hans hefur fylkt sér um þessa atvinnustefnu og áttað sig á hinu mikilvæga samhengi hlutanna. Ég tel vera kominn grundvöll fyrir þjóðarsátt um þá atvinnustefnu sem er hornsteinn íslenska velferðarkerfisins.

Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Ef við styðjum við bakið á þessari atvinnustefnu og njótum uppbyggingar stóriðjunnar á Austurlandi og Grundartanga skapast ekki einvörðungu á þriðja þúsund nýrra starfa heldur skapast einnig skilyrði til mestu skattalækkana um langt árabil.``

Þetta eru staðhæfingar algerlega út í loftið. Hér eru allir helstu efnahagssérfræðingar ríkisstjórnarinnar, Seðlabanka, fjmrn., greiningarstofnana bankanna búnir að vera að vara við samdrætti samhliða þessum framkvæmdum. Seðlabankinn talar um að draga úr framkvæmdum hins opinbera um 20% eins og ég vísaði í. Verið er að tala um hækkun vaxta, ruðningsáhrif í atvinnulífinu en hér kemur maður og talar um að þetta muni skapa svigrúm upp á 20--25 milljarða fyrir ríkissjóð og 5 milljarða til viðbótar fyrir sveitarsjóðina og skattalækkanir á ári um 15 milljarða. Síðan hafa hagfræðingar verið að tala um að áhrifin í efnahagslífinu nemi hugsanlega rúmum 2 milljörðum og menn eru að vísa þar í hagnaðinn hjá fyrirtækjum á borð við Össur og önnur fyrirtæki.

Ég er búinn að fara yfir gagnrýni mína á ræðuhöld formanns Framsfl. sem boðar okkur þessa stefnu. Ég ætla aðeins að víkja í lokin að einni gagnrýni sem mér finnst nokkuð merkileg en hún var sett fram í Viðskiptablaðinu í desember árið 2001 en þá voru tveir hagfræðingar, Axel Hall og Ásgeir Jónsson, sem veltu því fyrir sér hvaða áhrif það hefði ef álframleiðsla yrði verulega aukin sem hlutfall af þjóðarframleiðslu okkar eins og Framsfl. er að leggja til. Þeir skoðuðu hvaða áhrif það hefði haft á sveiflur í hagkerfinu. Þeir skoðuðu tvö sveiflutímabil, annars vegar árin 1986--1987 þegar mikil þensla var í atvinnulífinu og síðan skoðuðu þeir árin upp úr 1990, þ.e. 1990--1994 mun það hafa verið. Niðurstaðan varð sú að sveiflurnar í efnahagslífinu hefðu orðið miklu meiri en þær þó urðu ef álið hefði verið orðið rúmlega þriðjungur af efnahagsumfanginu eins og Framsfl. stefnir að, þá hefðu sveiflurnar orðið miklu meiri í báðar áttir til þenslu og einnig í samdrætti. Þetta hefur einmitt verið röksemdin sem menn hafa teflt fram þegar sagt hefur verið að sjávarútvegurinn vegi of þungt í þjóðarframleiðslu okkar, að við eigum ekki að hafa öll eggin í sömu körfu og þess vegna eigi að stuðla að aukinni fjölbreytni. Ef þetta verður sá valkostur sem verður fyrir valinu, þ.e. þungaiðnaður, álframleiðsla, þá er það ekki til að auka á stöðugleika nema þvert á móti. Það eykur á sveifluna. Og þeir benda einnig á í þessari grein að sjávarútvegurinn sé að breytast í allri samsetningu, það séu orðnar fleiri afurðir og menn séu farnir að tefla inn á fleiri markaði og sjávarútvegurinn sé ekki háður eins miklum og kröppum sveiflum og hann áður var fyrir vikið. En þetta telja þeir að mundi auka á slíkar sveiflur.

Þeir Axel Hall og Ásgeir Jónsson segja hérna að það hafi verið yfirlýst forgangsverkefni að auka fjölbreytni í útflutningi, og hér vitna ég, með leyfi forseta, í greinina:

,,Hins vegar má velta því fyrir sér hvort aukin stóriðja muni ávallt skila þessum tilætlaða árangri, sérstaklega ef hún ber öll að sama brunni og býr við rekstraróvissu sem jafnvel er meiri en þekkist í sjávarútvegi. Sú spurning blasir því við hvort Íslendingar séu að endurtaka leik fortíðar með því að leggja of mikið undir á eina atvinnugrein.``

Þetta er áhættan við álið, að við séum að hverfa inn í fortíðina, stíga risastórt skref inn í fortíðina. Þeir vara sem sagt við þessu. Þetta er ein af þeim hættum sem Framsfl. býður heim með þungaiðnaðaráformum sínum og þeirri atvinnustefnu sem flokkurinn kveðst ætla að stefna að. Og þegar Halldór Ásgrímsson, formaður Framsfl., hæstv. utanrrh., segir að um þessa stefnu hafi skapast sátt, þá er það náttúrlega alrangt. Það verður engin þjóðarsátt um slíka stefnu sem er í hróplegri andstöðu við nánast allt það sem heilbrigð skynsemi boðar og er þá ekki minnst á það sem mestu máli skiptir, þau stórkostlegu náttúruspjöll sem það hefði í för með sér ef atvinnumála- og efnahagsmálastefnu Framsfl. yrði fylgt.

Herra forseti. Ég ætla að fara að ljúka máli mínu í þessari fyrri ræðu við 2. umr. um frv. til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði. Ég vil segja að lokum að þessu máli er ekki lokið. Ég veit að mörgum finnst erfitt að snúa aftur en við skulum ekki gleyma því að það verkefni sem er fyrirhugað er risavaxið og það er einu sinni svo að samningarnir sem gerðir voru, eftir því sem ég kemst næst, voru á þá lund að ef ekki yrði af endanlegum samningum, þá hvílir áhættan hjá Alcoa. Gagnstætt því sem gert var við Hydro var náttúrlega ekkert hugað að neinu slíku en það var hamrað á þessu í þingsal af hálfu stjórnarandstöðunnar og eitthvað virðast menn aðeins hafa lært af því. En málið er svo stórt, bæði framkvæmdin, hin efnahagslegu áhrif og þau miklu spjöll sem yrðu unnin á náttúru Íslands, ef þessi framkvæmd verður að veruleika, að við eigum núna að draga djúpt andann og hugsa okkar gang. Það er enn hægt að snúa af braut.