Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 23:46:06 (4118)

2003-02-26 23:46:06# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[23:46]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég verð bara að búa við að hafa ekki heillað hv. þm. Ögmund Jónasson upp úr skónum með ræðu minni. Ég reiknaði heldur ekki með því. Þó að ég og hv. þm. séum sammála um ýmis félagsleg mál í þessu landi og hjörtu okkar sé á réttum stað og slái í takt að því leyti þá er ég algjörlega á öndverðum meiði við hann í þessu máli. Ég verð bara að lifa við að hv. þm. hafi ekki verið ánægður með ræðu mína.

Ég tel mig ekki hafa stráð neinum sundrungarfræjum milli íbúa höfuðborgarsvæðis og landsbyggðarinnar en ég hef hins vegar sagt að það hefur komið mér á óvart að andstaðan er nær eingöngu einskorðuð við höfuðborgarsvæðið og við ákveðna þjóðfélagshópa í landinu.

Það var nú meira í gríni sagt, með óskina um að ég héldi á skiltinu úti á Austurvelli um leið og ég gekk þar fram hjá. Það var annars eðlis.