Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 22:38:48 (4113)

2003-02-26 22:38:48# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[22:38]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig rétt að Landsvirkjun hefur getað tekið lán, enda eðlilegt með einfalda eigenda\-ábyrgð ríkisins á bak við sig og tvö af stærstu sveitarfélögum landsins sem meðeigendur á móti ríkinu. Menn hafa talið nokkuð ólíklegt að það fyrirtæki yrði fallítt, auk þess sem það hefur haft náttúrlega opinn reikning gagnvart almennum raforkunotendum í landinu og veðsetur alltaf allar eignir sínar og allar væntanlegar tekjur í hvert skipti sem það tekur lán. Þess vegna er ekki hægt að stofna sjálfstætt fyrirtæki um þetta eins og hæstv. fjmrh. veit. Væri nú gaman að fara yfir það mál og hvernig þau áform dóu allt í einu, frusu bara úti, af því að menn sáu auðvitað að þá gengi dæmið aldrei upp.

Herra forseti. Ég var reyndar að spyrja hæstv. ráðherra um það hvort hann hefði kynnt sér þær umhverfiskröfur og þær reglur um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda sem bankar hafa nú almennt sett sér og ég fór hér yfir, þar á meðal og ekki síst Norræni fjárfestingarbankinn. Og hvort það gæti ekki gerst að það stæði aðeins í mönnum að lána til framkvæmdar af þessu tagi sem fékk algera falleinkunn til þess bærrar matsstofnunar. Það þurfti pólitískt handafl umhvrh. til að snúa ákvörðuninni við. Þessu svaraði hæstv. ráðherra ekki.

Hvað ákvæðið um vaxtafrádráttinn snertir segir hæstv. fjmrh. hér að honum þyki afar ólíklegt að Íslendingar muni breyta þessu. Aha. En til hvers þarf þá fyrirtækið sérstaka tryggingu gagnvart honum? Getur það verið vegna þess að það telji þetta ákvæði alveg sérstaklega mikilvægt, það vilji alls ekki að það verði hægt að hrófla við því gagnvart sér? Það kæmi í ljós að fyrirtækið notar þetta með því að vera undirfjármagnað, með því að fjármagna nánast allar framkvæmdirnar og alla uppbygginguna með skuldum og dragi svo fé út úr landinu í gegnum skattfrjálsar vaxtagreiðslur og afkoman verði í núlli og enginn tekjuskattur borgaður hér innan lands og þess vegna vilji fyrirtækið hafa þessa tryggingu?