Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 15:37:46 (4195)

2003-02-27 15:37:46# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[15:37]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var kannski ekki alveg ljóst hvað þingmaðurinn var að fara þegar hann fjallaði í ræðu sinni um greiðslurnar og þess vegna fannst mér vel við hæfi að koma hingað og árétta að um þetta er ekki ágreiningur.

Varðandi sviðsljósið og kosningabaráttuna er hún kannski ekki komin í fullan gang og þetta mun bara hafa sinn hraða. En það er alveg ljóst að liðsmenn Samfylkingarinnar eru ekki búnir að taka ákvörðun um það og það hefur aldrei verið kynnt þannig að Samfylkingin vilji ganga í Evrópusambandið. Það er ástæða til að árétta að það kom fram í ræðu Össurar Skarphéðinssonar, formanns Samfylkingarinnar, hér í morgun að það eru sjávarútvegsmálin sem þarna eru ráðandi. Væru önnur mál í lagi varðandi það að skoða aðild að Evrópusambandinu mundi það falla algerlega til hliðar ef ekki næðist sátt um sjávarútvegsmálin. Það er ekki ágreiningur milli flokkanna varðandi yfirráð yfir auðlindinni.

Auðvitað finnst mönnum gaman að takast á um þetta og sérstaklega finnst mér að strákunum finnist gaman að leggja hver öðrum svolítið orð í munn og gera þeim upp skoðanir eða æsing eða minni æsing, ég ætla ekkert að leggja dóm á það. Össur Skarphéðinsson hefur haft afdráttarlausustu skoðunina varðandi Evrópusambandið. Staða Samfylkingarinnar og stefna er algjörlega klár.