Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 15:35:31 (4194)

2003-02-27 15:35:31# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[15:35]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að út af fyrir sig sé skiljanlegt að það sé ekki hafður í frammi mikill ágreiningur hér um kröfugerð Evrópusambandsins. Það væri ekki gott veganesti fyrir einn eða neinn held ég í íslenskum stjórnmálum að ætla að gerast stuðningsmaður þeirrar kröfugerðar eða telja það sanngjarnt að við yrðum látin borga þetta. Það er úr öllu samhengi við eðli málsins og aðstæður þess, það er ósköp einfaldlega bara algerlega fráleitt. Ef Evrópusambandið hefði nálgast okkur og Norðmenn og sagt sem svo: Það mun kosta mikla peninga að stuðla að uppbyggingu í austanverðri Evrópu, eruð þið til í að koma með í það verkefni? væri það allt annað mál. Ég hefði verið talsmaður þess að við hefðum skoðað slíkt með jákvæðum hætti en er ekki hlynntur því að láta þvinga okkur til greiðslna af þessu tagi út á það að leysa úr smávægilegum tæknilegum málum, næstum því að segja. Ég kalla það það sem upp kemur þegar fríverslunarsamningar Austur-Evrópuríkjanna falla niður og þau ganga inn fyrir tollmúra Evrópusambandsins. Það kalla ég í raun og veru tæknilegt úrlausnarefni, að ganga frá málum þannig að viðskiptakjörin versni ekki við þær breytingar. Það er svo hlálegt í nútímanum þegar allir eru talandi fyrir fríverslun og hnattvæðingu og hvað það nú er, að allar breytingar af þessu tagi eigi að fara að leiða til versnandi viðskiptakjara milli grannríkja hér í Evrópu. Það er fráleitt.

Ég orðaði það kannski ekki beint þannig að Samfylking og Framsfl. væru að draga í land, þá á ég ekki við að þau séu eitthvað að breyta um afstöðu í Evrópumálum að svo miklu leyti sem afstaðan er þá skýr, og má um það deila hversu ljóst þetta allt saman er, t.d. hjá Framsfl. sem var með mikið nefndastarf sem magalenti eiginlega í status quo í flokknum. Það sem ég sagði var að mér virðist eins og það gæti tilhneigingar til að ýta þessu máli út úr sviðsljósi kosningabaráttunnar nú. Það er eins og þessir forustumenn flokkanna telji það ekki kannski eins gott veganesti, eins góða söluvöru í kosningabaráttunni og þeir hefðu áður væntanlega reiknað með.