Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 21:16:20 (4107)

2003-02-26 21:16:20# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[21:16]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Í langri og ítarlegri ræðu sinni sagði hv. þm. að mörgum hagfræðingum bæri saman um að í þessu máli væri arðseminni ekki fyrir að fara. Síðan bætti hv. þm. við einhverju á þá leið að þegar hagfræðingar komist í nefndar á vegum ríkisins missi þeir ráð og rænu. Þeir örfáu hagfræðingar sem eru sammála hv. þm. eru sem sagt með kollinn í lagi en þeir hagfræðingar sem hafa komist að annarri niðurstöðu hafa misst ráð og rænu af því að starfa hjá ríkinu. Þess vegna spyr ég hv. þm., sem er formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, hvort honum finnist hægt að bera það á borð fyrir alþjóð að þessi stétt manna, hagfræðingar, séu með kollinn í lagi þangað til þeir fara að starfa hjá ríkinu, þá missi þeir ráð og rænu.