ESA og samningar við Alcoa

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 10:49:44 (4148)

2003-02-27 10:49:44# 128. lþ. 85.91 fundur 446#B ESA og samningar við Alcoa# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[10:49]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér erum við eina ferðina enn að fjalla um það að ráðherrar eru að leyna Alþingi upplýsingum sem þingmenn kalla eftir. Ég tek almennt undir það með Vinstri grænum að það á auðvitað að leita leiða til þess að þeir fái þessar upplýsingar sem þeir eru að biðja um. En mér finnst mjög sérkennilegt að þeir séu að sækja þetta á grundvelli upplýsingalaga. Þar sem málið er til meðferðar hér í þinginu hefði frekar átt að beina fyrirspurn til hæstv. ráðherra um þetta mál. Ég tel að það sé til leið í þessu máli og hún er sú að Vinstri grænir fái þessar upplýsingar í efh.- og viðskn. (ÖJ: Eins og ...?) og þeir verði þá bundnir trúnaði. En þeir geta alltaf, ef þeir meta að upplýsingarnar séu þess eðlis að þær kalli á að þær séu gerðar opinberar, leitað eftir því til Alþingis að þessum trúnaði verði aflétt og þá getur þingið samþykkt það ef upplýsingarnar eru þess eðlis. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um hvenær megi vænta þess að niðurstaða ESA liggi fyrir og hvort þess megi vænta að þær liggi fyrir þannig að hægt sé að fjalla um þær á meðan þetta mál er til umræðu hér í þinginu.