Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 14:50:18 (4185)

2003-02-27 14:50:18# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[14:50]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Miðað við stöðu mála í dag og fréttir undanfarna daga met ég það svo að aðalhættan geti stafað af því að Bandaríkjastjórn standi við hótanir sínar og ákveði að fara inn í Írak hvað sem Sameinuðu þjóðirnar segja. Af þessu hef ég mjög miklar áhyggjur. Þetta er það sem ég óttast. Má vera að þetta sé eingöngu öflug hótun en þetta óttast ég.

Ég tek undir það með þingmanninum að Sameinuðu þjóðirnar eigi að vera æðsta vald og mjög mikill áhrifavaldur í þessum efnum meðal þjóða. Þannig hefur mér fundist, eins og ég sagði áðan, að alls staðar í löndunum í kringum okkur setji menn Sameinuðu þjóðirnar í öndvegi, óháð bæði hernaðarbandalögum og ólíku samstarfi. Og ég set Sameinuðu þjóðirnar í öndvegi. En ég geri þær kröfur til þeirra að þær eigi þau úrræði sem duga núna, að í upphafi 21. aldarinnar snúist þetta ekki eingöngu um það að ná einhverjum tilteknum meiri hluta til þess að fara í innrás. Ég tala nú ekki um ef það skyldi vera rétt sem þingmaðurinn heldur fram, að málið snúist fyrst og fremst um hagsmuni af olíu en ekki það sem sagt er, þessa ógnarstjórn og það ægivald sem hvílir yfir okkur öllum af hennar völdum.