ESA og samningar við Alcoa

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 10:37:21 (4142)

2003-02-27 10:37:21# 128. lþ. 85.91 fundur 446#B ESA og samningar við Alcoa# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[10:37]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er mikið áhyggjuefni að þjóðin og þingið skuli leynd þeim upplýsingum sem hér eru lagðar til grundvallar samningum um sölu á landinu. Ég segi það og ítreka, eins og ég gerði í ræðu minni í gær, herra forseti, að hæstv. iðnrh. skuldar okkur upplýsingar um það hvaða almannahagsmunir eru í húfi ef þjóðin og þing fá að heyra um hvað ESA er að spyrja og á hvern hátt íslenska ríkisstjórnin er að svara ESA. Það kemur fram í bréfi sem ráðuneytisstjóri iðnrn. skrifar mér og dagsett er 19. febrúar að það sé álit ráðuneytisins að með því að veita þessar upplýsingar sé hætta á því að það muni valda tjóni. Upplýsingarnar sem ég bið um að fá í hendur fyrir hönd íslenskra skattborgara og íslenskrar þjóðar eru þess eðlis að þær geti valdið tjóni í mínum höndum. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvaða tjóni telur iðnrn. og hæstv. ráðherra að ég geti valdið með því að hafa þessar upplýsingar og hafa aðgang að þeim? Og hverjir eru þessir mikilvægu almannahagsmunir sem ríkisstjórnin segir að séu í húfi? Hæstv. ráðherra hefur ekki svarað því. Hverjir eru þeir hagsmunir sem ríkisstjórnin dylur íslenska þjóð og íslenska skattborgara? Við eigum heimtingu á nánari skýringum á því.