Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 23:57:11 (4128)

2003-02-26 23:57:11# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[23:57]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Málefnalegum spurningum ber að svara og ég tel að þær hafi komið hér fram. Ég skal eiga orðræðu við hv. þm. um það.

Hann spyr út í mitt ágæta byggðarlag, Siglufjörð, sem má muna betri tíma. Það er rétt að þar voru opinberar framkvæmdir og opinber starfsemi. Ég held að þær hafi ekki verið slæmar. Við skulum hafa það í huga, sem ég veit að hv. þm. gerir sér grein fyrir, að ýmsar aðrar ástæður en opinber rekstur gerði það að verkum að atvinnulífi hnignaði þar og störfum fækkaði. (ÁSJ: Það átti að redda þessu.) Ætli það hafi ekki verið hrun síldarstofnsins sem þar hafi valdið mestu.

Ég er ekki þeirrar skoðunar, herra forseti, að á þeim tíma hafi það verið slæmt. Ég vil ekki endilega kalla það miðstýrt. Þetta var ein tegund af rekstrarformi, þ.e. ríkisfyrirtæki. Síldarverksmiðjur ríkisins voru reistar á Siglufirði og ráku starfsemi þar. Á þeim árum meðan það var gott og gilt og mikil síldveiði þurfti að fá upplýsingar frá Siglufirði áður en fjárlög voru gerð á hinu haá Alþingi.