Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 22:41:08 (4114)

2003-02-26 22:41:08# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[22:41]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hefur ríkt ímyndunarafl og einhverjir menn á bak við hann sem eru að mata hann á upplýsingum um þessi atriði sömuleiðis, að því er mér heyrist.

Ég tel það ekki skrýtið að fyrirtæki sem eru að leggja í þessar gríðarlegu fjárfestingar hérna á Íslandi vilji hafa tryggt skattaumhverfi, vilji vita það og sjá fram í samningstímann að hverju það gengur í þeim efnum. Þetta er bara eitt af mörgum atriðum þar sem þetta fyrirtæki óskaði eftir því að það yrði samið sérstaklega um ákveðna festu í þessu umhverfi. Það á við um fjölmörg önnur atriði þarna. Ég tel í sjálfu sér ekkert við því að segja og við höfum fallist á þetta, m.a. vegna þess að við teljum afar ólíklegt að þessari reglu verði breytt. Ég tel að það væri afar óskynsamlegt fyrir okkur að taka upp almennt frávik í þessu efni miðað við það sem tíðkast í löndum almennt hér í kringum okkur.

Að því er varðar síðan fjármögnun Landsvirkjunar og lántöku þess fyrirtækis þekki ég til þessara atriða sem hv. þm. er að tala um, a.m.k. að því er varðar Norræna fjárfestingarbankann og umhverfisreglur. Ég held hins vegar að þetta verði ekki vandamál fyrir Landsvirkjun að því er varðar fjármögnun þegar til stykkisins kemur. Ég hef enga trú á því að þetta atriði muni standa í veginum fyrir fjármögnuninni.

Ég bendi enn á það að fyrirtækið hefur mjög hátt lánshæfismat alveg eins og íslenska ríkið og það er vegna þess hvernig hér hefur verið staðið að efnahagsmálum okkar á undanförnum árum og vegna þess með hvaða hætti ástand og horfur eru í þeim efnum núna sem við fengum hækkað lánshæfismat og sem Landsvirkjun nýtur góðs af.

Það er m.a. þess vegna sem ekki er ástæða til þess að hafa miklar áhyggjur af hinum svokölluðu ruðningsáhrifum. Við munum ábyggilega ráða vel við þau þegar þar að kemur og ég hef ekki áhyggjur af því, hv. þm.