Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 15:57:20 (4199)

2003-02-27 15:57:20# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), BBj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[15:57]

Björn Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara að ræða herfræðileg málefni við hv. þm. og hvaða leiðir séu bestar til að tryggja öryggið í hverju tilviki fyrir sig. Ég tel að það sé blanda af ýmsum úrræðum sem þurfi að grípa til, m.a. hafi varnarsamningur okkar við Bandaríkin mikið gildi og ég tel að gildi hans hafi ekkert minnkað og sá varnarviðbúnaður sem Bandaríkjamenn hafa haft á Íslandi sé jafnmikilvægur nú og áður. Enginn vafi er um það í mínum huga.

Ég hef hins vegar á undanförnum árum bæði hér og annars staðar vakið máls á því að það sé til fleiri þátta að líta og ég tel að viðbrögðin fari náttúrlega eftir niðurstöðu í því hættumati sem ég taldi að væri nauðsynlegt til að menn leituðu þó að samnefnara í þessu, því að um þetta er ekki og á ekki að vera einhver flokkspólitískur ágreiningur heldur eiga menn að leitast við að komast að skynsamlegri niðurstöðu og haga aðgerðum sínum í samræmi við það.

Ég er líka þeirrar skoðunar að samhliða því sem við áréttum mikilvægi varnarsamningsins við Bandaríkin þá hugum við að því hvað við eigum að gera sjálf til að tryggja öryggi okkar og hvernig hin nýja ógn sem fram kemur skýring á, m.a. í ræðu og skýrslu hæstv. utanrrh., verkar á stöðu okkar. Það er þetta sem ég er að tala um, ég er ekki að tala um neinar óformlegar viðræður við Bandaríkjamenn eða slíkt, ég er að tala um hvað við sjálf metum nauðsynlegt með hagsmuni okkar í huga.