Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 11:52:18 (4156)

2003-02-27 11:52:18# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[11:52]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrist á svari hæstv. utanrrh. að það sé nokkuð sérkennileg staða uppi í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna að því er varðar útfærslu á hinum tvíhliða varnarsamningi. Bókunin sem útfærir samninginn frá 1996 hefur í reynd runnið sitt skeið á enda. Hver er þá staðan í dag? Ég spyr hæstv. utanrrh.: Lítur hann þá svo á að bókunin sé enn í gildi? Hvaða afleiðingar telur hann að geti hlotist af þessari sérkennilegu stöðu? Er ekki alveg ljóst að varnir Íslands, eins og um hefur verið samið samkvæmt þessari bókun, eru þrátt fyrir allt í fullu gildi?

Ég tek auðvitað undir með hæstv. ráðherra að viðsjár hafa verið uppi milli ríkja Atlantshafsbandalagsins. Við höfum kannski aldrei fyrr staðið frammi fyrir jafndjúpum klofningi og hefur birst þar á síðustu vikum út af Íraksmálinu. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann telji að þetta geti haft einhver áhrif á það hvernig Bandaríkjamenn munu síðan leiða þetta mál til lykta.

Í framhaldi af því vil ég spyrja hæstv. utanrrh.: Telur hann að það sé farsælt til frambúðar að leita eftir auknu samstarfi Íslands og Evrópusambandsins á sviði öryggismála? Þá hef ég einnig í huga varnir Íslands.