Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 11:50:00 (4155)

2003-02-27 11:50:00# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[11:50]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir vinsamleg orð í minn garð og utanríkisþjónustunnar. Ég tek undir með honum að mikilvægt er að halda samstöðu um utanríkisþjónustuna eftir því sem nokkur kostur er því hún skiptir hagsmuni okkar afar miklu. Hún er þeim mun öflugri sem betri samstaða er um hana á hv. Alþingi.

Ég vil sérstaklega gera að umræðuefni það sem hann sagði um öryggismálin. Hann spurði mig um það hvort ég væri sáttur við þá stöðu sem þau væru í. Ég get sagt að ég er það ekki. Ég tel mikið áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga hin vaxandi gjá sem virðist vera að koma upp milli Norður-Ameríku og Evrópu í öryggis- og varnarmálum. Ég tel mjög mikilvægt að varðveita þá samstöðu sem hefur ríkt innan Atlantshafsbandalagsins og við Íslendingar höfum lagt okkur fram á alþjóðavettvangi í þessum efnum.

Hins vegar er það staðreynd að þarna eru uppi mismunandi skoðanir og m.a. þess vegna höfum við lagt á það áherslu að taka meiri þátt í öryggis- og varnarmálum í Evrópu, m.a. með því að taka þátt í vaxandi starfi á Balkanskaga, stofna Íslensku friðargæsluna og vera með í Kosovo. Það er liður í því starfi og viðleitni af hálfu Íslendinga til þess að einangrast á engan hátt frá þessu starfi, sérstaklega ef svo illa færi að þarna yrði meiri klofningur en er í dag. Það þjónar mjög hagsmunum Íslands að varðveita samstöðu milli Bandaríkjanna annars vegar og Evrópu hins vegar og við munum leitast við að gera það áfram.