Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 15:00:30 (4190)

2003-02-27 15:00:30# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[15:00]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Tæknilega, herfræðilega og pólitískt telja haukarnir í Washington, þeir sem stýra hernaðarmaskínunni þar og halda um hina pólitísku valdatauma, að nú sé rétti tíminn og tíminn sé á þrotum.

Það sem ég gagnrýndi í tali stjórnarliða, stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar, er að mér hefur virst þeir gefa blessun sína yfir árás á Írak verði ekki farið að ýtrustu kröfum Bandaríkjastjórnar. Ég man ekki betur en að hv. þm. talaði um illskásta kostinn í því efni. Það er þetta sem ég gagnrýni og tel afskaplega varhugaverða afstöðu. Ég tel ekki afsakanlegt með neinu móti að ráðast á þjóðina.

Síðan vakna ýmsar spurningar með manni: Hverjir eru það sem tala? Þetta eru ríki sem sjálf búa yfir kjarnorkuvopnum og hafa hótað því, og Bandaríkjamenn aftur undir nýrri stefnu, að beita kjarnorkuvopnum. Þau hóta því. Þau neita að opna sínar vopnakistur þegar skip kemur inn í höfnina. Við spyrjum: Megum við fara um borð? Eruð þið með kjarnorkuvopn? Því er neitað að svara.

Ísrael lokar sínum vopnabúrum. Hvað með Egyptaland sem fór með efnavopn á hendur Jemenum í borgarastríðinu þar? Er ekki svolítill tvískinnungur í þessu öllu? Ég held það. Mér finnst það.