Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 12:04:26 (4162)

2003-02-27 12:04:26# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[12:04]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljóst að margir eru þeirrar skoðunar að samningurinn hafi verið brot á stjórnarskránni. Eins og hv. þm. man eftir urðu harðar deilur um það í þessum sölum. Þá voru kvaddir til fjórir vísir menn sem komust að þeirri niðurstöðu að samningurinn væri ekki brot á fullveldinu en þetta væri á gráu svæði. Þegar ég er að velta fyrir mér áhrifum þessara breytinga innan ESB, ESB-megin, kemst ég að þeirri niðurstöðu það að hafi leitt til að við höfum minni möguleika á að hafa áhrif á gerðir ESB sem við tökum upp. Þetta hlýtur að leiða til þess, eða gæti hafa leitt til þess að fullveldisskerðingin, sem er hljóð og kemur lítt fram og er stöðugt að verki, fari yfir þessi gráu mörk sem hinir fjórir vísu menn töluðu um árið 1993. Það er hugsanlegt. Ég tel þess vegna að við eigum að ganga í Evrópusambandið. Ég tel að það bæti við fullveldi okkar með því að koma í veg fyrir þetta.

Herra forseti. Ég tel jafnframt að sá þröskuldur sem menn sáu áður í hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu sé miklu lægri en menn töldu áður. Ég er t.d. þeirrar skoðunar að við séum ekki í nokkurri hættu varðandi hina staðbundnu stofna. Þá er spurningin um deilistofnana. Það hefur verið talað um það hvað ESB sé harðdrægt í samningum fyrir sínar þjóðir. Varla mundu þeir semja verr fyrir okkur ef við værum þar fyrir innan. Eigum við að vera á móti aðild vegna þess að þeir eru svo svakalega duglegir að semja fyrir sínar þjóðir? Þetta eru auðvitað spurningar sem menn þurfa að svara.

Síðan tel ég öll rök með því að sú hugmynd sem hæstv. utanrrh. hefur lagt fram um sérstakt stjórnsvæði verði viðurkennd. Hún byggir á nálægðarreglunni og hinni sameiginlegu fiskveiðistefnu sem gengur út á það sem er sameiginlegt. Við höfum ekkert sameiginlegt (Gripið fram í.) með ESB.