Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 12:02:13 (4161)

2003-02-27 12:02:13# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[12:02]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er vígfimur maður í rökræðum og hefur gaman af slagnum, stundum kannski um of. Mér finnst stundum að hv. þm. missi sig í að bardaginn bardagans vegna verði mikilvægari en málefnið.

Ég held að það sé nú alveg ljóst að hv. þm. (Gripið fram í.) notar EES-samninginn ýmist sem fullkomið afreksverk manns eða sem algerlega óbrúklegt tæki, allt eftir því hvað hentar honum í tilraunum sínum að draga Ísland áfram í áttina að aðild að Evrópusambandinu. Það blasir við hverjum manni. Ég held að sé heiðarlegast af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að viðurkenna (Gripið fram í.) að tilgangurinn helgar greinilega meðalið. EES-samningurinn er þá bara notaður sem tæki, ýmist hinn mikli gjörningur dýrlingsins, Jóns Baldvins Hannibalssonar, eða alveg ónýtt tæki.

Þær breytingar sem hv. þm. notar til að rökstyðja mál sitt eru allar Evrópusambandsmegin og eru tiltölulega litlar. (Gripið fram í.) Jú, þær eru það, hv. þm. Í öllum aðalatriðum er ákvarðanatökuferlið óbreytt þó að Evrópuþingið megi tjá sig um málin og aðkoma Íslands að ákvarðanatökuferlinu sé sú sama. Við höfum aðstöðu til að koma okkar sjónarmiðum á framfæri. Hvað varðar EES-stofnanirnar er allt nákvæmlega óbreytt okkar megin. Aðkoma EES að íslenskri stjórnskipan er algjörlega óbreytt og það er m.a. hún sem fræðimenn telja nú í vaxandi mæli hafa verið stjórnarskrárbrot. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. fylgist t.d. með umræðum uppi í Háskóla Íslands þar sem greinilegt er að fræðimenn komast í vaxandi mæli að þeirri niðurstöðu að þetta hafi verið stjórnarskrárbrot. Það hefði átt að gera breytingar á stjórnarskránni. Það var nú einmitt það sem menn ræddu og réð miklu um afstöðu margra á sínum tíma, meira en að menn væru í sjálfu sér óánægðir, t.d. með viðskiptakjaraþáttinn.