ESA og samningar við Alcoa

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 10:45:09 (4146)

2003-02-27 10:45:09# 128. lþ. 85.91 fundur 446#B ESA og samningar við Alcoa# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[10:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ýmislegt hef ég heyrt um dagana en aldrei túlkun á upplýsingalögum í þeim anda sem hæstv. iðn.- og viðskrh. fer hér með. Að það sé alveg sérstakt markmið að leyna upplýsingum, loka þær og læsa niðri. Hæstv. iðn.- og viðskrh. virðist hafa misskilið þetta á þann veg að upplýsingalögin hafi verið sett til að hjálpa ríkisstjórn að læsa niður upplýsingar, að þetta séu anti-upplýsingalög, megintilgangur þeirra sé að tryggja möguleika ráðherra til að læsa málið niðri hjá sér, þar á meðal gagnvart Alþingi. Þetta er öfugt, hæstv. ráðherra. Upplýsingalögin eru upplýsingalög. Þau voru sett til að tryggja aðgang almennings í landinu og fjölmiðla að upplýsingum. Þau voru liður í að reyna að færa íslenskt samfélag inn í nútímann, gera það opið, stjórnsýsluna gagnsæja. Svo kemur hæstv. ráðherra hér og ber á borð hörmungarrök af þessu tagi fyrir því að það sé (Gripið fram í: Lestu greinina.) beinlínis gert ráð fyrir því að svona upplýsingum sé haldið leyndum. Það er einmitt andi upplýsingalaganna að það verður að rökstyðja það mjög vel og það verða að vera ríkar efnislegar forsendur fyrir því, undir hverjum kringumstæðum, að hafna því að veita upplýsingar. Þetta er hins vegar tíðarandinn hjá hæstv. ríkisstjórn sem auðvitað vill hafa allt í náttmyrkrinu. Þar eiga hennar verk iðulega best heima og þola ekki dagsljósið, mega ekki birtast hér á borðum þingmanna, þar á meðal meðlögin til Alcoa. Þau eru greinilega svo umfangsmikil að ríkisstjórnin er í stökustu vandræðum með að troða því í gegnum ESA. Á sama tíma er á borðum þingmanna frv. um skattalegar ívilnanir til handa fyrirtækinu. Í 12 tölusettum liðum er þetta gælufyrirtæki undanþegið íslenskum skattalögum. Það er m.a. það sem ESA er að skoða. Hversu umfangsmikil er sú ríkisaðstoð sem ríkisstjórnin er að veita með þessu frv.? En Alþingi á að samþykkja það blindandi.