Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 14:56:07 (4188)

2003-02-27 14:56:07# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[14:56]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég kann ekki svör við öllum þessum djúpu spurningum sem hér voru settar fram. Ég var fyrst og fremst að segja að þegar fólk kveður sér hljóðs, hvort sem er á vettvangi Alþingis eða á alþjóðavettvangi, og gefur grænt ljós á hernaðarárás Bandaríkjanna gegn mótmælum mannréttindasamtaka um heim allan, milljónatugum og hundruðum milljóna friðelskandi fólks, þarf það að vera mjög visst í sinni sök.

Ég kann ekki svör við öllum þeim spurningum sem hv. þm. beinir til mín, hvernig á að skilgreina mannúð. Það er svo margt sem ég kann ekki að skilgreina. En við erum að takast á um það í þjóðfélaginu og innra með okkur öllum stundum hvernig við tökum afstöðu til mála og viljum væntanlega gera það á grundvelli mannúðar. Ég efast ekkert um að það viljum við öll gera.

Ég vara hins vegar við því að ef við förum fram sem hér er boðað erum við að mínum dómi ekki að vinna í þágu mannúðar, heldur að þjóna olíuhagsmunum og hernaðarhagsmunum eins mesta herveldis heimsins. Og það er við þessu sem ég er að vara. Um heim allan er að finna ríki sem búa við harðstjórn. Ég talaði um þrælakistuna í Kína, sem er falboðin auðmönnum og fyrirtækjum. Ég vék að Tsjetsjeníu. Það má tala um Kóreu. Ég get farið um heim allan og sýnt fram á slíkt og þetta er nokkuð sem við eigum að reyna að uppræta hvar sem því verður við komið, einnig á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. En við eigum ekki að gera það með þessum hætti. Mér finnst það á skorta að við skilgreinum nánar og leggjum niður fyrir okkur hvað það er sem vakir fyrir Bretum og Bandaríkjamönnum sem eru reiðubúnir að fara með hernaði á hendur þessari þjóð.