Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 14:25:00 (4179)

2003-02-27 14:25:00# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), LMR (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[14:25]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir spurninguna. Ég tel að við þurfum að endurskoða mjög hratt og mjög vandlega hvað gera skuli eftir næstu tvær vikur. Það vill svo til að Saddam Hussein og þeir sem hafa talað fyrir hans munn hafa skyndilega farið að vísa mjög mikið til mannúðar og að þau lönd sem hafa verið að gefa stjórn Saddams Husseins lengri frest eigi þess vegna að fresta aðgerðum sínum.

Ég vil benda á nokkur atriði sem mér finnst hafa verið sláandi. Það er kannski í fyrsta lagi heiðursmannaloforð sjálfs Saddams Husseins um sína eigin fjölskyldu þegar fjölskylda hans flúði land og var gefið heiðursmannaloforð um að ef hún sneri til baka þá skyldi henni ekki verða refsað. Við vitum hvernig það fór. Hausinn fauk af tengdasyninum. Við vitum að Saddam Hussein hefur gert eiturefnaárásir á börn sinnar eigin þjóðar. Við vitum að fólk á í erfiðleikum með að sækja matarmiða sína ef það er einhvers staðar á skrám Saddams Husseins. Við vitum að horfnir einstaklingar hafa ýmist horfið alveg eða komið til baka í verra en hörmulegu ástandi.

Við verðum því að horfa á hvað er að gerast innan þessa ríkis og hugsa til þess hvaða hugsanagangur, hvers konar hugsunarháttur ríkir þar. Að sjálfsögðu er okkur skylt að reyna að tala máli friðar til hinstu stundar. En það eru takmörk fyrir öllu.