Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 14:58:25 (4189)

2003-02-27 14:58:25# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), LMR (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[14:58]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson á erfitt með að skilgreina eða fara djúpt út í skilgreiningu á ,,mannúð`` og á erfitt með að skilgreina ýmislegt sem ég spurði um áðan. Það er einmitt það sem er svo erfitt að gera, að skilgreina innstu gildi mannsins. Við erum öll hér að tala fyrir friðsamlegum lausnum og höfum alla tíð gert. Og ég er hugsanlega sá þingmaður sem hvað oftast hefur hætt lífi sínu til þess að fara í friðarumleitanir á hættusvæði, einmitt á þessum sömu svæðum og við erum að ræða um núna.

Það sem ég er að segja og sagði í ræðu minni sem hv. þm. eflaust ekki heyrði --- vonandi hefur hann þó heyrt hana --- er að við þyrftum að taka ákvarðanir mjög fljótlega vegna þess að af tæknilegum ástæðum verður að hefja aðgerðir innan ákveðins tíma ella verður að draga þær hugsanlega umfram þann tíma sem er innan hættumarka fyrir alþjóðasamfélagið. Og það er það sem ég held að við verðum að meta hvert með okkur. Eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði réttilega er afar erfitt að fara út í heimspekilega þanka hér í ræðustól um skilgreininguna á mannúð. En það er tæknilega hægt að meta hvenær er hægt að hefja aðgerðir, hvenær er ekki hægt að hefja aðgerðir og það er hægt að gera sér í hugarlund hvaða þróun getur átt sér stað innan Íraks á þeim tíma sem við frestum aðgerðum þangað til við getum hafið aðgerðir aftur.