Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 15:17:59 (4192)

2003-02-27 15:17:59# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[15:17]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla að hreyfa hér nokkrum atriðum sem mér vannst ekki tími til að koma inn á í fyrri ræðu minni. Í fyrsta lagi er það málefni sem hæstv. utanrrh. tók upp í ræðu sinni og gerir að nokkru umtalsefni, mjög svo ánægjuleg að mínu mati, það eru samskipti við okkar næstu nágranna í austri og vestri, Færeyinga og Grænlendinga, og reyndar svæðisbundið samstarf í Norðvestur-Evrópu, samstarf eyþjóða og strandríkja í norðvestanverðri Evrópu. Ég er mjög ánægður með það að hæstv. ráðherra skuli hreyfa við þeim málum með þessum hætti. Ég hef sömuleiðis lengi verið talsmaður þess að við efldum samstarf okkar og reyndar verið þátttakandi í slíkri samvinnu býsna lengi, allt frá árunum upp úr 1980 þegar ég sat í undirbúningsnefnd um samstarf Íslands, Grænlands og Færeyja, sem leiddi að lokum til stofnunar Vestnorræna þingmannaráðsins 1985. Síðan hefur margs konar svæðisbundin samvinna byggst upp á milli þessara grannríkja bæði á pólitískum vettvangi, samstarf ríkisstjórna og ráðherra, árlegir fundir og annað í þeim dúr, sömuleiðis samstarf þjóðþinganna, umtalsverð samvinna á sviði ferðamála, atvinnuþróunarmála í gegnum NORA eða norrænu nefndina þar og vaxandi viðskipti og ýmiss konar samstarf félagasamtaka á menningarsviðinu og þar fram eftir götunum.

Ég er ákaflega spenntur fyrir því að Ísland sinni þessum málum af meiri þrótti og myndarskap, og er ég þó ekki að segja að margt hafi ekki verið vel gert í dag. Ég minni á í því sambandi að ég hef flutt till. til þál. einmitt um eflingu vestnorræns samstarfs og þess sem ég kalla mótun íslenskrar nærsvæðastefnu. Þessi tillaga er nú til umfjöllunar í utanrmn. í annað sinn, hefur verið rædd hér á þingi og fengið góðar undirtektir þingmanna úr öllum flokkum og ég held að ekki sé ofsagt að þær umsagnir sem um tillöguna hafa borist til utanrmn., og þær eru allmargar, eru án undantekningar jákvæðar. Það er því greinilega mikill vilji fyrir því að Ísland efli þátttöku sína og kannski taki það hlutverk sitt alvarlegar en við höfum hingað til gert að draga vagninn í þessari svæðisbundnu samvinnu. En það er nú einu sinni svo að í þessu tilviki erum við kannski stóri bróðirinn, a.m.k. hvað varðar samskiptin við Grænland og Færeyjar, og það er eðlilega og auðvitað mikið horft til þess í þeim löndum hvaða metnað Íslendingar leggja í þátttöku sína í vestnorrænni samvinnu og hvað við leggjum af mörkum í þeim efnum.

En ég tel að það sé einmitt mjög spennandi að útvíkka þetta til svæðisins við norðvestanvert Atlantshafið. Þá koma inn í myndina t.d. norðurhéruð Kanada og Nýfundnalands, þá koma inn í myndina skosku eyjarnar, Orkneyjar og Hjaltlandseyjar, og strandsvæðin jafnvel í Norður- og Vestur-Noregi, þess vegna Írland og þetta svæði í heild sinni. Það hefur verið unnið nokkurt starf að því að byggja upp einhvers konar svæðishugtak í þessu sambandi og eins og ég veit að hæstv. ráðherra er vel heima í hafa verið haldnar tvær stórar ráðstefnur þar sem þessir aðilar, bæði sjálfstæð ríki eins og Ísland og sjálfstjórnarsvæði eins og Grænland og Færeyjar og kannski héruð eins og Hjaltlandseyjar, Suðureyjar eða Orkneyjar eða hvað það nú er í Skotlandi, eru í stjórnkerfinu þar. Nýfundnaland og fleiri aðilar hafa þar mætt með sjálfstæða þátttöku í ráðstefnum um samstarf strandríkja og eyþjóða við norðvestanvert Atlantshaf.

Ég held að Ísland eigi einmitt að nálgast málin með hliðstæðum hætti og þeim sem lagt er upp með í þessari tillögu, þ.e. að reyna að ná utan um málið í heild sinni, móta ákveðna stefnu sem við framfylgjum í þessum efnum, kannski með áætlun til fjögurra ára í senn um helstu aðgerðir sem gripið verði til. Á hvaða sviðum ætla menn að vinna? Ætla menn að leggja sérstaka áherslu á ferðamálasamstarf, uppbyggingu samgangna eða menningu og rannsóknir og fræðasamstarf á þessum og þessum tíma? Það er að ótalmörgum og áhugaverðum, uppbyggilegum verkefnum að vinna í þessum efnum sem hafa bæði menningarlega, sagnfræðilega en líka viðskiptalega þýðingu. Og þær upplýsingar sem m.a. komu fram í ræðu hæstv. ráðherra um mikilvægi viðskipta okkar við þessar nágrannaþjóðir eru auðvitað athyglisverðar, að þau séu að stærðargráðu svipuð eða jafnvel meiri en við milljónaþjóðir og stórveldi eins og Rússland eða Kína eða hvað það nú er.

Herra forseti. Mér þykir því vænt um þann tón sem þarna er sleginn í ræðu ráðherrans að þessu leyti og ég vonast til að það geti orðið til þess að frekari skriður komist á málin að þessu leyti hvað varðar bæði stefnumótun og praktískar beinar aðgerðir. Ég nefni þar alveg sérstaklega aftur samgönguþáttinn. Það er auðvitað alveg augljóst mál að eitt af því sem háir þessu samstarfi eru óhöndugar samgöngur, alveg sérstaklega milli Íslands og Grænlands. Það er auðvitað algjörlega út úr öllu korti hvað það kostar að ferðast hér á milli og hversu óhagkvæmt það er og dýrt bæði hvað varðar tíma og peninga, að það skuli kosta jafnvel á þriðja hundrað þúsund krónur og taka tvo daga ef menn ætla að ferðast milli höfuðborga Íslands og Grænlands. Það er auðvitað algjörlega óheyrilegt. Það sem þarf að gera er að koma á áætlunarflugleið milli höfuðstaðanna þriggja, þ.e. Þórshafnar í Færeyjum, Reykjavíkur og Nuuk. Það er tæknilega hægt að gera, t.d. með þeim flugvélum sem færeyska flugfélagið hefur í sínum flota. Það sem á vantar er einhver stuðningur stjórnvalda til að tryggja rekstrargrunn undir slíkri flugleið fyrstu árin á meðan hún er að komast á kortið og það eru allar ástæður til að ætla að innan fárra ára gæti hún orðið sjálfbær með vaxandi samskiptum þessara þjóða, hreinlega vegna vöruflutninga sem féllu til o.s.frv.

Í öðru lagi, herra forseti, ætla ég aðeins að nefna Evrópumálin sem ég kom lítið inn á í ræðu minni nema þá helst í andsvörum og sérstaklega við hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem ekki er nú lengur hér á meðal vor heldur einhvers staðar annars staðar á ferðalagi --- og misskilji nú enginn mín orð, ég hef grun um að hv. þm. sé á leiðinni vestur á firði. Það er að vísu þannig að í ræðu ráðherra er frekar færri orðum vikið að Evrópumálum en stundum áður, og ég í stráksskap mínum lét mér detta í hug að það væri vegna þess að það leit út eins og þessi mál hefðu svolítið verið sett á ís hjá þeim framsóknarmönnum á fundi þeirra um síðustu helgi. Alla vega önduðu einhverjir léttar og töldu það vera eina af merkustu niðurstöðum þingsins að því hefði verið frestað að taka ákvörðun því að það hefði fallið sá salómonsdómur af munni hæstv. utanrrh. og formanns Framsfl. að ekki væri tímabært fyrir framsóknarmenn að taka ákvörðun í málinu.

Sömuleiðis hafa þeir atburðir orðið um svipaðar mundir að formaður Samfylkingarinnar er kominn allur í bakkgírinn í málinu, eins og ég veit að hv. þm. Björn Bjarnason getur vitnað um því að hann hefur átt við hann orðastað um þau efni í fjölmiðlum. Og gerði formaður Samfylkingarinnar jafnvel lítið úr því, að þetta yrði ekki sérstakt kosningamál og væri allt í höndum Sjálfstfl. hvernig þetta færi. Það hefði ekki mikið upp á sig að aðrir ræddu þetta fyrr en Sjálfstfl. væri kominn til vits í málinu, eins og ég hygg að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi orðað það, svona um það bil.

Það eru auðvitað talsverð tíðindi ef þessir tveir helstu forkólfar þess að koma Evrópumálunum áfram eru eiginlega að salta þetta dálítið hjá sér núna í aðdraganda kosninganna, kannski vegna þess að menn eru að átta sig á því að þetta er ekki eins góð söluvara og þeir héldu. Það er t.d. alveg splunkuný og nokkuð vönduð skoðanakönnun í höndum landsmanna þar sem í ljós kemur að andstaðan er heldur vaxandi við það að ganga í Evrópusambandið og allskýr og vel marktækur meiri hluti þjóðarinnar virðist ekki telja það fýsilegan kost. Það er út af fyrir sig athyglisvert að Íslendingar virðast bregðast öðruvísi við en t.d. Norðmenn þar sem þróunin hefur verið heldur í hina áttina eða var, það er nú kannski að stöðvast núna sem betur fer, að menn brugðust þannig við m.a. kröfum Evrópusambandsins um óheyrilegar greiðslur í þróunarsjóði í tengslum við stækkun Evrópska efnahagssvæðisins, með stækkun Evrópusambandsins, að Norðmenn hafi kannski hugsað sem svo í sálinni: Ja, er þá ekki bara best að ganga í klúbbinn ef við eigum að þurfa að borga svona rosalega mikið hvort sem er?

En það má um Íslandsmanninn segja að þar hafa menn brugðist alveg öfugt við, því að það er mjög nærtækt að tengja þessa þróun í skoðanakönnunum við þennan atburð sem kannski er mest umtalaður af þeim sem uppi hafa verið og tengjast Evrópusambandinu, alla vega af neikvæðum toga. Því að væntanlega væru Íslendingar ekki að gerast andsnúnari því að ganga í Evrópusambandið en áður var út af stækkun þess t.d. sérstaklega eða öðrum slíkum hlutum. Ég held að langeðlilegast sé að álykta sem svo að Íslendingum líki ekki framganga og framkoma af þessu tagi, að ætla að fara að reisa við okkur óheyrilegar peningakröfur af því einu að gera þarf smálagfæringar á samningum til þess að viðskiptakjör okkar gagnvart Austur-Evrópu versni ekki við þá breytingu. Við erum ekki að fara fram á nein ný hlunnindi, neinar nýjar ívilnanir, aldeilis ekki. Það eina sem málið snýst um er að gera þær lagfæringar að viðskiptakjör okkar gagnvart Austur-Evrópuríkjum versni ekki við það að þau ganga í Evrópusambandið. Er það grundvöllur fyrir þessum óheyrilegum kröfum? Nei, auðvitað ekki. Þess vegna bregðast menn eðlilega þannig við hér að þeir segja: Nei, bíddu nú við, þetta er ekki klúbbur sem okkur hugnast sérstaklega vel.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson leiddi að því líkur að þetta væri til marks um samningahörku Evrópusambandsins og þess vegna þyrftum við ekki að kvíða því að ganga í það, vegna þess að þá mundi það af sömu hörku semja fyrir okkar hönd um hlutdeild okkar t.d. í deilistofnum. Þetta eru skemmtilegir loftfimleikar í röksemdafærslu, en halda nú ekki að ég tel, vegna þess að auðvitað er þetta ekki spurning um einhverja mikla samningatækni eða -hörku. Þetta er spurning um hvernig Evrópusambandið vinnur. Það vinnur nákvæmlega svona. Þegar koma færi á hrossakaupum þá eru þau notuð, og við þekkjum það, Íslendingar, að það þarf ekki alltaf að vera mjög réttmætt tilefni. Þegar út var runninn sá tími sem EFTA-ríkin, sem gerðust aðilar að EES, áttu að greiða í þróunarsjóðina, og það voru allir sammála um að lagalega og hvað varðaði samningana var það þannig að greiðslurnar áttu að falla niður frá og með tilteknu ári, þá kom bara Evrópusambandið í krafti þess að einhver önnur samskiptamál voru uppi og sagði: Þið skuluð borga. Þið skuluð borga, sögðu Spánverjar. Þannig gengur þetta yfirleitt fyrir sig. Ef menn komast í færi til að versla, þá er það gert, þá er það notað. Og þeir sem ekki þekkja til innviða Evrópusambandsins og vita að það er á köflum eins og einn risavaxinn hrossamarkaður af þessu tagi, ættu að lesa sér betur til. Það gengur mjög mikið út á það að lönd sem komast í aðstöðu til þess að hafa nokkuð fyrir snúð sinn, nota það tækifæri. Lönd kannski skilyrða stuðning sinn við alls óskylda hluti því að þau fái mál sín leyst í leiðinni. Gegn því að styðja þetta þá fáum við þetta o.s.frv. Þarna sjáum við glitta í þetta eðli hins innra gangverks þessa fyrirbæris. Það er fróðlegt og lærdómsríkt og alveg sérstaklega ætti það að vera umhugsunarefni þeim mönnum sem vakandi og sofandi dreymir um að ganga þarna inn. En ég tel að ákvarðanatökuaðferðir í Evrópusambandinu og það hvernig lýðræðið er þar á vegi statt séu a.m.k. ekki góð rök fyrir því að gera það. Svo er ýmislegt annað þar sem vegast á kostir og gallar eins og gengur og það skulum við ræða og eigum endilega að gera.

Ég tel fagnaðarefni að væntanlega verður skipuð innan skamms sú nefnd um Evrópumál sem hæstv. forsrh. hefur leitað til stjórnmálaflokkanna um að gert verði. Við höfum tekið því afar vel og þegar svarað því erindi og erum tilbúin til að tilnefna okkar fulltrúa um leið og ósk um það berst og væntum þess að það gildi um aðra. Ég held að það sé þrátt fyrir allt skynsamlegt að setja málin í þennan farveg og vinna þau þannig, ekki til að reikna með því að þar með verði þeim lent með einhverju endanlegu samkomulagi allra stjórnmálaflokka, það væri óraunsæi að reikna með slíku, enda upplegg nefndarstarfsins ekki slíkt, heldur að vera vettvangur skoðanaskipta og vettvangur þar sem menn ræða stöðu mála á hverjum tíma og það eiga menn auðvitað að gera. Þetta eru eins og iðulega er bent á að sjálfsögðu mikilvæg mál og varða miklu um viðskiptastöðu okkar og stjórnmálastöðu á komandi árum.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það muni minna gerast í þessum efnum á allra næstu árum en margir halda, ósköp einfaldlega vegna þess að aðstæður í norskum stjórnmálum eru þannig að þar verður ekki hreyfing á, væntanlega ekki fyrr en eftir árið 2006. Ég geri mér vonir um að Svíar hafni aðild að evrunni og þá mun það létta á þrýstingnum sem ella yrði uppi.

Það síðasta sem ég ætlaði að nefna, herra forseti, bara til að halda venjunni, eru hin dapurlega lágu framlög Íslendinga til þróunarsamvinnu sem að vísu eru kannski örlítið að þokast upp miðað við upplýsingar sem við fengum í utanrmn. og þá á grundvelli þess að aukin framlög okkar til friðargæslu fáist flokkuð sem framlög á þessu sviði og það er vel, en samt er óralangt í land að Ísland geti í raun og veru verið þekkt fyrir það hversu lítið við, þessi ríka þjóð, leggjum þarna af mörkum og því þarf að breyta.