Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 11:56:11 (4158)

2003-02-27 11:56:11# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[11:56]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Sérkennileg staða er uppi. Varnir Íslands eru tryggðar með tvíhliða samningi við Bandaríkin. En samningurinn er útfærður með sérstakri bókun. Bókunin hefur runnið sitt skeið á enda. Bandaríkjamenn eru að vísu með óbreytt lið og viðbúnað á Keflavíkurflugvelli. En við blasir að þeir hafa engar sérstakar skuldbindingar til þess að vera þar áfram. Samkvæmt þessu virðist mér sem þeir gætu dregið verulega úr viðbúnaði sínum hvenær sem er án þess að vera skriflega skuldbundnir til þess að halda uppi ákveðnum lágmarksvörnum. Þetta er skoðun mín.

Í annan stað, herra forseti, hefði ég áhuga á að heyra frá hæstv. utanrrh. hér síðar í dag hvort þeim sveitum sem Íslendingar eru að byggja upp samkvæmt þeirri stefnu sem hæstv. utanrrh. hefur mótað kunni í framtíðinni að verða beitt til þess að sjá um einhverjar tilteknar varnir á Keflavíkurflugvelli. Ég er með öðrum orðum að spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann sé að byggja upp vísi að liði sem í framtíðinni mundi með einhverjum hætti sinna miklu veigameira hlutverki í vörnum Íslands en Íslendingar hafa sjálfir gert hingað til.