Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 21:20:13 (4110)

2003-02-26 21:20:13# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[21:20]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst ekki óvarlegt að tala svona. Mér finnst nauðsynlegt að tala svona. Í rauninni er ég ekki að tala um starfsmenn ríkis eða sveitarfélaga. Í raun er ég fyrst og fremst að tala um eina ríksstjórn og vinnubrögð hennar og hæstv. ráðherra í þessari ríkisstjórn. Ég er að tala um allt ferli þessa máls og hef reyndar vísað í önnur mál líka.

Menn gefa sér niðurstöðurnar fyrir fram og búa síðan til starfsnefndir sem er ætlað að vinna að ákveðnu marki. Þetta er breyting sem menn höfðu á orði að hefði átt sér stað í Bretlandi með tilkomu Thatcher. Áður hafði verið hefð fyrir því í Bretlandi að kallaðar væru til vinnunefndir víðs vegar að úr þjóðfélaginu, úr hinum akademíska hluta, úr atvinnulífi, verkalýðshreyfingu og víðar til að kanna mál, grandskoða og gaumgæfa frá ýmsum hliðum og komast að niðurstöðu.

Thatcher hafði uppi allt önnur vinnubrögð. Hún vissi hver niðurstaðan átti að vera og hvert hið pólitíska lokamark væri. Síðan var skipaður vinnuhópur til að keyra að því marki. Þetta eru vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Þetta er ámælisvert og varhugavert þegar um er að ræða eins mikla hagsumuni og hér eru í húfi. Það er þetta sem hefur stjórnað þessum málum, ákvörðun um að framfylgja vanhugsuðum kosningaloforðum Framsfl. Það veldur því núna að menn ætla að vinna einhver mestu spjöll á íslenskri náttúru í sögu landsins og ráðast í framkvæmdir sem eru mjög óheppilegar í efnahagslegu tilliti.