Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 11:23:36 (4151)

2003-02-27 11:23:36# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[11:23]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég býst við að hv. þingmaður eigi við að það eigi sem sagt að vera alveg ljóst að aldrei geti komið til hernaðaríhlutunar, þannig er málflutningur hans. Ég held að allar þjóðir í Vestur-Evrópu séu sammála um að það muni aldrei nást friðsamleg lausn í Írak án þess að það vofi yfir að til slíkrar íhlutunar geti komið. Það er stefna Sameinuðu þjóðanna. Íslendingum ber skylda til að styrkja og styðja Sameinuðu þjóðirnar í þessu máli sem öðrum.

Hv. þm. hefur oftar en ekki viljað afneita því. Ég bið eins og hann og fleiri um að þarna geti náðst friðsamleg lausn. Það er samt alveg ljóst að það verður ekki friðsamleg lausn. Sá harðstjóri og einræðisherra sem er í Írak og heitir Saddam Hussein, og margoft hefur komið fram að fótumtreður mannréttindi á allan hátt, mun ekki gefa eftir nema slík hótun liggi fyrir. Þetta eru staðreyndir másins. Þetta eru þjóðir heims almennt sammála um. Hins vegar eru mismunandi skoðanir uppi um hvaða tímasetningar eigi að vera í þessu máli, hvað eigi að gefa langan tíma. Ég hef sagt og sagði það í ræðu minni að það sé nauðsynlegt að gefa lengri tíma til þess að reyna að komast hjá átökum og við það stend ég. Það er stefna íslenskrar ríkisstjórnar og alveg út í hött hjá hv. þingmanni að vera með þann málflutning sem hann var með hér áðan.