Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 21:17:17 (4108)

2003-02-26 21:17:17# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[21:17]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. orðar þetta miklu betur en ég gerði, að menn missi ráð og rænu þegar þeir eru komnir undir hælinn hjá ríkisstjórninni. Ég var ekki að tala um starfsmenn ríkisins, um að menn töpuðu dómgreindinni þegar þeir færu að starfa hjá ríki eða sveitarfélögum, það er mikill misskilningur. Það sem ég er að lýsa áhyggjum yfir er að hagfræðingar og sérfræðingar sem skipaðir eru í pólitískar vinnunefndir sem greinilega hafa það að markmiði að ná ákveðinni niðurstöðu virðast iðulega tapa dómgreind sinni eða ganga undir hælinn á stjórnarherrunum. Mér finnst þetta vera áhyggjuefni. Ég segi það alveg hiklaust. Ég hef lesið skrif ýmissa aðila sem hafa verið gagnrýnir á þessar framkvæmdir og hvernig allur broddur er úr þeim farinn þegar þeir eru komnir í nefnd á vegum ríkisins.

Ég get komið með dæmi, ef menn óska eftir því, um það hvernig aðilar sem hafa verið skipaðir í rannsóknarnefndir á vegum ríkisins hafa verið meðhöndlaðir hafi þeir ekki makkað rétt. Ég hef áður í þingsal greint frá könnun sem var gerð á rafmagnseftirlitinu í landinu og hvernig þáv. iðnrh. kom fram gagnvart aðilum sem ekki mökkuðu rétt. Mér finnst þetta áhyggjuefni vegna þess að við eigum að byggja upp lýðræðislegt þjóðfélag þar sem sérfræðingar geti haft skoðun án þess að þeim sé vikið til hliðar ef þær eru ekki í takt við það sem stjórnvöld vilja. Þetta finnst mér skorta, sterkari hefð að þessu leyti.