Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 22:36:40 (4112)

2003-02-26 22:36:40# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[22:36]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða mínum stutta tíma hér í andsvörum í forsögu þessara mála, sögu Búrfellsvirkjunar og Ísals eða málflutning hv. þingmanns sem mjög var á villigötum um samhengi milli almenns raforkuverðs í landinu og orkuverðs til stóriðju.

En hann spurði mig um nokkur atriði hér sem kannski falla betur undir það verksvið sem ég hef hér með höndum. Ég ætla að víkja að þeim atriðum.

Ég tel í fyrsta lagi að Landsvirkjun verði ekki í vandræðum með að afla lánsfjár til síns þáttar í þessu mikla verkefni. Landsvirkjun hefur að baki áratuga gott samstarf við erlendar bankastofnanir, hefur aldrei lent í vanskilum og aldrei verið í vandræðum með að fjármagna sín mál. Ég bendi á það að eftir að ríkissjóður fór í hæsta lánshæfisflokk hjá lánshæfismatsfyrirtækinu Moody's fylgdi Landsvirkjun strax í kjölfarið. Landsvirkjun er með gríðarlega hátt lánshæfismat og mun áreiðanlega ekki lenda í vandræðum með þetta atriði, þ.e. að fjármagna verkið með lánum.

Að því er varðar það ákvæði sem þingmaðurinn nefndi um meðferð vaxtafrádráttar í skattalegri hlið málsins er það eitt um það að segja að fyrirtækið vill að sjálfsögðu, eins og eðlilegt er, tryggja sig gegn óvæntum breytingum á þessu sviði. Út á það gengur samningurinn um hin skattalegu atriði að það verði ekki óvæntar breytingar sem raski forsendum á grundvelli þessa samkomulags.

Og ég verð að segja að mér finnst afar ólíklegt að við á Íslandi eigum eftir að breyta þeirri reglu að lögaðilar geti dregið vaxtafrádrátt frá í uppgjöri sínu sem hvern annan kostnað, eins og tíðkast í öllum nálægum löndum mér vitanlega. Ég held að það sé afskaplega langsótt kenning að með þessu ákvæði sé fyrirtækið að reyna að skapa sér einhverja sérstaka möguleika til skattsniðgöngu. Það kannast ég ekki við.