ESA og samningar við Alcoa

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 10:43:50 (4145)

2003-02-27 10:43:50# 128. lþ. 85.91 fundur 446#B ESA og samningar við Alcoa# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[10:43]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er von að menn bara yppti öxlum. Og hér var hæstv. ráðherra að yppta öxlum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Einhvern tíma var okkur sagt að ESA væri dómstóll. Nú kemur í ljós að ríkisstjórnin er að prútta við þennan dómstól því að þessu ferli hefur verið líkt við samningaviðræður. Hæstv. ráðherra segir að það sé smámál þegar Alþingi og þingnefnd er meinað um upplýsingar til að fylgjast með þessu ferli, með þessum samningaviðræðum eða ferli sem líkja má við samningaviðræður. Þetta er smámál. Og sú hætta er fyrir hendi að ef þingmenn komast yfir einhverjar upplýsingar hlaupi þeir út með þær. Hvert? Til þjóðarinnar inn í lýðræðislega umræðu? Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Hvers konar framkoma er þetta gagnvart Alþingi Íslendinga og gagnvart íslensku þjóðinni?

Herra forseti. Það er eitt svar við þessu. Það er að taka þetta mál allt saman og galopna það gagnvart lýðræðislegri umræðu í þjóðfélaginu. Það gerum við með þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál og það verður rætt þegar málið kemur næst á dagskrá.