Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 11:25:51 (4152)

2003-02-27 11:25:51# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[11:25]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki út í hött. Ég harma þær öfgar og þau öfgafullu sjónarmið sem komu fram í málflutningi hæstv. utanrrh. Íslands. Hann gerði mér upp þá skoðun að ég teldi að aldrei kæmi til greina að beita hernaðartækjum til að koma í veg fyrir ofbeldi. Ég hef aldrei sagt þetta. Hann segir hins vegar að við hljótum öll að vera sammála um að markmið alþjóðasamfélagsins hljóti að vera að koma í veg fyrir stríð. Það eru ekki allir sammála um þetta. Það er tekist á um þetta. Það er tekist á um þetta á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og það er tekist á um það í heiminum. Menn skiptast í fylkingar. Annars vegar eru Bandaríkjamenn og Bretar sem vilja fara með hernaði til að verja olíuhagsmuni og hernaðarhagsmuni sína í þessum heimshluta í valdatafli sínu. Aðrir hafa reist við þessu miklar efasemdir.

Ríkisstjórn Íslands með hæstv. utanrrh. og formann Framsfl. í fararbroddi hafa skipað sér í sveit Bandaríkjastjórnar og ég harma þá undirgefni sem ríkisstjórnin og hæstv. utanrrh. hafa sýnt hernaðarhyggju George Bush. Ég harma það. Mér finnst þessi stefna byggja á öfgum en ekki hófsemi.