Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 14:30:23 (4182)

2003-02-27 14:30:23# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[14:30]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér fer fram mjög áhugaverð umræða. Eitt finnst mér dapurlegt. Það er hve margir hafa komið í ræðustól á Alþingi og réttlætt áform Bandaríkjastjórnar um að ráðast inn í Írak. Menn hafa ýmist talað um nauðsyn þess af mannúðarástæðum að frelsa þjóðina undan oki einræðisherra eða vegna þess að heimsbyggðinni stafi slík ógn af Saddam Hussein og hans hirð að það beri að setja hann frá völdum með valdi.

Í ræðu hæstv. utanrrh. var því haldið fram að við værum að sjálfsögðu, eins og það var orðað, öll sammála um að markmið alþjóðasamfélagsins hlytu að vera að koma í veg fyrir stríð. Ég held að það sé ekki rétt. Ég held að þetta sé ekki einróma álit alþjóðasamfélagsins. Ég held að Bandaríkjastjórn sé ekki á þessu máli, enda fara fram átök, liggur mér við að segja, mjög snarpur skoðanaágreiningur á milli ýmissa ríkja í Evrópu og Bandaríkjastjórnar og Breta hins vegar, um stefnuna í þessum málum. Menn eru að reyna að halda aftur af Bandaríkjastjórn. Nýframkomin tillaga Frakka og Rússa í öryggisráðinu um að herða á vopnaeftirlitinu ber þess vott að verið er að reyna að leita allra leita til þess að komast hjá árás Bandaríkjastjórnar sem er að reyna að þröngva því markmiði fram. Ég held því að þetta sé ekki rétt.

Undir þessa stefnu Bandaríkjastjórnar finnst mér ríkisstjórnin og hæstv. utanrrh. hafa tekið í allt of ríkum mæli gagnrýnislaust. Mér finnst þetta hafa verið gert. Hann hefur talað um nauðsyn þess að koma Saddam Hussein frá og að tíminn sé að renna út. Maður hefur spurt sjálfan sig: Hvaða tími er að renna út, gagnvart hverjum? Við erum að tala um hernaðarárás á heila þjóð og menn koma hér upp og réttlæta hernaðarárás á heila þjóð. Um það snýst þetta mál.

Ég spyr hvort menn hafi í huga afskipti vesturveldanna af þessum heimshluta undangengna öld, allar götur frá því nýlenduveldin gömlu fóru að láta þennan heimshluta og aðra til sín taka. Þannig er að lengst af tuttugustu öldinni hafa vesturveldin, fyrst Bretar, síðan komu Bandaríkjamenn inn, haft mjög mikil afskipti af þessum heimshluta. Írak var reyndar stofnað árið 1921 af Bretum sem fóru þar með stjórn í umboði Þjóðabandalagsins framan af og saga Íraks er saga afskipta þessara ríkja. Fyrst var Írak stofnað sem konungsríki og konungurinn var sóttur til annars lands. Fyrir valinu varð Faysal, sonur Husseins konungs Sádi-Arabíu og bróðir Abdullahs Jórdaníukonungs. Krýning Faysals var upphafið að stjórnartíð Hasjímíta, sem náðu aldrei að vinna sér traust landsmanna, og henni lauk með blóðugri byltingu árið 1958. Fimm árum síðar brýst Baath-flokkurinn til valda í Írak. Hverjir skyldu hafa hjálpað honum til valda aðrir en Bandaríkjamenn? Leyniþjónusta Bandaríkjanna kom Baath-flokknum til valda og síðan gerist það 1979 að Saddam Hussein brýst til einræðisvalds í Írak, einnig með stuðningi bandarísku leyniþjónustunnar.

Það sem gerist í grannríkinu á þessum tíma er að Mossadeq var steypt af stóli í Íran árið 1953 og Reza Pahlavi keisari var settur til valda. Þá minnka ítök Bandaríkjamanna í Íran, þessu mikla olíuframleiðsluríki, og þegar Saddam Hussein og Írakar ráðast inn í Íran árið 1980, einu ári eftir að Ayatollah Khomeini brýst til valda og hrekur Reza Pahlavi frá völdum, er það gert með stuðningi Bandaríkjastjórnar. Þeir studdu árásarstríð Íraks á hendur Írönum öll átta árin sem það stríð geisaði. Þetta er staðreynd.

Nú er aftur byrjað að hlutast til um málefni þessa svæðis og alltaf er talað um mannúð --- alltaf talað um mannúð og hættuna sem stafar af þessu eina ríki. Menn horfa ekki til Egyptalands sem hefur miklu oftar farið með stríði á hendur nágrönnum sínum og beitt efnavopnum og ríkjanna á þessu svæði sem búa yfir kjarnorkuvopnum. Ég furða mig stundum á þeim gögnum sem koma fram víðs vegar að, t.d. frá öldungadeild Bandaríkjaþings í lok september núna um að í rauninni stafi heimsbyggðinni --- lesist: Bandaríkjastjórn --- minni hætta af Írak en Íran, bæði með tilliti til tengsla við hryðjuverkamenn og einnig vegna þess að Íranar séu lengra komnir á veg með að þróa gereyðingarvopn. Svona blasir þetta við mér. Við erum að tala þarna um svæði sem eru verðmætustu olíuframleiðsluríki veraldarinnar. Ég segi verðmætustu ríki. Þetta eru nánast heilar olíutunnur. Þetta eru olíutunnur.

Það er talið og kom fram í Global Policy Forum núna í haust --- ég hef fengið það staðfest annars staðar frá. Þetta eru tölur sem virðast standast --- að olía í Írak nemi 112,5 milljörðum tunna. Getgátur eru uppi um að þetta kunni að vera miklu meira, 250 milljarðar. Það er álíka mikil olía og er að finna í Sádi-Arabíu, sem er mesta olíuframleiðsluríki heimsins. Hins vegar segja menn að það sé auðveldara að komast yfir olíuna í Írak, hún sé auðveldari í vinnslu en í Sádi-Arabíu.

Þegar olían var þjóðnýtt í Írak árið 1972 var eignarhaldið á hendi bandarískra og breskra fyrirtækja auk eins fransks fyrirtækis. Þessi fyrirtæki vilja núna komast aftur yfir þennan auð, ná aftur í þessa olíu. En það eru aðrir að reyna að semja líka. Frakkar, Rússar og Kínverjar eru sagðir hafa átt í viðræðum við Íraka um nýtingu olíunnar. Þessir sömu aðilar og vilja núna ekki fara í stríð, þeir vilja bíða, allir þessir aðilar. Og þegar þetta mál er mátað inn í þetta samhengi hagsmunanna þá fer maður að skilja hvað þarna er á ferðinni. Hverjir eru halda um stjórnartaumana í Bandaríkjunum? Það eru aðilar nátengdir bandarískum olíuhagsmunum. Dick Cheney, sem var varnarmálaráðherra í Persaflóastríðinu og er núverandi varaforseti Bandaríkjanna, hefur verið framkvæmdastjóri Halliburton-fyrirtækisins í Texas. Það er alþjóðlegt fyrirtæki og stærsta þjónustufyrirtæki við olíuiðnaðinn í heiminum. Bush-forsetarnir báðir, báðir feðgarnir, eru einnig nátengdir þessum hagsmunum og hafa verið að búa í haginn á Kaspíahafssvæðinu og við Persaflóa. Og um það snýst þetta mál, alla vega að verulegu leyti.

Þess vegna er nöturlegt að hlusta á hæstv. utanrrh. Íslands trekk í trekk, þegar þessir harðsnúnu hagsmunaaðilar eru annars vegar, taka jafnan undir með þeim og segja að tíminn sé að renna út, að hann hafi bara fáeina daga ella verði ráðist á hann og með stuðningi Íslands ráðist á þjóðina, og að það sé réttlætanlegt. Gera menn sér grein fyrir því að allar götur frá því Persaflóastríðinu lauk hefur verið haldið uppi loftárásum á Írak í hverri einustu viku á norðurhluta landsins og á suðurhluta landsins? Gera menn sér grein fyrir því hvaða afleiðingar viðskiptabannið hefur haft á allt þjóðlíf og efnahagslíf? Og þarf ekki að hlusta svolítið á hvað andófsfólk frá Írak er að segja? Þá er ég ekki að horfa á þrönga klíku sem Bandaríkjamenn hafa smalað saman til að reyna að búa til bráðabirgðastjórn eftir að Saddam Hussein verður hrakinn frá völdum. Síðan koma þingmenn hér upp hver á fætur öðrum og mæla því bót að írakska þjóðin sé beitt þessu ofbeldi og að ráðist sé með nútímavopnum gegn henni með hörmulegum afleiðingum, gegn mótmælum mannréttindasamtaka um heim allan, Amnesty International, verkalýðshreyfinga og almannasamtaka um heim allan. Fólk kemur milljónum saman og milljónatugum á útifundum til þess að mótmæla þessu ofríki Bandaríkjastjórnar og Breta. Það er núna fyrst sem Blair-stjórnin, sem hefur verið dyggasti þjónn Bandaríkjamanna, er að byrja að hörfa til baka vegna þess að almenningur knýr hana til breyttrar afstöðu. En Íslendingar og íslenskir þingmenn, stjórnarliðar, koma hér hver á fætur öðrum upp í ræðustól og hvetja til árása á Írak ef, ef, ef --- það er óskilgreindur óútfylltur tékki. Ráðamönnum í Washington verður látið eftir að fylla hann út.

Ég spyr og ég beini þeirri spurningu til hv. þm. Láru Margrétar Ragnarsdóttur sem var að réttlæta þetta áðan og hristir nú höfuðið: Hvað vill hún gera gagnvart öðrum einræðisstjórnum? Hvað vill hún gera gagnvart Tsjetsjeníu? Hún þekkir málefni þess landsvæðis vel og það hryllilega ofbeldi sem þar viðgengst og sem þar hefur viðgengist eftir að Rússarnir tóku upp þá línu, eða gerðu það á tímabili, að fylgja Bandaríkjamönnum og styðja þá á sínum tíma. Og hvað með aðrar harðstjórnir, þrælakistuna í Kína t.d. sem er falboðin vestrænum auðmönnum aftur og ítrekað?

En ég segi: Saddam Hussein er vissulega einræðisherra, ofbeldisfullur einræðisherra sem á ekkert gott skilið. En þjóð hans á það. Alþýðan í Írak á annað skilið en að ráðist verði gegn henni með viðbjóðslegum nákvæmum tæknivæddum herjum nútímans. Við eigum ekki að skrifa upp á slíkt.

Ég hef velt því fyrir mér í ljósi þeirra ummæla sem við heyrum frá Washington og því miður frá Reykjavík og London, hver skyldi vera hættulegasti einstaklingur jarðarinnar nú um stundir, af hverjum skyldi heimsbyggðinni stafa mest ógn, skyldi hann heita George Bush? (KPál: Saddam.) Ég hef grun um að svo sé. ,,Saddam``, segir hv. þm. Kristján Pálsson. ,,Saddam, Saddam``, endurómar hér úr þingsölum. Það endurómar gagnvart kallinu í Washington (KPál: Hver drepur ...) sem gefur út fyrirskipunina. (KPál: Hver drepur ...) Þegar farið er að skoða sögu þessa heimshluta, þá hagsmuni sem eru í húfi, þá miklu hagsmuni sem eru í húfi og tengsl ráðamanna í Washington við þessa sömu hagsmuni í olíuiðnaði þá gengur dæmið upp. Þá gengur það fullkomlega upp. (KPál: Hver drepur börnin sín?) ,,Hver drepur börnin sín?`` spyr hv. þm. Kristján Pálsson og ætlar að gefa grænt ljós á að börn verði drepin, vegna þess að það gerist í árásarstríði. Það gerist í stríði. Ég vil benda hv. þm. á athyglisverðar greinar sem hafa verið skrifaðar m.a. af John Pilger einum þekktasta fréttamanni heimsins sem var í Víetnam. Hann varaði okkur við, þá menn sem standa eða sitja fjarri vettvangi --- og það gæti vel átt við um menn sem sitja á Alþingi Íslendinga fjarri allri hættu --- að gefa fyrirskipanir eða samþykkja --- samþykkja árás í fjarlægð. (KPál: Ert þú að verja þennan mann?) ,,Ert þú að verja þennan mann?`` spyr hv. þm. Ég er að benda á sögulegt samhengi og ég er að vara við því að Íslendingar ljái þeim manni stuðning sem fer með þessar stríðshótanir og friðaröfl um allan heim eru að reyna að stöðva. Ég er að reyna að vara við því. Ég á mér þá ósk okkur öllum til handa að við tökum undir með öðrum öflum í heiminum sem vilja berjast fyrir friði og jöfnuði og gegn ofríki og ofbeldi á annan hátt en þann sem Bandaríkjastjórn boðar.

Ég er víst að verða búinn með tíma minn. Ég ætlaði að víkja að öðrum þáttum einnig og mun gera það í síðari ræðu minni. En aðeins til leiðréttingar. Eitt varð til misskilnings hér á milli mín og hæstv. utanrrh. í andsvari fyrr í dag. Ég tel að vopnuð árás á Írak núna komi ekki til greina. Ég sagði hins vegar að sem almennt prinsipp þá afskrifaði ég ekki undir öllum kringumstæðum beitingu vopna. En í þágu rangláts málstaðar og gegn alþýðunni, eins og hér er boðað, þar segi ég nei.