Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 13:33:44 (4171)

2003-02-27 13:33:44# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), MS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[13:33]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hæstv. utanrrh. fyrir yfirgripsmikla ræðu um utanríkismál. Það er ljóst af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram, eins og við vitum öll, að umræða um utanríkismál er nánast ótæmandi og snertir hagsmuni okkar Íslendinga á einn eða annan hátt. Ég vil í máli mínu hér fyrst og fremst gera grein fyrir helstu atriðum er varða Íslandsdeild ÖSE-þingsins fyrir árið 2002 og vísa í skýrslu sem liggur á borðum hv. þingmanna.

Það er ljóst, herra forseti, að ógnir og viðsjár á alþjóðavettvangi eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin þann 11. september 2001, hafa haft miklar og ófyrirséðar afleiðingar á alþjóðasamskipti og þar af leiðandi starfsemi allra helstu fjölþjóðastofnana sem vinna að öryggismálum í víðasta skilningi þess orðs. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu er þar ekki undanskilin og hefur stofnunin beitt sér af fullum þunga í hinni alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi. Á níunda ráðherrafundi ÖSE sem efnt var til í Búkarest í desember 2001 samþykkti ráðherraráðið víðfeðma áætlun um baráttu gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi sem nefnd er Búkarest-áætlunin. Í þeirri áætlun er hryðjuverkastarfsemi skilgreind sem ógn við alþjóðlegan frið og öryggi, jafnt á ÖSE-svæðinu sem annars staðar í veröldinni. Er því lýst yfir að ÖSE sé reiðubúin að leggja sitt af mörkum í hinni alþjóðlegu baráttu í náinni samvinnu við aðrar alþjóðastofnanir. ÖSE hefur starfað ötullega að þessum málum á síðasta ári og hefur þingmannasamkunda ÖSE, ÖSE-þingið, lagt sín lóð á þær vogarskálar í störfum sínum. Þema ársfundar ÖSE-þingsins sem haldinn var í Berlín í júlí sl. var hin alþjóðlega barátta gegn hryðjuverkastarfsemi og hlutverk ÖSE í þeim efnum. Ársfundurinn ályktaði um þessi málefni í yfirlýsingu sinni sem kennd er við Berlín.

Hefðbundin verkefni ÖSE á sviði friðar, öryggis og samvinnu ríkja í Evrópu og varðstaða um virðingu fyrir mannréttindum íbúa álfunnar hafa þó ekki fallið í skuggann af hinum nýju ógnum. Verkefni á þessum málefnasviðum hafa einmitt aukist mjög að vægi með nýjum ógnum og ÖSE er einkar vel í stakk búin að aðstoða aðildarríki sín við að leggja grunn að samfélagslegu öryggi þegnanna.

Íslandsdeild ÖSE-þingsins var þannig skipuð árið 2002: Magnús Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokks, formaður, Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, varaformaður, og Guðjón Guðmundsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks.

Íslandsdeildin tók þátt í fundum málefnanefnda ÖSE-þingsins og stjórnarnefndar í Vínarborg í byrjun síðasta árs. Var það í fyrsta sinn sem fundir voru haldir í öllum nefndum þingsins í Vínarborg, en ákvörðun um slíkt fyrirkomulag hafði verið tekin árið áður, m.a. í þeim tilgangi að efla starfsemi þingsins og auka tengsl við embættismenn ÖSE. Á fundinum í Vín var fjallað almennt um starfsemi ÖSE og þau fjölmörgu verkefni sem ÖSE tekur þátt í og miða að öryggismálum, mannréttindamálum og samvinnu ríkja. ÖSE beinir kröftum sínum mjög að baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi og er lögð áhersla á að þrátt fyrir það verði lýðréttindi fólks ekki skert. Lögð er áhersla á að hlutverk þingmanna á ÖSE-þinginu sé ekki aðeins að beita sér fyrir hertari löggjöf á þjóðþingum sínum til að stemma stigu við hryðjuverkum heldur einnig að efla tengslin við mismunandi menningar- og trúarhópa.

Á næstu árum er líklegt að eitt helsta hlutverk ÖSE verði að efla tengsl við mismunandi menningarsvæði sem eru í eða við jaðra álfunnar. Einnig er ljóst að málefni þjóðanna á Balkanskaga verða áfram mikilvægur þáttur í starfsemi ÖSE.

Íslandsdeildin sótti ársfund ÖSE-þingsins sem haldinn var í Berlín í júlí sl. Meginefni fundarins var viðbrögð við hryðjuverkastarfsemi og hin nýju verkefni sem baráttunni gegn slíkri starfsemi fylgja. Tóku skýrslur og ályktanir málefnanefnda mið af meginefninu, þar sem fjallað var m.a. um hlutverk Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í baráttunni gegn hryðjuverkum, efnahagslega hlið baráttunnar gegn hryðjuverkum og mikilvægi þess að ráðast að samfélagslegum rótum alþjóðlegrar hryðjuverkastarfsemi.

Eins og áður segir voru niðurstöður Berlínarfundarins sameinaðar í eina stóra ályktun, Berlínar-yfirlýsingu ÖSE-þingsins. Auk ályktana málefnanefndanna þriggja innihélt yfirlýsingin viðbótarályktanir um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi, stöðu mála í Moldavíu, uppbyggingu í suðausturhluta Evrópu, mansal, ofbeldisverk gegn gyðingum, mannréttindi og baráttuna gegn hryðjuverkastarfsemi, og menntunarmál Róma eða sígauna. Auk þessara málefna ályktaði þingið sérstaklega um bann við framleiðslu jarðsprengna og hins vegar um áhrif hryðjuverkastarfsemi á stöðu kvenna.

Einn liður í störfum ÖSE-þingsins er að veita blaðamannaverðlaun, m.a. fyrir umfjöllun um mannréttindamál og baráttu fyrir auknu lýðræði. Að þessu sinni voru blaðamönnum frá Austurríki og Hvíta-Rússlandi veitt þessi verðlaun.

Í tengslum við fundi ÖSE-þingsins héldu þingkonur sérstakan fund þar sem m.a. var fjallað um stöðu kvenna innan þingsins. Eitt af áhyggjuefnum er hve fáar konur eru fulltrúar aðildarríkjanna á þinginu, en svo hefur verið um árabil.

Á fundi stjórnarnefndar ÖSE-þingsins sl. haust var sérstaklega fjallað um samskipti ÖSE-þingsins við Miðjarðarhafsríkin en mikill áhugi hefur verið fyrir því að efla þau tengsl, ekki síst í ljósi hinnar alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkum.

Herra forseti. Það er augljóst, eins og fyrr segir, hve árásirnar á Bandaríkin hafa valdið miklum vatnaskilum í samskiptum þjóða heims. Friðelskandi þjóðir hafa tekið höndum saman í baráttunni gegn skipulagðri starfsemi á sviði hryðjuverka og fer sú barátta að miklu leyti fram á vettvangi alþjóðastofnana. Á ÖSE-þinginu þar sem 320 þjóðkjörnir fulltrúar frá 55 ríkjum eiga sæti ríkir mikil eindrægni um hvaða leiðir beri að fara í þeirri baráttu. Fulltrúar afar ólíkra þjóða í Evrópu og Norður-Ameríku hafa tekið höndum saman í sameiginlegri baráttu gegn hryðjuverkaógninni og samhliða þeirri baráttu er lögð rík áhersla á að aðgerðir skerði ekki almenn mannréttindi borgaranna.

Það er ljóst að hryðjuverkastarfsemi er ekki sjálfsprottin. Samspil ýmissa þátta svo sem fátæktar, harðstjórnar og fáfræði í einstökum þjóðfélögum elur af sér og skapar grundvöll fyrir hryðjuverkaöfl. Það er og verður eitt af mikilvægustu verkefnum í samstarfi þjóðanna að vega að rótum vandans með aðgerðum sem fela m.a. í sér að vinna gegn fátækt, efla menntun almennings og berjast gegn harðstjórn og mannréttindabrotum sem viðgangast allt of víða. Á ÖSE-þinginu eru fulltrúar sammála um að leita verði allra leiða til þess að rjúfa þann vítahring sem augljóslega er fyrir hendi og skapar grundvöll skipulagðrar hryðjuverkastarfsemi í heiminum í dag.

Hin 55 aðildarríki ÖSE eru mislangt komin á þróunarbraut mismunandi sviða og þessi staðreynd varpar ljósi á mikilvægi þess að þær þjóðir sem hafa verið þeirrar gæfu aðnjótandi að búa við lýðræði, virðingu fyrir mannréttindum og réttarríki stuðli að því að sömu forsendur gildi á ÖSE-svæðinu öllu. Á þessu sviði höfum við Íslendingar margt fram að færa. Aðstæður okkar Íslendinga veita okkur ákveðna vernd gegn ógnum samtímans. Engu að síður getum við ekki álitið sem svo að við séum laus við þær ógnir þar sem við erum hluti af alþjóðlegri heild og tökum virkan þátt í samstarfi þjóða heims í þessum málaflokki. Það er okkur mikilvægt vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru í heiminum í dag. Grundvallarforsendur íslensks samfélags eru þær sömu og ÖSE starfar eftir. Þar með er stofnunin ákjósanlegur vettvangur til samstarfs á ýmsum sviðum og ber samstarfið gegn hryðjuverkum því glöggt vitni. Á þessum grundvelli heldur ÖSE uppi öflugu og skilvirku starfi víðs vegar um Mið- og Austur-Evrópu og í ríkjum fyrrum Sovétríkjanna þar sem unnið er að því markmiði að byggja upp og treysta innviði þjóðfélaga. Þar með er ÖSE mikilvæg stoð í öryggiskerfi Evrópu og þess ber að geta að margir mjög hæfir Íslendingar taka þátt í þessu starfi og hafa verið valdir til starfa fyrir ÖSE, m.a. í gegnum Íslensku friðargæsluna. Það er sérstakt ánægjuefni hve Ísland hefur lagt mikið af mörkum í þessu starfi sem varðar svo mjög framtíðina í heimshluta okkar.

Alþjóðleg samstaða og samræmdar aðgerðir eru mikilvægar vegna þess að hryðjuverkastarfsemi er aðeins einn þáttur þeirrar glæpastarfsemi sem kalla má óhefðbundnar ógnir og birtast til að mynda í mansali, skipulagðri eiturlyfjaframleiðslu og smygli, alþjóðlegu fjárþvætti, átökum þjóðernis- og trúarhópa og þjóðflutningum. Margar þessar ógnir eru tengdar innbyrðis og eiga það sameiginlegt að þekkja ekki landamæri þjóða. Á þessu sést að alþjóðleg samstaða um aðgerðir til að sporna við og snúa þessari þróun við er algjör grundvallarforsenda.

Þegar fjallað er um aðgerðir alþjóðasamfélagsins gegn þeim ógnum sem við stöndum frammi fyrir má ekki líta fram hjá því að Vesturlönd bera mikla ábyrgð. Víða í okkar heimshluta eru aðstæður sem skapa jarðveg fyrir hryðjuverk og glæpastarfsemi. Það felst m.a. í öryggisleysi íbúanna, kúgun þeirra og mismunun, fátækt og lágu menntastigi. Það hlýtur því að vera fyrst og fremst á ábyrgð lýðræðisríkja að styðja við bakið á fátækari ríkjum sem búa við vanþróað lýðræðiskerfi og vinna að því markmiði að tryggja einstaklingum mannsæmandi tilveru og lífsafkomu og koma þannig í veg fyrir að öfga- og glæpaöfl eigi greiða leið að hugum og hjörtum fólks.

Það er ljóst að miklar breytingar eru og munu verða á öryggis- og varnarumhverfi Evrópu sem munu að mörgu leyti taka stakkaskiptum á komandi árum. Alþjóðasamskipti eru í örri þróun og Íslendingar eru þar virkir þátttakendur. Nýjar ógnir af hendi hryðjuverkaafla og útlagaríkja, stækkun Atlantshafsbandalagsins og stækkun Evrópusambandsins eru allt þættir sem kallað hafa á aðrar lausnir og önnur viðmið en áður giltu. Með þátttöku í umræðum um þessi mál á vettvangi þjóðkjörinna fulltrúa annars vegar og á vettvangi stjórnvalda hins vegar ásamt þátttöku íslenskra starfsmanna sem taka beinan þátt í aðgerðum ÖSE leggur Ísland sitt af mörkum í samstarfi þjóðanna í baráttu fyrir betra og öflugra og öruggara alþjóðlegu samfélagi framtíðarinnar.

Ég vil að lokum geta þess, herra forseti, að afar farsælt samstarf hefur verið með Íslandsdeild ÖSE-þingsins og fastanefnd Íslands hjá ÖSE í Vínarborg. Fastanefndin innir þar afar mikilvægt starf af hendi undir stjórn Þórðar Ægis Óskarssonar sendiherra og þykir Íslandsdeildinni rík ástæða til að þakka fyrir þau störf.