Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 12:41:16 (4165)

2003-02-27 12:41:16# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[12:41]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi fyrst geta þess sem hv. þm. sagði í sambandi við Atlantshafsbandalagið og fundinn hér á landi. Það var margfarið yfir þá kostnaðaráætlun. Hún var skorin nokkuð niður frá því sem upphaflega var áætlað og niðurstaðan er sú að hún hefur fyllilega staðist og í reynd var kostnaðurinn nokkuð innan við þá áætlun þannig að það tókst mjög vel til í sambandi við þennan fund. Fundurinn var að mínu mati alls ekki kostnaðarsamur. Ef miðað er við þá fundi sem hafa verið haldnir annars staðar, t.d. bæði á Ítalíu og í Prag, þá er ólíku saman að jafna. Þetta var allt saman miklu ódýara og minna í það lagt af okkar hálfu en þeirra. Hins vegar tókst fundurinn afskaplega vel og þeir sem að komu voru mjög ánægðir með hann.

Ég vildi aðeins segja í sambandi við varnarsamninginn sem hv. þm. gerði að umtalsefni. Eiginlegar viðræður um bókunina eru ekki hafnar. Óformlegar viðræður hafa átt sér stað og fyrir liggur að mismunandi skoðanir eru uppi innan Bandaríkjanna í þessu máli eins og oft vill verða. Þeir aðilar eru til sem telja að varnarviðbúnaðurinn hér á landi sé ekki nauðsynlegur í þeim mæli sem hann er nú. Íslenska ríkisstjórnin er því ósammála. Og það er það sem liggur fyrir. Þess vegna er það rétt sem hann segir að þeir aðilar eru til sem telja að rétt sé að draga úr umsvifunum hér. Það er hins vegar ekkert nýtt. Þær skoðanir hafa komið fram oft áður, en afstaða Íslands er alveg ótvíræð í þessu máli.