Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 15:33:21 (4193)

2003-02-27 15:33:21# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[15:33]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem hv. þm. kom inn á sem ég ætla að bregðast við. Annars vegar þessar óheyrilegu kröfur um greiðslur Íslands í Evrópusambandið og í því efni held ég að sé enginn munur á flokkunum hér á Alþingi. Mér hefur heyrst að við séum öll sammála um að þær eru ósanngjarnar og við höfum brugðist eins við þeim þannig að þar erum við saman á báti. Hitt var um að Framsfl. og Samfylkingin séu að draga í land í afstöðunni til Evrópusambandsins. Ekki ætla ég að svara fyrir Framsfl. en hvað Samfylkinguna varðar hefur hún markað sér sína stefnu í þeim málum og sem er einfaldlega sú að skilgreina samningsmarkmið og leita eftir aðildarviðræðum um þau. Að sjálfsögðu yrði þá væntanlega komist að niðurstöðu um þau í samstarfi við ríkisstjórn. Og verði af samningum verður að leggja þá fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta er það sem Samfylkingin hefur markað. Að öðru leyti hefur Samfylkingin ákveðið að standa fyrir umræðu um þessi mál og hún hefur haldið því áfram. Nýverið hafa verið haldnir tveir fundir, einmitt undir fyrirsögninni ,,Umræðan``, annar í Reykjavík, sá síðari reyndar í kjördæmi þingmannsins á Akureyri þar sem fjallað var um sjávarútvegsmál og þar sem annar framsögumanna var Þorsteinn Már Baldvinsson sem manna best þekkir hvernig er að starfa í sjávarútvegi, annars vegar hér á Íslandi undir skilmálum okkar Íslendinga og hins vegar í löndum Evrópusambandsins. Það var mjög fróðlegur fundur. Samfylkingunni var í raun og veru klappað lof í lófa fyrir að standa fyrir umræðu af þessu tagi og við munum halda því áfram.