Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 14:52:09 (4186)

2003-02-27 14:52:09# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[14:52]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Annars vegar hafa menn verið að ræða spurninguna út frá mannúðarsjónarmiðum, að frelsa þjóðina undan ofurvaldi einræðisherra. Og ef menn hefðu verið mjög einlægir í þeirri trú spyr ég hvernig á því standi að vesturveldin, Bandaríkjamenn og ýmsar fylgiþjóðir þeirra, ríkustu þjóðir heims, héldu uppi viðskiptabanni á Írak þegar það var sannað mál og fulltrúar úr hjálparstofnunum Sameinuðu þjóðanna staðfestu það að þetta væri þess valdandi að hundruð þúsunda barna létu lífið. Hvar voru mannúðarsjónarmiðin þá?

Síðan er það hitt, varðandi ógnina. Í grófum dráttum er ég alveg sammála hv. þingmanni. Það er enginn ágreiningur held ég milli okkar. Við erum að velta vöngum yfir ýmsum þáttum þessa máls. Ég tel að það sé a.m.k. mjög vafasöm fullyrðing að halda því fram að núna --- og tíminn er að renna út, klifar alltaf hæstv. utanrrh. á --- stafi grönnum Íraks sérstök ógn af Saddam Hussein. Þeim gæti gert það vegna þessara hótana. En það gerðist í Persaflóastríðinu að Írakar skutu Scud-flaugum á tvö ríki, Sádi-Arabíu og Ísrael. Þá bjuggu þeir væntanlega yfir efnavopnum og sýklavopnum, eða það er talið, það var m.a.s. talið að þeir hefðu fengið efnavopnin frá Bandaríkjunum 1983 á dögum Írans-/Íraksstríðsins. En í hvorugt skiptið voru þessi vopn sett á flaugarnar. Ég auglýsi eftir því að menn geri nákvæmar grein fyrir þeirri ógn sem stafar af Írak núna sem réttlæti það að farið verði í allsherjarhernaðarárás á landið með voveiflegum afleiðingum.